Opið bréf til íþróttafréttamanna fjölmiðlanna
2.6.2011 | 19:04
Kæru íþróttafréttamenn. Ég veit að þið viljið helst ræða um íþróttir sem innihalda bolta og að ykkur er meinilla við að segja frá nokkru öðru, en pökkur er mjög svipaður bolta og eins og í flestum boltaleikjum gengur íþróttin út á að koma pökknum í net andstæðingsins. Þessi íþrótt kallast hokkí og hefur verið stunduð á Íslandi í áratugi þótt hópurinn þeirra sem stunda hana sé enn lítill.
Þessi íþrótt er reyndar mikilvæg í sögu Íslendinga því það var hópur Íslendinga í Kanada sem vann fyrstu gullverðlaunin í hokkí á Ólympíuleikum. Merkilegur árangur sem fáir virðast vita um.
Þá er spilað Íslandsmót í hokkí og eru meira að segja fjögur karlalið, sem er nú hreinlega 100% fjölgun frá því fyrir ekki svo mörgum árum. Ekki allar íþróttagreinar geta státað að slíku. Þá fjölgar einnig bæði konum og börnum sem stunda íþróttina.
Besta hokkíið er leikið í N-Ameríku, í NHL deildinni. Þar er spilað um Stanley bikarinn og sú keppni stendur einmitt yfir núna. Í gær var leikinn fyrsti leikurinn í úrslitunum. Það voru Boston Bruins, eitt upphaflegu sex liðanna í deildinni, og Vancouver Canucks, sem aðeins tvisvar áður hefur komist í úrslitarimmuna. Ég var að horfa á Stöð 2 og þar var ekki minnst einu orði á þennan leik. Hins vegar var minnst á að í kvöld færi fram leikur í NBA deildinni. Sem sagt, það var mikilvægara að minnast á leik sem ekki hefur verið leikinn en að segja frá úrslitum leiks sem leikinn var í gærkvöld. Ég fann ekki orð um þennan leik á mbl.is og visir.is. Það verður gaman að sjá nú í kvöldfréttum RÚV hvort minnst verður á leikinn þar. Þeir hafa nú ekki mikið talað um hokkí hingað til.
Þið haldið kannski, kæru íþróttafréttamann, að enginn fylgist með hokkí á Íslandi? Það er ekki rétt. Hópur manns kemur til dæmis saman á pöbbum borgarinnar, um miðja nótt, til að horfa á þessa leiki. Þá er ég viss um að allir þeir sem spila hokkí á Íslandi fylgjast með hokkí. Allt þetta fólk vildi gjarnan að íþróttinni þeirra væri sýndur þó ekki væri nema snefill af athyglinni sem boltaíþróttir fá. Ég er ekki að fara fram á að þið séuð alltaf með fréttir úr NHL deildinni, en þetta núna er rimman um Stanley bikarinn. Bestu lið í heimi eru að keppa. Það hlýtur að vera einhvers virði, eða hvað?
Athugasemdir
Og að sjálfsögðu var ekkert sagt á RÚV. Skammist ykkar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.6.2011 kl. 19:22
Dolli dropi, Adolf Ingi Erlingsson, hefur væntanlega ekki verið á vaktinni hjá Rúv? Hann er nefnilega mikill hokkíáhugamaður og hefur lýst mörgum leikjum, m.a. síðast frá OL. Hið nýafstaðna HM var hins vegar ekkert eða ítið sem ekkert til umfjöllunar. N4 stöðin sýndi svo úrslitaleikina um Íslandsmeistaratitilinn í vor og hefur gert það áður.
S2 fjallar um körfuna að þeirri einföldu ástæðu, að hún er sýnd hjá þeim, kskapar tekjur o.s.frv. (og er líklega vinsælli íþrótt á landinu en íshokkíið?!")
Magnús Geir Guðmundsson, 2.6.2011 kl. 19:46
Hvernig fór annars leikurinn í gær?
Magnús Geir Guðmundsson, 2.6.2011 kl. 19:47
Nei, Dolli var ekki með íþróttafréttirnar í kvöld. Leikurinn fór 1-0 fyrir Vancouver. Þeir skoruðu sigurmarkið þegar sirka 10 sekúndur voru eftir af leiknum.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.6.2011 kl. 19:51
Þegar ég bjó í Noregi, var það með besta sjónvarpsefninu, þegar sýnt var frá íshokkíleikjum og var ég orðinn nokkuð vel að mér í íþróttinni og þetta var ein af fáum íþróttum sem Norðmenn komust ekki upp með að sýna bara Norsku sóknirnar í landsleikjum. Ég saknaði íshokkísins mikið eftir að ég kom aftur heim.
Jóhann Elíasson, 2.6.2011 kl. 21:09
Við skulum vona að fjölmiðlarnir hér á landi fatti einhvern tímann hversu mögnuð íþrótt þetta er og fari að sýna leikina oftar, eða alla vega að segja frá helstu úrslitum.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.6.2011 kl. 21:44
Gaman að heyra, innilega til hamingju, litla hokkíhjartað þitt hefur áreiðanlega tekið fleiri en eitt aukaslag! Ert núna að minnsta kosti komin með hugan hálfa leið aftur vestur?!
Magnús Geir. (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.