Á leiðinni heim
29.4.2011 | 18:02
Jæja, þá er heimferðin hafin. Síðustu dagar hafa verið algjörlega brjálaðir. Ég mæli með því að fólk sem er að flytja ákveði að gefa sér nokkra daga í það og á þeim tíma flytji það út úr íbúðinni sinni og inn til vina eða ættingja. Þegar maður er að reyna að flytja og að búa á staðnum líka verður þetta allt of flókið.
Það tók langan tíma að pakka öllu sem ég ætlaði að taka með, selja það sem ég gat selt, gefa það sem ég gat gefið og henda því sem ekkert betra var hægt að gera við. Og það var ekki hægt að þrífa almennilega fyrr en mest allt var farið út úr íbúðinni. Ég var ekki búin að þrífa gólfteppin fyrr en rúmlega átta í gærkvöldi og átti þá að vera komin í afmæliskvöldverð vinkonu minnar. Ég skaust til hennar í mat, fór svo til baka íbúðina til að ganga frá tveim hlutum, fór svo aftur til vinkonu minnar til að borða eftirrétt og ég sat svo hjá þeim til um klukkan ellefu. Þá keyrði ég niður í bæ þar sem vinkonur mínar höfðu tekið hótelherbergi og þar vöktum við svo mestalla nóttina og horfuðum á brúðkaupið hans Villa. Klukkan sex keyrði Liza mig út á lestarstöð og nú er ég í lestinni á leið til Seattle þaðan sem ég mun fljúga til Keflavíkur.
Ferðin er öllu flóknari en ég ætlaði því þegar ég fór með farangurinn minn á flutningafyrirtækið gleymdist kassinn með hjólinu, svo nú er ég með tvær ferðatöskur, tölvuna í stórum kassa og hjólkassann. Það gekk þolanlega að koma þessu á lestina en nú verð ég að koma öllu í leigubíl og út á flugvöll og koma þessu svo í flug. Og ekki nóg með það, þegar heim er komið verður allt draslið einhvern veginn að komast til Reykjavíkur.
Ég verð annars að segja að ég hefði ekki getað reddað öllu ef ekki hefði komið til hjálp góðra vina. Doug og Rosemary hjálpuðu mér að losna við dót sem ég ætlaði ekki að taka með mér. Mark Freeman og Noriko komu á miðvikudaginn og hjálpuðu mér að bera dótið mitt út í sendlabíl. Mark kom svo aftur í gærmorgun og fór með mér til Surrey og hlóð með mér dótinu mínu á bretti og svo vöfðum við allt með plasti. Alison í kjallaranum hjálpaði með þrif og einnig Julianna og mamma hennar. Liza kom svo og hjálpaði til líka. Ég hefði ekki getað þetta án þeirra. Það er gott að eiga góða vini.
Athugasemdir
Vertu sæl og bless Stína, verst að við gátum ekki endurtekið strandgötugönguna með bræddum osti og svolitlu af hvítvíni
Gangi þér sem allra best á nýja (gamla) Íslandi!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 29.4.2011 kl. 20:40
Góða ferð frænka sæl og velkomin á Klakann gamla!
Sigurjón, 30.4.2011 kl. 03:39
Heil og sæl Kristín - sem og; aðrir góðir gestir, þínir !
Fjarri fer því; að ég vilji valda þér vonbrigðum, en,......... Ísland samtímans, er svona álíka ógeðfellt ásýndar (þ.e., þjóðfélagsgerðin), og við hefðum getað séð Austur- Þýzkaland fyrir okkur, um og upp úr 1950.
Eins konar; uppvakninga og mók samfélag, sem land okkar er orðið, ágæta Kristín.
Búðu þig undir það versta - þó svo; við skyldum vona það bezta, fyrir þína hönd, og ættmenna þinna.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.4.2011 kl. 14:53
Já Jenný, því fór nú ver. Það stóð alltaf til að hittast aftur en svona er það þegar allir eru uppteknir.
Takk frændi.
Óskar, ég býst fastlega við menningarsjokki. Ef mér verður þetta of svakalegt þá borða ég slátur og saltkjöt og reyni að muna hvað það er sem mér þykir vænt um hér.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 30.4.2011 kl. 18:08
Gangi þér vel Kristín!
Magnús Geir (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.