Ólympíuhlauparinn Swartzenegger

Ég er uppi í Whistler í dag. Keyrði upp strax eftir vinnu. Við leigðum hús fyrir túlkana okkar sem munu dvelja hér uppfrá. Þeir koma ekki fyrr en á föstudaginn og af því að ég á frídag á morgun þá ákvað ég að nota tækifærið, keyra upp, gista hér og skíða svo á morgun. Ég keyri síðan til baka annað kvöld eða á miðvikudagsmorguninn.

Þetta hús er stórkostlegt. Það er glænýtt, aldrei verið búið í því—kostar þrjár milljónir dollara. Margfaldið það með sirka 119. Húsið er á þrem hæðum. Nokkurs konar barnfóstruíbúð í kjallaranum, stofa og eldhús á fyrstu hæð og þrú svefnherbergi og tvö baðherbergi á annarri hæð. Það er flatskjássjónvarp í öllum herbergjum, þráðlaust internet, og arinn bæði í stofunni og hjónaherberginu. Það tekur sirka tuttugu mínútur að ganga í miðbæinn.

Ég kom dótinu mínu fyrir og fór svo inn í bæ þar sem Ólympíustarfsmenn komu saman á bar nokkrum fyrir ofan Whistler kláfinn. Þar hitti ég nokkra, en stoppaði stutt því ég var þreytt og ég vil sofa vel í nótt svo ég nái góðum degi á skíðum á morgun. En gangan var falleg og það er ákveðinn jólasvipur á bænum því öll tré eru meira og minna upplýst. Á verðlaunatorginu var verið að æfa verðlaunaafhendingu og raddir á ensku og frönsku þrumuðu yfir hverfið. Whistler er að taka á sig blæ Ólympíuleikanna.

Í skyldum fréttum, Arnold Swartzenegger mun hlaupa með Ólympíueldinn einhvern næstu daga!!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Það er nóg af snjó norður á Akureyri ef þið verðið í einhverjum vandræðum að finna skíðabrekkur þarna hjá þér. Bara senda liðið til Íslands. :)

Marinó Már Marinósson, 9.2.2010 kl. 10:26

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Nei, þeir myndu frekar taka snjóinn og flytja hann til okkar. Það er það sem þeir hafa verið að gera. Flytja snjó á milli svæða.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.2.2010 kl. 16:00

3 Smámynd: Halldór Jóhannsson

Færð þú ekki húsið(HÓLLINA) þegar að móti líkur,sem vinnulaun:):) Þú verður nú að skokka með kappanum spölkorn:)

Bestu kveðjur...

Halldór Jóhannsson, 9.2.2010 kl. 20:29

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ég ætlaði nú ekkert að segja, bara læðast burt jafn skjótt og hljóðlega og ég kom til að trufla ekki eða raska ró ungfrúarinnar hér, en MMM fer emð svo mikla lýgi hérna að ekki er hægt að láta ósvarað. Í yndislegasta bæ í heimi er nefnilega ENGIN snjór núna, þó hann finnist vissulega í fögru skíðabrekkunum fyrir ofan!

Óska þér alls hins besta Kristín í verkefninu stóra framundan!

Magnús Geir Guðmundsson, 9.2.2010 kl. 22:44

5 identicon

Ég verð að segja að mér finnst frekar leiðinlegt að lesa svona ógagnrýnar frásagnir af Ólympíuleikunum. Peningunum sem er búið að eyða í þetta sem hafa verið teknir úr heilbrigðiskerfinu, búið að glæpvæða fjölda fólks sem er heimilislaus og í fátækt, eyðilegging umhverfisins vegna Sea-to-Sky vegarins og allra framkvæmdanna, hvernig er verið að nánast banna mótmæli nema á fyrirfram ákveðnum svæðum, hvernig er búið að taka flóknar og heilagar hugmyndir og goðsagnir indjána og breyta þeim í tuskudýr, hvernig merkið (inukshuk) er frá inúítum sem búa langt frá og hafa ekkert við þá að gera... til að halda risastórt partý fyrir efnaða einstaklinga og láta Coca Cola og McDonald's græða á tá og fingri. Ekki minn tebolli.

Sólveig (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 06:40

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Sólveig mín, það er greinilegt að þú veist voðalega lítið um þetta og hefur eingöngu hlustað á hlið þeirra sem ljúga. Ég get svo sem bent þér á ýmislegt.

a) Coca Cola og McDonalds, og aðrir sponsorar hérumbil borga leikana. Þeir leggja óhugnalega háar upphæðir í dæmið og það sem þeir fá í staðinn er auglýsing. Góð auglýsing en líka rándýr. Ekki er ljóst hvernig þeir koma út úr þessu fjárhagslega.

b) Þetta risastóra partý er ekki eingöngu fyrir efnaða einstaklinga. Öll borgin verður eitt stórt partý og á hverju götuhorni verða ókeypis atburðir, svo sem tónleikar, listasýningar ofl. Og það er meira að segja hægt að fara á íþróttaviðburði án þess að vera efnaður. Ég á sjálf miða á fjóra keppnisviðburði og ég keypti þá með mínum peningum og ég er mun nær því að vera fátæk en rík.

c) Hvaða máli skiptir að inútíarnir búa langt í burtu? Það er verið að reyna að gera þetta að leikum Kanada en ekki bara BC. Þeir hamra það stanslaust í eyrum manns.

d) goðsagnir breytt í tuskudýr? Og það hefur aldrei verið gert áður? Hefurðu séð huldufólkið í Manitoba sem seld eru þar t.d. á Íslendingadaginn? Hitt er annað mál að það er ekkert verið að taka sérlega goðsagnir indjána og breyta þeim í dýr. LUkkutýrin eru samansett úr ýmsum goðsögnum og dýrum frá svæðinu. Miga er t.d. sambland af háhyrningi og Kormode birni. Bæði eru til í alvörunni. Quatschi sem er Sasquatch er goðsogn sem þekkist hér um bil út um allan heim, kallaður Stórfótur. Aðeins Sumi er úr goðsagnalífi indjána. Og first minnst er á indjána. Þeir græða meir á leikunum en líklega nokkur annar. Vinur minn einn er Squamish indjáni og hann hefur sagt mér að þeir hreinlega raki inn seðlunum út af leikunum.

e) Friðsöm mótmæli hafa verið leyfilegt sama sem hvar sem er. Reynt er að koma í veg fyrir mótmæli eins og þau í VIctoria þar sem mótmælendur næstum því drápu hest þegar þeir voru að mótmæla hlaupinu með ólypíueldinn. Ég labbaði niður Granville götu fyrir nokkru dögum. Þar voru alls konar mótmæli í gangi og enginn skipti sér af því. Labbaði svo niður Burrard. Þar voru mótmæli í gangi og enginn skipti sér af því. En þetta voru friðsamleg mótmæli. Ekki verið að skemma neitt.

f) Sea-to-sky vegurinn var einn hættulegasti vegur í Bresku Kólumbíu. Fjölmörg dauðaslys þar. Það þurfti að breikka þennan veg og það var löngu búið að ákveða það. Verkinu var bara flýtt vegna Ólympíuleikanna. Þú getur ekki klínt þessum umhverfisspjöllum á leikana, ef þetta eru þá einhver umhverfisspjöll.

g) Glæpavæða heimilislaust fólk? Hvernig þá? Og hvað hafa ríkisstjórnir þessa fylkis gert fyrir heimilislausa utanfarin fimmtán tuttugu ár, og þótt lengra aftur sé farið? Ekkert. Ég hef lesið fjölmargar greinar um afskiptaleysi stjórnvalda síðustu áratugi. Ef engir Ólympíuleikar hefðu verið, þætti þér líklegt að þessir peningar hefðu verið notaðar í að leysa vanda heimilislasra? Ég þori að veðja ekki. Ég er sammála því að það er betra að leysa þann vanda en að halda Ólympíuleika, en það eru næstum engar líkur á að sú hægri stjórn sem er við völd hefði gert nokkuð í því. Enda sérðu að það eina sem hefur virkilega verið gert fyrir heimilislausa er eftir að Robertson tók við sem bæjarstjóri, og það var nú bara í fyrra.

h) Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu (og einnig í menntamálakerfinu) hefur sama og ekkert með Ólympíuleika að gera, heldur hægri stjórnina sem er við völd og kreppuna í heiminum. Maður á ekki bara að velja sér þann blóraböggul sem manni finnst ljótastur. 

Ég er ákaflega þreyttá að heyra í fólki sem fyrst myndar sér skoðun og býr svo til rök til að styðja þá skoðun. Eða hlustar á einleitar skoðanir annarra sem hugsa eins. Og svo blandar fólk öllu saman og skilur ekki einu sinni hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. 

Dæmi. Styrktaraðilar borga allan framkvæmdakostnað, ekkert af þeim kostnaðir kemur úr vasa skattgreiðenda. 

Það sem skattgreiðendur borga er 

a) Canada line lestin (sem var löngu búið að ákveða að leggja en var flýtt fyrir Ólympíuleikana - þjónar nú flugvellinum og Richmond og hefur stórbætt samgöngur).

b) Sea-to-sky vegurinn sem einnig var löngu búið að ákveða að breikka vegna hárrar slysatíðni, en var einnig flýtt vegna Ólympíuleika

c) Hluti af byggingu Richmond Oval, UBC, og Hillcrest. Hinn hlutinn byggður af peningum frá styrktaraðiljum sem kemur sem gjöf til svæðisins. UBC borgaði til dæmis aðeins um fjórðung í nýju hokkíhöllinni sem þá sárlega vantaði og VANOC greiddi 3/4 með peningum frá styrktaraðiljum. Ég veit ekki hvert hlutfallið var í hinum byggingunum en báðar eru byggingar fyrir íþróttaiðkunn sem bráðvantaði. Sérstaklega var þörf á byggingunni í Richmond sem eftir leika verður breytt í almenna íþróttaðstöðu fyrir fólkið í borginni.

d) Hugsanlega hluti af Ólympíuþorpinu. Það  hefði auðvitað aldrei átt að gerast og hafði ekkert með VANOC að gera. Heimski bæjarstjórinn sem við höfðum í fyrra samþykkti að borgin tæki á sig skuldir ef verktakinn lenti í vandræðum. Það voru hans loforð. Gleymdu heldur ekki að VANOC bara leigir þorpið frá verktakanaum sem hefur nú þegar selt flestar þessa bygginga. Nauðsynlega viðbót í húsnæðislausri borg. Og ekki gleyma heldur að fjöldi íbúðanna er sett til hliðar fyrir láglaunafólk sem þarf á félagslegri þjónustu að halda. Það hjálpar kannski ekki þeim sem eru á götunni núna en það hjálpar þeim sem eru um það bil að lenda á götunni.

e) Security. OK, þar er ég sammála að VISU (Vancouver integrated security unit) fór yfir strikið. Ekki nauðsyn á allri þessari öryggisgæslu. En enn og aftur, ekki ákvörðun VANOC. Algjörlega á ábyrgð lögreglunnar og hersins.

Og af því að ég þarf að fara og gera annað þá vil ég bara benda á í lokin að enginn má gleyma áhrifunum sem Ólympíuleikarnir hafa á íþróttaiðkun barna og unglinga, sem hafði verið á miklu undanhaldi undanfarna áratugi. Leikarnir eru ekki hér enn og nú þegar hefur þátttaka aukist gífurlega í flestum vetraríþróttagreinum. Í fitnandi þjóðfélagi er slíkt ómetanlegt.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.2.2010 kl. 16:33

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Vildi bæta einu við. Þú segir að þér finnist leiðinlegt að lesa svona ógagnrýnar frásagnir af Ólympíuleikum. Þú gerir þér grein fyrir að ég vinn fyrir Ólympíuleikana? Finnst þér líklegt að ég sé að skrifa blogg til að gagnrýna vinnuveitandann minn? Vivnnan fyrir Ólympíuleikana hefur verið svo frábærasta sem ég hef nokkurn tímann haft, og ég hef sennilega verið hamingjusamari þar en ég hef lengi verið. Þú getur því alveg sleppt því að koma á mitt blogg til að lesa neikvæðni. Ég mun skrifa um Ólympíuleikana eins og þeir snúa að mér. Þú getur búið til eigið blogg og verið með neikvæðnina á móti.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.2.2010 kl. 16:46

8 Smámynd: Halldór Jóhannsson

Það var nú aldeilis svar-lesturinn vegna Sólveigar...þakka þér fyrir greinargóð svör þar:)Ég trúi því vel að þetta sé hreint ævintýri fyrir þig..Vegni þér vel:)Kveðja..

Halldór Jóhannsson, 10.2.2010 kl. 21:29

9 identicon

Ég verð að segja að mér finnst ekki gaman að heyra að rök mín hljóti að vera lygar og að ég sé fáfróð um þessi mál. Það vill svo til að ég hef þessi rök frá hámenntuðu fólki, bæði innan háskóla og utan, sem hefur kynnt sér þessi mál vandlega, oft í mörg ár. Þakka þér samt fyrir að hafa tekið tímann til að svara mér vel. Ég skal svara nokkrum punktum:

Fyrir indjánum og inúítum er Kanada ekki "eitt land." Til dæmis er öll British Columbia ennþá lagalega séð indjánaland, þar sem aldrei hafa verið gerðir samningar um að þetta land sé látið af hendi, fyrir utan litlu Douglas samingana á suðurhluta Vancouver eyju, og Peace River svæðið í norð-austri sem er hluti af Treaty 8, svo og samningarnir sem hafa verið gerðir á undanförnum áratugum, fylgjandi Delgamuukw dómsmálinu. Þetta er oft ekki talað mikið um, og ég þori að veðja að stór hluti þeirra sem fagna ólympíuleikunum gera sér ekki grein fyrir því að þeir eiga sér stað á stolnu landi. Þetta er eitt af því sem mótmælendur eru að reyna að vekja athygli á og hefur leitt til slagorðsins "No olympics on stolen native land." Ein af stærstu mistökunum sem voru gerð í 1988 ólympíuleikunum í Calgary var að segja alla frumbyggja Kanada undir einn hatt með "The Spirit Sings" sýningunni í Glenbow safninu, án þess að gera grein fyrir því að þjóðir Kanada eru jafn margar og fjölbreyttar og t.d. þjóðir Evrópu. Það er rétt að það eru fjórar founding nations (þ.á.m. Squamish) sem styðja ólympíuleikana í Vancouver, og gera það peningana vegna, en þær tala ekki fyrir aðrar þjóðir, ekki frekar en Frakkland talar fyrir Finnland. Inúitarnir í norður-Kanada þannig koma ólympíuleikunum ekkert við, og að nota inukshukinn sem er merki með praktískri, sögulegri, menningarlegri, andlegri, etc, merkingu, finnst mörgum móðgun. Það sama á við mascotsin. Að sjálfsögðu er það oft gert að goðsögnum er breytt í tuskudýr og seld. Málið er að það var ekki haft samband við þær þjóðir sem hafa þessar goðsagnir. Og sea-to-sky þjóðvegurinn var vissulega hættulegur, en það breytir því ekki að hann fer í gegnum indjánaland sem er ekki búið að semja um og olli miklum umhverfisspjöllum. Það sama á við um framkvæmdirnar í Whistler. Þessu var mikið mótmælt. 

Svo er alveg rétt að það er langt í frá að VANOC sé ábyrgt fyrir öllu því sem ég nefndi. Enda beinast mótmæli að bæði VANOC, lögreglunni, ríkisstjórninni, og fyrirtækjunum sem taka þátt í þessu (sem mörg eru þekkt fyrir brot á mannréttindum og miklum umhverfisskemmdum, sbr. Royal Bank of Canada og olíusandarnir í Alberta, varla þarf að taka fram um Coca Cola og McDonald's). Það bara segir ýmislegt um forgangsröðun stjórnvalda þegar risastórt partý er haldið, þó það sé fyrir alla borgina (nema þá fátæku og heimilislausu, því það er verið að hrekja þau af götunni, með því að banna útigang, betl, o.sv.frv. s.s. í raun verið að banna að vera fátækur - það er það sem ég á við með glæpvæðingu (criminalization)) á meðan það er verið að skera niður nánast allsstaðar annarsstaðar, meðal annars er verið að skera úr fjárframlögum til íþróttaiðkunar. Svo má bæta því við að 99% mótmælenda t.d. í Victoria hefðu aldrei látið sér detta í hug að skaða dýr - einhver einn einsaklingur setti marmarakúlurnar fyrir hestinn en svo kom í fréttunum að mótmælendur hata dýr. Ég hef það beint frá einum skipuleggjanda þessara mótmæla að það var alls ekki frá þeim komið. 

Ég læt hér staðar numið. Það er frábært að þú nýtur þín í starfi, og það er rétt, ég get ekki reiknað með því að þú gagnrýnir vinnuveitanda þinn. Ég vildi bara minnast aðeins á hina hliðina, eða hluta hennar (því það eru jú margar hliðar á hverju máli). Mér finnst eins og margir, sérstaklega á Íslandi, heyri bara um eina hlið málsins, sem er sú að Ólympíuleikarnir séu frábærir.

Sólveig (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 22:38

10 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þakka þér fyrir bréfið Sólveig. Þú þarft ekkert að segja mér um stöðu indjána í Bresku Kólumbíu, ég er málvísindakona sem hef unnið mikið með indjánum á þessu svæði og marga vini sem eru indjánar. Ég veit alveg hvernig komið hefur fram við þá. Og ef Ólympíuleikarnir eru haldnir á stolnu landi, sem má svo sem til sanns vegar færa, þá get ég líka bent á að við öll hin búum líka á stolnu landi. Líka þeir sem mótmæla sem mest. Þeir ættu því að líta sér nær og flytja andskotans rassinn á sér í burt af hinu stolna landi því ég get ekki séð muninn á því að búa á stolnu landi og halda ólympíuleika á stolnu landi. Ólympíuleikarnir standa aðeins yfir í tvær vikur en hvíta fólkið sem stal landinu af indjánum gerði það til framtíðar. Þeir sem mótmæla Ólymíuleikunum með þessu slagorði ættu því að sjá sóma sinn í því að skila landinu til baka, og þar með talið sínu eigin húsnæði.

Ég viðurkenni að það er margt hér sem mætti betur fara og hægt væri að nota peningana í margt betra. Og kannski er það þar sem kemur í ljós munurinn á t.d. mér og flestum þeim sem mótmæla Ólympíuleikum. Ég viðurkenni að ýmislegt er að, en mótmælendur virðast adrei getað viðurkennt að neitt gott komi út úr leikunum. Þú minnist til dæmis ekki á það sem ég benti á, að íþróttaiðkunn barna og unglinga hefur tekið stóran kipp.

Þér er velkomið að mótmæla ólympíuleikunum eins og þig lystir, en ég vildi heldur að þú gerðir það einvhers staðar annars staðar en á mínu bloggi. Bloggið mitt er ekki pólitískt. Ég nota það ekki sem áróður að nokkru tagi heldur sem tæki til að segja vinum og vandamönnum frá því sem ég tek mér fyrir hendur, af því að ég bý svo langt í burtu að ég hitti fólk ekki nema árlega í mesta lagi. Ég nenni ekki að þurfa að svara ásökunum á vinnuna mína og líf mitt frá ókunnugum. Ég fer ekki á þína síðu og ræðst á þína atvinnu.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.2.2010 kl. 07:10

11 identicon

Áfram Kristín ;p

 Annars langaði mig bara að forvitnast um Sea-to-Sky veginn, ég man síðast þegar ég keyrði hann, árið 2006, að þá var byrjað að tala um að laga hann og gott ef ekki var bara byrjað á þeim framkvæmdum, einnig var byrjað að byggja einhver hús í bænum sem maður keyrir síðast í gegnum áður en maður kemur að Whistler, man ekki hvað hann heitir.  En hvað um það, ég man að þetta var soldið glæfralegur akstur og ekki var óalgengt að meður keyrði framhjá krossum (líkt og hér heima) og að grjóthrun var ekki ýkja óalgengt!  Það var klárlega þörf á að laga þennann veg.  En er hann þá orðin tvíbreiður alla leiðina uppeftir?

Svo man ég eftir einum hóteleiganda sem var að tala um að það ætti að koma ferja einmitt upp í þennan bæ sem ég minntist á fyrr í kommentinu - varð eitthvað úr því?

Takk fyrir allar upplýsingarnar sem við fáum hér up leikana, það er gaman að lesa um þá og ég er sannfærð um að þeir leiði til meira góðs en ills + það að ég hef aldrei og þá meina ég aldrei heyrt um neinar stórframkvæmdir eða stórviðburði hvergi í heiminum sem ekki fylgja einhverjar neikvæðar hliðar.  Eigum við eitthvað að ræða um OL í Grikklandi þar sem húsin voru máluð að framan og öllum lausagangshundum hent í hundageymslur!!! Og Kínverska opnunaratriðið þar sem falleg stelpa var látinn mæma fyrir stelpur sem söng vel en hafði ekki útlitið með sér!! 

Eitt er víst að ég get ekki beðið eftir að komast aftur á skíði í Whistler og þá um leið að sjá allar breytingarnar :D

Hrafnhildur Guðrún (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 15:23

12 identicon

Gangi þér vel Stína mín, hef hugsað mikið til þín undanfarið :) Vona að þið uppskerið ríkulega árangur erfiðisins :)

Helga F (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband