Enn og aftur fótbolti

Ný fótboltavertíð er ekki bara hafin í enska boltanum heldur líka hjá mér í mínu brölti. Við stelpurnar í Presto erum búnar að spila tvo leiki og höfum byrjað vel. Höfum unnið báða leikina okkar 4-2 og markastaðan er því 8-4 sem ég hef trú á að nægi til að sitja á toppnum. Það er reyndar hugsanlegt að eitthvert liðanna sem spila á morgun vinni stórt en miðað við markatölu fyrstu umferðar yrði liðið að vinna með meir en fimm marka mun til að sitja fyrir ofan okkur.

Dómarinn í dag var sama kona og dæmi hjá okkur í síðustu viku. Þá dæmdi hún býsna vel en í dag gerði hún nokkur mistök. Það versta kom í lok fyrri hálfleiks. Við fengum innkast—kantmaðurinn okkar kastaði boltanum til framvarðar sem sendi boltann fyrir markið. Þar voru aðeins ég og einn varnarmaður og ég var á bak við varnarmanninn. Boltinn kemur til hennar en hún missir hann fram hjá sér, beint til mín. Ég er ein í boxinu með boltann beint fyrir framan mig og á bara eftir að pota honum inn...og þá flautar kerlingarálftin til hálfleiks. Ég er 99% viss um að dómari á að leyfa skotið.

Þegar sirka 15 mínútur voru eftir var staðan 3-1 fyrir okkur, og þá kom röð mistaka hjá dómara. Fyrst dæmdi hún hendi á leikmann í mínu liði sem datt og rak olnbogann í boltann rétt áður en hún lenti í grasinu. Algjörlega fáránlegt að dæma á það. Hafði engin áhrif á leikinn. Síðan sleppti hún að dæma á háskaleik þrátt fyrir að leikmaður hins liðsins hafi verið með takkana bókstaflega í andlitinu á leikmanni míns liðs, og stuttu á eftir dæmdi hún brot á okkar leikmann eftir að leikmaður hins liðsins steig á boltann og datt. Þær fengu aukaspyrnu sem leiddi til marks. Staðan 3-2. Sem betur fer skoruðum við stuttu síðar og tryggðum okkur sigurinn.

Benita hefur heldur betur verið á skotskónum. Skoraði þrjú mörk í síðasta leik og tvö í þessum. Ég skoraði ekkert í síðasta leik enda hundlasin og hafði ekkert þol. Setti samt upp tvö mörk. Skoraði eitt í þessum og setti upp eitt. Ég er eiginlega betri í að setja upp aðra leikmenn vegna þess að ég er ein af fáum í liðinu sem líta upp áður en við skjótum. Flestar stelpurnar þruma boltanum bara eitthvað. En það er svo sem ekki hægt að kvarta, þetta er fjórða deild og við erum að spila að gamni okkar. Og ég veit að ég á eftir að sakna þess ógurlega þegar ég flyt.

Það var annars vel við hæfi að vinna þennan leik í dag, á sama degi og Þórsarar komust upp í meistaradeild. Og það var enn skemmtilegra vegna þess að liðið sem við spiluðum við var í bláum buxum og gulri treyju. Ég sagði þjálfaranum í upphafi leiks að það ætti að vera auðvelt fyrir mig að spila vel gegn þeim fyrst þær spiluðu í litum aðalandstæðingsins!!!!

---

Á morgun er aðeins vika þar til ég hleyp hálfa maraþonið. Ég var búin að undirbúa mig svo vel - hljóp 18 kílómetra fyrir tveim vikum og átti svo að hlaupa 20 í síðustu viku. Nema hvað ég fékk mér flensu. Var reyndar orðin lasin daginn sem ég hljóp 18 kílómetrana. Flensuskömmin sat í mér í eina tíu daga og ég er rétt að skríða saman aftur. Þetta setti strik í reikninginn. Hef ekki hugmynd um hvernig hlaupið mun ganga í næstu viku. Ég get alla vega lofað því að tíminn verður ekki góður. En aðalatriðið hjá mér er hvort eð er bara að klára!

---

Úti er eins og hellt sé úr fötu. Regnið dynur á þakinu og úr verður ákaflega þægilegt suð. Það er í raun býsna notalegt að skríða undir sæng með góða bók þegar rignir úti. Maður getur alla vega þakkað fyrir að vera ekki úti. Vona að það rigni vel í nótt og verði svo þurrt á morgun svo ég verð ekki blaut í hlaupatúrnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Þú hefur getað sagt eins og Káinn forðum er hann á fylleríi kvað við svipaðar aðstæður í húsi manns.

Regnið ört að foldu fellur,

fyrir utan gluggan þinn.

Það er eins og milljón mellur,

mígi í sama hlandkoppinn!

Ert vonandi komin á ról.

Magnús Geir Guðmundsson, 20.9.2010 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband