ritgerð, fótbolti, hokkí...

Ég hef sett mér markmið fyrir mánudaginn: doktorsritgerðin í heild sinni verður send á dómnefndina mína. Greyin, það þýðir að næstu daga þurfa þau að lesa tæpar 250 síður í merkingarfræði. Og ritgerðin er bara 250 síður vegna þess að ég nota leturstærð 11 og hef aðeins eitt og hálft línubil. Ég er að reyna að bjarga trjám með því að þjappa þessu saman. Og nei, ég má ekki nota eitt línubil. Það eru takmörk á uppsetningu.

Ég er enn að bíða eftir athugasemdum frá tveim kennurum mínum en er að vona að ég fái þær á morgun svo ég geti tekið þær til greina áður en ég sendi þeim uppkastið á mánudaginn. Annars er ýmislegt sem ég þarf að laga á morgun og mánudagsmorguninn áður en ég get sent þetta út, en ekkert óyfirstíganlegt.

Síðan tekur við bið, sem ég get reyndar notað í að laga formúlurnar í ritgerðinni, en í raun er samt ekki margt sem ég get gert annað. Þegar ég fæ ritgerðina til baka frá þeim öllum mun ég taka til greina lokaathugasemdir og svo er þetta sent til utanaðkomandi dómara (sem ég veit ekki hver er) og sá mun segja til um það hvort ritgerðin sé tilbúin í vörn eða ekki. Sá fær fjórar til sex vikur og á meðan get ég aðeins beðið. Það er tími sem ég ætla að nota í afslöppun, lestur bóka, líkamsrækt, svefn...mikið hlakka ég til.

Okkur stelpunum í Presto gengur vel í vetur. Við erum búnar að spila sjö leiki og höfum unnið sex og tapað einum. Við sitjum í öðru sæti með sömu stigatölu og liðið í fyrsta sæti en markahlutfallið er aðeins lakara hjá okkur. Munar tveim mörkum. Við eigum hins vegar enn eftir að spila á móti neðsta liðinu í deildinni en þær hafa nú þegar gert það, svo kannski getum við bætt stöðu okkar þar.

Hokkíliðinu mínu, Vancouver Canucks gengur líka vel þessa dagana og í kvöld unnu þeir Detroit Red Wings, sem er með betri liðum í deildinni. Þetta var sjötti sigur minna manna í röð og þeir eru nú í efsta sæti í norðvestur riðlinum og í þriðja sæti vesturdeildarinnar. Ah, það er svo miklu skemmtilegra þegar vel gengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju!

BH

Bernharð Haraldsson (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 10:48

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Til hamingju með þennan áfanga, verður ekki stærsta hamingjan þegar "vörnin" er búin og þú útskrifast og ekki efast ég um  að ritgerðin er glæsileg eins og önnur skrif þín og ég efast ekki um að ritgerðin þín er eins "fræðileg" og hún þarf að vera.  Ég hef fylgst það vel með skrifum þínum undanfarin tvö ár að ég efast ekkert um að ritgerðin er góð og uppfyllir ALLAR kröfur sem eru gerðar til doktorsritgerðar og vel það.

Jóhann Elíasson, 7.11.2010 kl. 11:15

3 identicon

Steinn fyrir stein...og bráðum verður komin glæsileg varða á lífsleiðina þína. Það verður spennandi að sjá hvert leiðin liggur næst!

Rut (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 13:23

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk kærlega fyrir það öll þrjú. Já Rut, allt í óvissu með framtíðina. Takk Jóhannes, og jú, það verður mikil hamingja þegar vörnin er búin, svo framarlega sem ég standist hana.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.11.2010 kl. 17:35

5 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Sendi þér innilegar hamingjuóskir vegna áfangans, Kristín mín. Ég veit, að framhaldið verður gott !

Bestu kveðjur, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 8.11.2010 kl. 06:20

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir það.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.11.2010 kl. 08:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband