Að vera komin aftur í skóla

Það var skrítið að sitja í kennslutíma í dag. Þótt ég hafi opinberlega hafið nám að nýju strax eftir Ólympíuleika fatlaðra þá þurfti ég ekki að sitja í tímum. Ég var búin að gleyma hversu syfjuð ég verð alltaf þegar ég þarf að sitja og hlusta í 90 mínútur, jafnvel þótt efnið sé áhugavert.

Kosturinn við þessa tíma er að kennarinn, Doug, er frábær og það er alltaf gaman að hlusta á hann kenna. Efnið er líka skemmtilegt. Svo kölluð Optimality Theory innan hljóðkerfisfræðinnar. Að mínu mati skemmtilegasta kenning greinarinnar. Að raða saman hljóðekerfum er eins og að sitja og púsla. Það eru tæplega 60 í áfanganum og ég vona að nokkrir heltist úr lestinni svo það verði ekki eins seinlegt að fara yfir heimaverkefnin. Jájá, ég veit, sjálfselskan að drepa mig.

Ég saknaði ekki margra úr deildinni þau tvö ár sem ég var að vinna fyrir Ólympíuleikana. Vinir mínir Jeremy og Leszek voru báðir í mastersnámi og útskrifuðust því á undan mér, enda masterinn mun styttri en doktorsnámið. Báðir búa í Bandaríkjunum eins og er. Jeremy í doktorsnámi í Rutgers og Leszek er að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Leora, sem alltaf var gaman að hanga með, var á fimmta ári þegar ég byrjaði og útskrifaðist því fyrir nokkrum árum, og Marion vinkona mín fluttist til Victoriu sama vor og ég byrjaði að vinna fyrir Ólympíuleikana, og tók síðasta hlutann í hálfgerðu fjarnámi, enda svo sem hægt að skrifa ritgerðina hvar sem er ef maður á þess tök að koma tvisvar í mánuði í bæinn til að hitta nefndarmenn. Þeir sem eftir voru skiptu mig minna máli.

En ég saknaði sumra kennaranna, sérlega Gunnars og Dougs. Gunnar sá ég reyndar af og til af því að við erum ekki margir Íslendingarnir á svæðinu, en Doug hitti ég lítið á meðan ég var ekki í skólanum. Að hluta til vegna þess að á síðasta ári var hann í vinnufríi frá skóla og dvaldist þann tíma í Ottawa. Áður en ég fór í fríið sá ég Doug reglulega því það var hann sem kom mér í klettaklifrið og fyrsta árið sem ég stundaði það klifraði ég mikið með honum. Þá var konan hans meidd á fingri og gat ekki klifrað og hann vantaði því klifurfélaga. Þegar fingurinn greri fór ég að klifra meira með Marion enda betra að tveir klifri saman en þrír. Þar að auki lágu dagar okkar Marion betur saman þar sem við vorum báðar farnar að skrifa ritgerðina og gátum farið á daginn þegar venjulegt fólk er að vinna. 

Það var líka skemmtilegt að fara aftur að umgangast umsjónakennara mína, Lisu og Hotze, en þau hafa alltaf verið fyrst og fremst kennarar mínir en ekki beinlínis vinir á sama hátt og Gunnar og Doug. En nú er Hotze kominn í vinnufrí og er farinn til Hollands svo okkar vikulegu fundir verða að fara fram í gegnum netið. Þá kemur sér vel að hafa Skype. Annars er hann nýfarinn svo ég hef ekkert viljað trufla hann, en bráðum sendi ég honum lesefni. Þarf að vinna hratt næstu vikurnar svo ég nái að ljúka.

Og nú ætla ég að fara og gera eitthvað af viti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áfram Stína, þetta er allt að hafast!

Rut (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband