Um lögleiðingu marijúana

Í gær var kosið í Kaliforníu um lögleiðingu marijúana. Tillagan var felld og þar með önduðu margir marijúanaræktendur í BC léttar. Hér í fylkinu er ræktað alveg ógrynnin af jurtinni og talið er að um 70% sé smyglað til Bandaríkjanna, aðallega til Washington og Kaliforníu. Sumir telja reyndar að útflutningur þangað myndi aukast ef dópið yrði lögleitt en aðrir segja að þá færu Bandaríkjamenn að rækta sitt eigið í auknum mæli. Ekki eins og þeir geri það ekki núna, en ekki í sama magni og hér.

Ég hef ekki prófað að reykja marijúana og hef ekki áhuga, en flestir sem ég þekki hér á vesturströndinni hafa reykt einu sinni eða oftar og ég þekki nokkra sem reykja þetta daglega. Lögreglan lítur vanalega framhjá marijúanareykingum enda stónað lið yfirleitt rólegt og auðvelt í umgengni og því vildi löggan yfirhöfðuð frekar að fólk reykti en að það drykki áfengi. Ég las meira að segja í viðtali við lækni um daginn að hann fengi daglega fólk á slysó sem hefði slasað sig á fylleríi, en það kæmi varla fyrir að nokkur lenti á slysó eftir að hafa reykt smá gras. Sumir vilja meira segja ganga svo langt að segja að marijúana sé betra fyrir þig en sígarettureykingar. Ekki veit ég um það og það er auðvitað ljóst að allur reykur er skaðlegur, og það er kolvitlaust að ætla að halda því fram að það sé skaðlaust að reykja marijúana. Reykurinn fer ofan í lungun. Það er ekki gott fyrir neinn.

En ég verð að viðurkenna að ef ég þarf að vera í sama herbergi og einhver sem er að reykja, þá vildi ég frekar að það væri gras en sígarettur. Hvers vegna? Ekki lyktarinnar vegna, mér þykir lyktin af marijúana vond, en helsti munurinn er tíminn. Sígarettureykingafólk tekur sér tíma til að reykja og oft liggur sígarettan í öskubakkanum og reykir sig sjálf og lyktin og reykurinn liðast um allt. Þeir sem reykja gras draga reykinn oftast að sér þrisvar fjórum sinnum og svo er slökkt í. Þetta tekur kannski tvær mínútur. 

Mikið er rætt um lögleiðingu efnisins hér í BC, og því fylgdust margir með kosningunum í Kaliforníu. Sumir hafa meira að segja bent á að glæpastarfsemi hér á svæðinu er að stærstum hluta byggð í kringum marijúana og önnur eiturlyf. Meðal þeirra raka sem gefin eru fyrir lögleiðingu lyfsins er það að lögleiðingin myndi grafa undan ólöglegri sölu og þar með glæpagengjum. Ég held reyndar að það sé ekki rétt því þótt marijúana verði lögleitt þá er það alltaf kókaín, heróín, e-töflur, o.s.frv. Glæpir munu ekki leggjast af þótt grasið verði lögleitt. Hitt er annað mál, ef marijúana er raunverulega ekki hættulegra en sígarettur þá skil ég ekki af hverju sígarettur eru löglegar en grasið ekki.

Hvað finnst Íslendingum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Hér heima gæti röksemdafærslan um minna umfang glæpahópa staðist vegna smæðar og einangrunar markaðarins.  Stærsti kosturinn við lögleiðingu væri sá að hægt væri að innhemta skatta af sölu kannabisefna og koma þeim til heilbrigðiskerfissins og SÁÁ.  Ef kannabis væri lögleitt hér á landi væri hægt að koma löggjöfinni þannig fyrir að gróðurhúsabændur gætu sótt um sérstakt ræktunarleyfi og varan svo seld í ríkinu.

Hinsvegar eru aðrir hlutar löggjafar sem þyrfti þá að taka til endurskoðunar líka, t.d. akstur undir áhrifum.  Þeir sem eru grunaðir um akstur undir áhrifum kannabisefna þyrftu að vera settir í blóðprufur með auknum kostnaði þar sem niðurbrotsefni kannabis finnst í þvagi vikum eftir neyslu.

Það versta sem hinsvegar er hægt að hugsa sér er að ræktun og sala kannabisefna verði refsilaus glæpur.  Það gerir ekkert annað en að gefa eiturlyfjasölum frítt spil.

Axel Þór Kolbeinsson, 5.11.2010 kl. 09:56

2 identicon

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 09:57

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Axel, ég er sammála. Helgi, athyglisvert myndband.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.11.2010 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband