Mín reynsla af Köben og sprengjum

Þegar ég heyri af þessari sprengingu í Köben verður mér hugsað til hótelvistar í sömu borg fyrir einum átján eða nítján árum.

Dóra vinkona mín var rétt flutt til Kaupmannahafnar með mann og barn og var að auki ófrísk af barni númer tvö þegar maðurinn hennar sem var þar í námi þurfti í skólaferðalag. Dóra bað mig að koma og vera hjá henni á meðan, sem ég og gerði. Þau voru svo nýkomin út að þau voru ekki enn búin að fá íbúðina sína á háskólagörðunum og voru því með hótelherbergi á Vesterbrogade.

Á fjórða eða fimmta degi lenti ég í því að bakpokanum mínum var stolið fyrir framan nefið á okkur á McDonalds, með veski og alles, og því var dagurinn heldur dapurlegur enda fór hann í að hringja heim, láta loka vísakorti, tala við tryggingarnar o.s.frv. Við fórum snemma í rúmið. Um miðja nótt vöknum við upp við það að verið er að hlaupa um gangana, berja á hurðir og veggi og dimmar karlmannsraddir kallast á. Við erum skelfingu lostnar. Dóra klæðir sig í snatri og situr svo með barnið sitt í fanginu og ruggar því fram og aftur. Ég sat með hnén upp að höku og hreyfði mig ekki. Við þorðum ekki fyrir okkar litla líf að athuga hvað væri í gangi. Skyndilega róast allt á okkar hæð en við heyrum að það sama virðist nú í gangi á hæðinni fyrir ofan. Ég skríð fram úr rúminu og lít út um gluggann en þar er ekkert að sjá enda sneri glugginn út í garð. Að lokum róast allt og þegar húsið hefur verið hljótt í einhvern tíma förum við að lokum aftur að sofa.

Um morguninn eftir þegar við vorum á leið út, stoppaði ég í afgreiðslunni og spurði hvað hefði gengið á. Þá fréttum við að einhver hefði hringt inn og sagt að það væri falin sprengja á hótelinu. Víkingasveit þeirra Dana ákvað að ekki væri tími til að koma öllum gestunum út úr byggingunni og ákvað í staðinn að leita að sprengjunni - sem aldrei fannst. Ef glugginn okkar hefði snúið út að Vesterbrogade hefðum við séð lokaða götu og lögreglubíla, sjúkrabíla og slökkviliðsbíla með blikkandi ljós. Ég er ekki viss um að við hefðum nokkurn tímann náð að sofna ef við hefðum vitað hvers kyns var.

Þetta var ekki skemmtileg lífsreynsla - en á móti kemur að úr verður góð saga.


mbl.is Ekki um hryðjuverk að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl, frænka!

Þetta hótel, sem um ræðir í fréttum gærdagsins, þekkjum við hjónin vel, því við höfum gist þar nokkrum sinnum. Það er vel í sveit sett, rétt hjá Vesterport stöðinni. Herbergin eru frekar lítil, sum skrítin í laginu, því þetta er sennilega íbúðarhús, sem verið hefur breytt í hótel. Morgunmatur er góður og ríkulegur, en eini gallinn er að reykingar eru leyfðar í matsalnum. Svo er það ódýrt.

Skv. vefsíðunni er þetta "the first gay hotel in Copenhagen"!

Hins vegar vin ég geta þess, að Kaupmannahöfn er uppáhaldsborgin mín.

Kveðja

BH

bernharð haraldsson (IP-tala skráð) 11.9.2010 kl. 11:16

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég er sammála að Kaupmannahöfn er frábær borg. Það finnst mér enn þrátt fyrir tvöfalda slæma reynslu þennan ákveðna daga.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.9.2010 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband