Umferðin í Reykjavík

Ég hef alltaf sagt að bílamenningin í Reykjavík er hræðilegt. Áður fyrr hélt ég að það væri vegna þess að hér væru svo margir bílar en það er alls ekki ástæðan. Það eru miklu fleiri bilar í t.d. Winnipeg og Vancouver en miklu betri bílamenning. Hér eru í raun ekki svo margir bílar á götunum en það virðast bara allir vera að hugsa um eigin rass. Ég gekk frá Háskólanum, niður í bæ, upp Snorrabraut, Borgartún og svo Suðurlandsbraut og það voru ótrúlega fáir sem hleyptu mér yfir. Á Suðurlandsbrautinni þurfti ég að komast yfir tvöfalda götuna og ég varð föst á miðri umferðareyju því bílarnir sem voru að beygja til vinstri stoppuðu ekki þótt ég væri á grænum karli og svo var kominn rauður karl á mig áður en ég vissi af. Yfirleitt virðist fólk ekki hrifið af því að hægja á sér eða stoppa til að hleypa gangandi vegfarendum yfir götuna. Þetta á þó ekki við um alla. Sumir voru mjög kurteisir og stoppuðu hiklaust fyrir mér. En ég vildi sjá fólk yfir höfuð taka tillit til annarra.

Reiðhjólafólk var ekki mikið betra. Hér tíðkast að hjóla á gangstéttum sem ég er auðvitað ekki vön lengur, en skil þó af hverju það er, enda stórhættulegt fyrir hjólreiðafólk að vera úti á götu innan um klikkaða bílstjóra. Gallinn er að hjólreiðafólkið virtist nota gangstéttina eins og það ætti hana og það voru allavega tveir næstum búnir að hjóla mig niður. Ég er nokkuð viss um að fólk á að hjóla rólega fram hjá gangandi vegfarendum.

Já, það er margt sem ég er orðin óvön. Sumt hefur þó lagast. Til dæmis voru nokkrir sem buðu strætóstjóranum góðan daginn. Ég man þegar ég gerði það eitt sinn þá hélt hann að við þekktumst, því enginn sagði góðan daginn. Þetta eru náttúrulega sjálfsagðir mannasiðir.

Á morgun stefni ég að því að hjóla í vinnuna og þá sjáum við hvernig mér gengur að ferðast um á hjóli í Reykjavík. Kannski verður annað skammarblogg frá mér annað kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú bara það sem heitir "Reverse Culture Shock" á góðri íslensku. Ég hef verið búsettur erlendis á þriðja tug ára og get seint vanist ókurteisi Frónbúa.

Erlendur (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 23:32

2 identicon

Glöggt er "gests" augað :)

Rut (IP-tala skráð) 3.5.2011 kl. 07:08

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það er rétt Erlendur. Man reyndar að þegar ég flutti fyrst frá Akureyri til Reykjavíkur var ég jafn sjokkeruð enda lífstíllinn ólíkt rólegri úti á landi. Rétt Rut. Maður sér allt í öðru ljósi þegar maður hefur verið annars staðar.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.5.2011 kl. 08:40

4 identicon

Ég bjó erlendis í tæp 2 ár, en þrátt fyrir stuttann tíma þá var margt hér heima sem pirraði mig þegar ég kom heim aftur ... nú um 4 árum seinna er ég að mestu búin að aðlagast þessu öllu aftur ... öllum ósiðunum, en bara að mestu :)

En það er þannig að gangandi á alltaf réttin á gangstéttum og á því hjólandi að taka tillit til þess sem er gangandi.

Eitt sem "við" sem hjólum erum svo að reyna að breyta, eins og þú hefur kannski séð þá eru sumir stígar skiptir niður - hjólandi hér og gangandi hér - það er ekki alveg að gera sig ... við viljum bara eðlilega hægri umferð á gangstéttum og stígum landsins, þá gengur þetta svo miklu betur.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 3.5.2011 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband