Æsispennandi hokkíleikur

Í gærkvöldi fór ég á minn annan hokkíleik á vertíðinni. Ég myndi fara oftar ef ekki væri svona dýrt á leiki. Reyndar finnst mér að liðið mitt, Vancouver Canucks, ætti að gefa mér ársmiða á leiki sína, og helst taka mig með á útileiki, því ég hlýt að vera nokkurs konar lukkudýr. Ég hef ekki séð tapleik með liðinu síðan ég sá þá tapa fyrir Nashville 3-0, fyrsta nóvember 2007. Síðan þá hef ég séð eina níu eða tíu leiki og þeir hafa allir unnist. Í gær leit út fyrir að ég væri búin að missa hokkíheppnina því liðið var einu marki undir þegar um tuttugu sekúndur voru eftir af leiknum en þeir náðu að jafna og unnu svo í vítakeppni.

Fyrir þá fáu hokkíaðdáendur sem hugsanlega lesa þetta ætla ég að segja aðeins frekar frá leiknum.

Leikið var gegn Anaheim Ducks, fyrrum Mighty Ducks of Anaheim (eins og í Disney myndinni), og þeir hafa alltaf verið erfiðir viðureignar. Liðið er skipað stórum og sterkum nöglum sem lengi hafa vaðið yfir mína menn. Þeir unnu 4-1 í fyrstu viðureign fyrr í haust og þeir komu sterkir til leiks í gærkvöldi, þrátt fyrir að hafa leikið kvöldið áður í Edmonton. Aðeins voru liðnar fimm mínútur að leiknum þegar hinn ógurlegi Corey Perry skoraði fyrir Anaheim. Hann er einn þeirra sem mest hafa slengt mínum mönnum til og frá og er alltaf ógn. Þetta mark kom reyndar gegn gangi leiksins því Vancouver lék virkilega vel í fyrsta leikhluta og ég held þeir hafi átt tvöfalt fleiri skot á mark en Anaheim. En markmaðurinn hjá Anaheim lék vel, og líka var einhver ónákvæmni hjá mínum mönnum. 

Sem betur fer lét mitt lið þetta ekki á sig fá og Ryan Kesler sem sífellt verður betri skoraði jöfnunarmark þegar einn leikmaður Anaheim sat í boxinu. Við erum efst eins og er hvað snertir mörk skoruð manni fleiri. Það var ekki búið að setja markið upp á töfluna eða tilkynna hver skoraði þegar Jeff Tambellini, sonur fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóra liðsins skoraði annað markið. Ég held það hafi verið ellefu sekúndur á milli marka. Svona getur hraðinn verið mikill í hokkí. Þannig var haldið í fyrsta hlé.

Í öðrum leikhluta hélt stórsókn Vancouver áfram en því miður dugði það ekki til því Joffrey Lupul, nýkominn til baka eftir bakaðgerð, skoraði jöfnunarmark Anaheim og sautján sekúndum fyrir annað leikhlýt skoraði Selanne þriðja mark Anaheim. Luongo hefði átt að hafa þetta. Hann á að vera einn besti markmaður deildarinnar en hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið. Því er kannski um að kenna að hann vinnur nú  með nýjum markmannsþjálfara sem hefur verið að breyta stöðu hans ofl. Kannski lagast þetta þegar hann er búinn að venjast breytingunni. 

Í þriðja hluta kom Anaheim að Vancouver úr öllum áttum. Ég held að Vancouver hafi varla átt skot að marki fyrstu tíu mínúturnar. Og á þeim tíma náði varnarmaðurinn Cam Fowler að skora fjórða mark Anaheim og staðan orðin 4-2. Ekki leit þetta vel út. Ég var farinn að halda að ég þyrfti að horfa á minn fyrsta tapleik í rúm þrjú ár. En þá kom skrítið mark. Þjóðverjinn CHristian Ehrhoff, einn fárra Þjóðverja í NHL deildinni, skaut þrumuskoti að  marki, beint í grímu markmannsins, McElhinney. Þetta var þvílíka skotið að markmaðurinn greip um andlitið (ja, eða eiginlega grímuna) og beygði sig niður, nema hvað pökkurinn lenti hjá Daniel Sedin sem vippaði honum yfir markmanninn og staðan orðin 4-3. Kannski ekki gaman að skora þannig en ekkert því að gera. Ég veit ekki hvaða reglum hokkíið fylgir á Íslandi. Í alþjóðlegum reglum sem t.d. gilda á Ólympíuleikum og öðrum stórmótum er leikurinn stoppaður ef markmaður fær hart skot í höfuðið en NHL reglur eru ekki þannig. Þar er það dómarans að ákveða hvort á að stoppa eða ekki. Í þessu tilfelli fékk dómarinn ekki einu sinni tækifæri til að stoppa leikinn því mark Daniels kom varla nema sekúndubrotum eftir að pökkurinn hitti markmanninn. Þetta gerðist svo hratt.

Markmaðurinn fór út af og nýr kom inná. Sá var reyndar aðalmarkmaður liðsins, Jonas Hiller, en honum hafði líklega verið gefið frí þetta kvöld til að hvíla hann þar sem þeir spiluðu kvöldið áður. Varamarkmaðurinn spilar oft annan leikinn þegar spilað er tvö kvöld í röð enda er álagið miklu meira en t.d. í fótboltanum. Oftast eru t.d. spilaðir þrír til fjórir leikir í viku og stundum kannski fjórir leikir á sex dögum.

En sem sagt, staðan var orðin 4-3 en ekki nema kannski átta mínútur eftir af leiknum. Vancouver sótti hart en Anaheim barðist vel. Þegar um tvær mínútur voru eftir fór maður að fylgjast með Luongo í markinu en í svona stöðu tekur þjálfarinn markmanninn vanalega út af til að hafa sex sóknarmenn taka sénsinn á því að skora jöfnunarmark. Þetta gekk þó ekki vel því Anaheim pressaði á og ekki er hægt að taka markmanninn út þegar pökkurinn er á eigin helmingi. Loks náðu mínir menn pökknum og ruku upp ísinn. Luongo rauk útaf og sóknarmaður kom inn. Ekki var nema um mínúta eftir. Þeir pressuðu vel en varnarmaður Anaheim náði pökknum og sendi hann endilangan niður eftir ísnum. Hann missti af markinu og dæmd var ísing. Feisoff var tekið á helmingi Anaheim. Þrjátíu sekúndur. Sem betur fer erum við með besta feisoff liðið í deildinni, vel yfir 60%, og náðum því pökknum. Hann er sendur fyrir markið, þar er barist og Kesler skorar sitt annað mark kvöldsins. Staðan er 4-4.

Farið er í framlengingu sem ekki var mjög markverð og loks í vítakeppni. Ekki gott mál. Vancouver hefur aldrei staðið sig sérlega vel í vítaskotum. Vigneault velur vanalega þá sem eru búnir að standa sig vel í leiknum svo Tambellini fékk að fara fyrstur og hann skorar fallegt mark. Og það var allt sem gerðist í vítakeppninni. Daniel Sedin og Ryan Kesler klikkuðu báðir fyrir okkur og enginn Anaheim manna náði að skora. Svo við fengum fullt hús stiga og sigurganga mín gengur áfram.

Ég veit ekki hvort þetta virkar en hér má sjá mörkin tvö sem komu með ellefu sekúndna millibili: http://video.canucks.nhl.com/videocenter/console?catid=0&id=86677

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Complimenti með hvað þú tekur vel eftir og manst leikinn að honum loknum. Ég á erfitt með að muna úrslitin af leikjum, hvað þá að geta rifjað upp leikfléttur eða önnur smáatriði úr leikjum sem ég sé!

Rut (IP-tala skráð) 10.12.2010 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband