Þetta er allt að koma
11.11.2010 | 06:29
Klukkan þrjú í dag sendi ég ritgerðina mína til allra í nefndinni. Nú munu þau þrjú lesa hana yfir og segja til um hvort hún sé tilbúin í dóm.
Ritgerðin er nú 236 blaðsíður og dæmin eru 524. Þetta er sem sat heil bók, sem er ástæðan fyrir því að þetta tekur svona langan tíma. Ég er nú búin að vinna stanslaust síðan Ólympíuleikum fatlaðra lauk í lok mars. Sumarfríið mitt var dagsferð til Seattle. Síðustu daga hef ég unnið fram á kvöld hvern einasta dag og ég er hreinlega búin að vera.
Nú ætti ég að fá nokkra daga frí (nema ég þarf að fara yfir heimaverkefni í hljóðkerfisfræði) og svo kemur síðasta stóra lotan þegar kennararnir þrír eru búnir að fara yfir ritgerðina. Þá fæ ég einhverja daga til að gera breytingar áður en ég skila ritgerðinni.
Helst langar mig á sólarströnd að hvíla mig. Mexíkó væri frábær. En slíkt er ekki í boði. Á meðan ég veit ekki hvað er handan við hornið get ég ekki tekið neinar ákvarðanir.
Ég er búin að senda inn nokkrar atvinnuumsóknir á ýmsa staði og það kemur í ljós hvort eitthvað kemur úr því. Aðallega eru þetta kennarastöður í Bandaríkjunum og ekki eru miklar líkur á að ég fái neina þeirra þar sem fáar stöður eru í boði og margir að útskrifast. En ég sótti líka um vinnu í Vancouver og aðra í London. Nú þegar róast í ritgerðinni get ég farið að leita að alvöru.
En aðallega hlakka ég til að geta setið og lesið eða slappað af án þess að vera með samviskubit yfir því að vera ekki að skrifa. Allt mun breytast þegar þessi ritgerð er frá.
Athugasemdir
Til hamingju með að vera búin að koma ritgerðinni frá þér, þetta er vissulega stór áfangi og kannski ekki allir sem gera sér grein fyrir því. Vonandi gengur þér vel í atvinnuleitinni.
Jóhann Elíasson, 11.11.2010 kl. 08:39
Gaman gaman...til hamingju með þennan áfanga, njóttu þess að rækta letina í nokkra daga (ef ég þekki þig rétt verður þetta MJÖG virk leti...þ.e. þú verður á fullu að gera eitthvað...sem í raun er líka besta afslöppunin!) og ég krossa fingur varðandi vinnuna...the world is your oyster!
Rut (IP-tala skráð) 11.11.2010 kl. 19:34
Til hamingju með ritgerðina :D
Arnar (IP-tala skráð) 11.11.2010 kl. 21:10
Takk Jóhann, Rut og Arnar. Rut, ég er strax farin að fá athugasemdir frá kennurunum þannig að afslöppunin nam aðeins einum degi. En hitt er annað mál að það er rétt að ég er vanalega býsna virk í afslöppunum. Enda safnast saman allt það sem maður hefur ekki haft tíma til að gera. Ef ég skrifaði það allt niður væri ég vísast með langan lista.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.11.2010 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.