Eggið og hænan

Ég á svolítið erfitt með að sjá hvernig rökin í þessari grein ganga í berhögg við kenningar Chomsky's þótt höfundar komist kannski að þeirri niðurstöðu. Ég sé ekkert í greininni sem í raun gengur gegn hugmyndum Chomsky's um alþjóðlegu málfræðina og um innbyggða möguleika mannsins á að læra tungumál. Hann sagði heldur aldrei að öll tungumál væru eins eða hér um bil eins heldur að öll tungumál byggðust á ákveðnum takmörkuðum fjölda af reglum.

Ég held að ein kenning hljóðkerfisfræðinnar sem á ensku nefnist Optimal Theory lýsi þessu best. Þar er gert ráð fyrir að öll tungumál heims hafi í raun sömu hljóðkerfisreglurnar en reglunum er raðað á mismunandi hátt og að mismunur á milli tungumála sé afleiðing þessarar mismunandi röðunar. Tökum sem dæmi tvær reglur sem stangast á í tveggja atkvæða orðum:

1. Áhersla er alltaf á öðru atkvæði.
2. Áhersla er aldrei á síðasta atkvæði.

Orð eins og 'kona' t.d. myndi brjóta aðra hvora þessa reglu. Spurningin er hvora regluna myndi hún brjóta? Segjum að í tungumáli A sé röð reglnanna tveggja sú að reglu eitt er raðað hærra en reglu tvö. Þá er verra að brjóta reglu eitt en reglu tvö og talandi myndi því fylgja reglu eitt og brjóta reglu tvö. Niðurstaðan væri sú að áherslan væri á öðru atkvæði jafnvel þótt það þýddi að hún væri á síðasta atkvæði orðsins:

ko'na

Segjum svo að í tungumáli B væri þessu öfugt farið. Röð reglnanna væri sú að regla tvö væri sett hærra en regla eitt og því mikilvægara að hafa ekki áherslu á síðasta atkvæði en að hafa áhersluna á öðru atkvæði. Niðurstaðan væri því:

'kona

Optimality theory passar því hugmyndir Chomsky's því öll tungumál hafa allar þessar reglur en munurinn á milli tungumálanna kemur fram í því hvernig reglunum er raðað.

Við vitum líka að börn fæðast með getuna til þess að framkvæma öll möguleg hljóð sem notuð eru í málkerfum. En smátt og smátt fara þau að móta hljóðkerfið í huga sér og á ákveðnum aldri fara þau að missa getuna til þess að móta þau málhljóð sem ekki eru hluti af því tungumáli sem þau læra af umhverfinu. Vegna þessa eiga ung börn auðveldara með að ná framburði erlends tungumáls en fullorðnir. Við fæddumst öll með möguleikann á því að bera fram smelluhljóðin í sumum afrískum málum en fæst okkar gætu það á fullorðins aldri. 

En svo við víkjum að þessari grein. Það er margt áhugavert í henni en sumt er alls ekki útskýrt nægjanlega til þess að hægt sé að draga af því neinar niðurstöður. T.d. þegar talað er um áströlsku tungumálin þar sem nauðsynlegt er að vita áttirnar til þess að geta talað um einföldustu hluti. Því er haldið fram að af því að áttirnar eru svona mikilvægar í tungumálinu þá verði þær mikilvægar í samfélaginu því fólk þarf að vita hver áttin er til að geta talað. Hér er ekki ljóst hvort kom á undan, eggið eða hænan. Hugsanlegt er að áttir hafi verið svo mikilvægar í samfélaginu að það endurspeglaðist í tungumálinu og er nú orðið samgróið því. Ef áttirnar hafa að öðru leyti misst mikilvægi sitt en lifa fyrst og fremst í tungunni þá er það samt engin rök fyrir því að tungumálið hafi mótað menninguna. En er greinilega merki um að tungumálið hefur áhrif á núverandi menningu. 

En það var líka margt athyglisvert í þessari grein. T.d. kom í ljós að í ensku þar sem lítill munur er gerður á milli vilja- og óviljaverks (Jón braut vasann) átti fólk mjög auðvelt með að munu hver gerði hvað, hvort sem það var af ásettu ráði eða ekki. Í spænsku og japönsku hins vegar, þar sem gerandi er oftar notaður með viljaverki (Jón braut vasann) en ekki þegar um óviljaverk er að ræða (vasinn brotnaði) áttu menn erfiðara með að muna hver braut vasann ef það var óviljandi. Þetta styður væntanlega þá skoðun að fólk noti alvöru setningar til þess að leggja hluti á minnið. Í íslensku notum við sitt á hvað 'Jón braut vasann' og 'vasinn brotnaði' ef brotið var óviljandi. Þar mun spila margt inn í hvort við notum germyndina eða þolmyndina, svo sem hvort það skiptir máli að það var Jón sem braut vasann, hvort við vitum hver braut vasann o.s.frv. Í slíku tilfelli held ég að menningin myndi hafa meiri áhrif á hvora setninguna við notum en ekki það að málið hafi áhrif á menninguna.

Annað dæmi: Litir eru mismunandi milli tungumála. Í íslensku notum við fyrst og fremst grunnlitina og síðan forskeytin dökk- og ljós- án örfárra samsettra lita (blágrænn) og annarra samsettra orða (karrígulur). Konur hafa yfirleitt víðara litróf en karlar. Enska hefur miklu fleiri orð sem notuð eru að öllu jafnaði, svo sem navy, turqois, tan, o.s.frv. Er íslensk menning eitthvað ólitríkari en enskan bara af því að þeir hafa fleiri orð? Eða er því öfugt farið kannski? Sum tungumál hafa aðeins tvö eða þrjú orð yfir liti. Tungumál í New Guinea og Congo hafa t.d. bara svart og hvítt. Mörg afrísk tungumál hafa svart, hvítt og rautt, o.s.frv. Nú hlýtur fólkið að sjá alla litina eins og við, en þeir greina kannski ekki á milli þeirra. Þeir sjá kannski litbrigði af sama lit þar sem við teljum okkur sjá marga liti. En er það svo af því að þeir hafa bara tvö  orð yfir litina eða hafa þeir bara tvö orð vegna þess að þeir þurfa ekki á fleirum að halda?

Ég er ekki að segja að þessi grein sé bull, en varast ber að draga og miklar ályktanir af því sem þar kemur fram því það getur oft verið mjög erfitt að greina að hvort kom fyrst, eggið eða hænan. 

 


mbl.is Hafði Chomsky rangt fyrir sér?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Tungumál hefur áhrif á menningu:

Þú getur ekki sagt sömu brandarana á Íslensku & ensku, hvað þá kínversku.  Orðaleikur til dæmis þýðast ekkert alltaf.  Það er mikilvægt.

Málfræðin er ekkert eins milli þjóða.  Germönsk mál "snúa" öll eins.  Japanska snýr öfugt miðað við germömsk mál - þ.e.. ef það sem þeir segja er þýtt beint, þá hljóma þeir eins og Jóda.

Og eins og bent er á, þá hafa sum mál ekki eins mörg orð og önnur.  Og ef þú getur ekki talað um það, þá hugsarðu ekki um það.

Chomsky var algjörlega úti á akri.

Ásgrímur Hartmannsson, 27.7.2010 kl. 09:46

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ásgrímur, Chomsky bar aldrei á móti þessu og eins og ég bendi hér á er hægt að tala um að sömu reglur séu til í öllum tungumálum án þess að áhrifa þeirra gæti. Það var einmit það sem ég var að sýna með með hljóðkerfisdæminu. Hvernig sömu reglur geta leitt til gjörsamlega ólíkrar útkomu.

Chomsky sagði líka aldrei að tungumál hafi ekki áhrif á menningu. Hann sagði bara að menning mótaði tungumál. Þetta tvennt getur vel farið saman, eins og ég sýndilíka fram á greininni.

Þú segir að ef þú getur ekki talað um eitthvað þá hugsir þú ekki um það? Ekki rétt. Hversu oft kemur það fyrir að þú hefur t.d. tilfinningu sem þú getur ekki útskýrt? Þótt þú getir ekki talað um tilfinninguna þá þýðir það ekki að þú hafir hana ekki. Auðvitað getum við talað um flest sem við hugsum - einfaldlega vegna þess að við búum til orð yfir það sem við þurfum. En það eru engin rök fyrir því að ekki sé til eitthvað sem við etum ekki talað um. Bendi t.d. á að þegar tölvur komu fyrst til Íslands var ekki til neitt íslenskt orð um þær. En þær voru samt til. Og þegar þær urðu til bjuggum við til orð um þær. Svo einfalt var það.

Ekkert í þessari nýu grein sýnir fram á að CHomsky hafi verið úti á Akri.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.7.2010 kl. 16:40

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Las nýlega mjög áhugaverða grein um tilkomu litanafna í tungumál (íslenskt tímarit sem ég fékk á bókasafninu. Man ekki hvaða rit það var) Þar var meðal annars rannsakað í fornritum okkar hvenær tiltekin litarorð komu fyrst fyrir.

Sæmundur Bjarnason, 28.7.2010 kl. 10:42

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, það hefur verið áhugaverð. Hvað ætli Gunnar á Hlíðarenda hafi t.d. notað mörg litarorð? Og hvað var mórauður kallað þá?

Kristín M. Jóhannsdóttir, 28.7.2010 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband