Ritgerðin búin - nóg annað að gera

Á föstudaginn í síðustu viku kláraði ég doktorsritgerðina og og skilaði af mér til dómara. Þetta er ekki lokagerðin heldur sú gerð sem notuð verður við vörnina. Í mínum skóla er vörnin ekki byggð á lokaútgáfu heldur fær kandidatinn tækifæri til þess að taka athugasemdir við vörn til greina og gera lokaútgáfu ritgerðarinnar þannig betri.

En þvílíkur léttir þegar þetta var búið og ég var búin að senda ritgerðina til FOGS (Faculty of Graduate Studies). Ég fór beint í Cliffhanger að klifra með Marion. Við vorum þar í tvo tíma og ég naut þess að geta tekið mér tíma án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að ég ætti að vera að skrifa.

Síðan hefur þetta svona verið að síast inn. Þ.e. að ég þurfi ekki að vera að vinna öllum stundum. Í mörg ár hefur þetta verið þannig að mér finnst ég eigi alltaf að vera að gera eitthvað annað en það sem ég er að gera - nema þegar ég hef verið að læra náttúrulega. Meira að segja í þessi tvö ár sem ég tók mér frí og vann fyrir Ólympíuleikana. Þegar ég kom heim á kvöldin fannst mér að ég ætti að vera að vinna við ritgerðina, þrátt fyrir að vera dauðþreytt eftir langan vinnudag. Nú get ég ekki að því gert að mér finnst ég eigi að vera að undirbúa vörn, en það er auðvitað ekki rétt. Það er nógur tími til þess. Vörnin verður ekki fyrr en í febrúar.

Annars er ég búin að vera á fullu síðan ég skilaði fyrir viku. Búin að þrífa íbúðina, þvo þvotta, kaupa þrjár jólagjafir, fara á hokkíleik, horfa á sjónvarp, hanga á netinu, fara út að borða með vinkonu minni, horfa á jólasveinaskrúðgönguna með annarri vinkonu minni, klifra, spila fótbolta, lesa skáldsögur. Ég er meira að segja búin að vera að færa vídeó yfir á dvd form. Það tekur ógurlegan tíma en ég veit að ég mun ekki kaupa annað vídeótæki þegar þetta deyr svo ég verð að koma öllu því sem ég hef tekið upp í gegnum árin yfir á dvd.

Ég er líka búin að vera að spila jólalög. Loksins. Ég þvertók fyrir það að komast í jólafílinginn fyrr en ég væri búin að skila ritgerðinni. Og hvað hef ég verið að spila? Í bílnum er það jóladiskur Chris Isaak sem er dásamlegur. Mest held ég upp á lagið Washington Square sem fjallar um fólk sem er aðskilið um jól og hvernig hann ætlar að geyma pakkana þar til hún kemur til baka. Heima hef ég mest hlustað á jóladisk kántrísöngkonunnar Martinu McBride. Ég er yfirleitt ekki hrifin af kántrí en fyrrum mágkona mín gaf mér þennan disk fyrir mörgum árum og hann er virkilega góður. Enda er þetta bara venjuleg jólaplata en ekki nein kántríplata. Og að sjálfsögðu spila ég alltaf jóladiskinn með Þremur á palli. Sígildur.

Í kvöld er svo jólapartý fótboltaliðsins míns. Ég hef misst af þessu partýi þrjú síðastliðin ár af ýmsum ástæðum svo það er gott að ég fæ loksins að taka þátt.

Og nú ætla ég að fara og dunda mér við eitthvað skemmtilegt. Kannski ætti ég að skríða aftur upp í rú með bók. Af því að ég get það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjartanlega til hamingju. Þetta er glæsilegt.

Frændi

Bernharð Haraldsson (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 21:05

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Til hamingju með þennan glæsilega áfanga!!!!!!  

Jóhann Elíasson, 11.12.2010 kl. 21:16

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Frábært Kristín, óska þér innilega til hamingju með þennan áfanga.

þangað til næst!

Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.12.2010 kl. 05:31

4 identicon

Gott að vita að þér tekst að gíra þig niður og njóta þess að vera búin :) Njóttu :)

Rut (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 19:52

5 identicon

Til hamingju með að vera búin með ritgerðina.  Núna er kjörið tækifæri að upplifa jólastemminguna í Vancouver - spurning um að labba í jóladeildina í The Bay og Sears - fara svo út á Granville island og upplifa stemminguna!  ... kannski er þetta okkar óskhyggja - Vancouver söknuður!  Ég vona að þú fáir fína vinnu, hvar í heiminum sem þú endar :o)

Ólafur Óskar & Kristbjörg (IP-tala skráð) 13.12.2010 kl. 11:06

6 identicon

Innilega til hamingju með skilinn, njóttu stundinnar á milli stríðanna ;)  Eftirleikurinn hlítur að vera hluti af köku :D

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 19.12.2010 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband