Kaupmaðurinn á horninu

Ég er svakalega ánægð með konuna sem rekur verslunina Rangá í Skipasundi. Fyrir nokkrum dögum skaust ég þar inn sem oftar og spurði þá hvort hún seldi einhvern tímann soðið brauð. Það fæst nefnilega aldrei í Holtagörðum, hvorki í Hagkaup né í Bónus, eða alla vega ekki þegar ég hef leitað. Sem er reyndar yfirleitt þegar ég kem þar inn. Hún sagðist hafa keypt það fyrir löngu en það væri orðið töluvert síðan. Við ræddum þá aðeins um soðið brauð og hversu gott það er með hangikjöti og að þetta væri hugsanlega algengara fyrir norðan eða alla vega fær maður alltaf soðið brauð í Bónus á Akureyri. Í dag fór ég í Rangá að kaupa mér ljósaperur og þegar ég kom að búðarborðinu liggja þá ekki nokkrir pakkningar af þessu líka fína soðna brauði (skrítið annars að beygja þetta, en enn skrítnara að beygja það ekki). Þetta kallar maður þjónustu. Ég rauk aftur inn í búðina, keypti mér bréf af hangikjöti, greip að sjálfsögðu soðna brauðið og hlakka nú til hádegisverðar á morgun. 

Það er annars mikil synd hvernig kaupmennirnir á horninu eru smátt og smátt að hverfa. Melabúðin er reyndar enn til og ég fer stundum þangað í hádeginu, og á hverjum morgni hjóla ég fram hjá Pétursbúð á Ægisgötu, en ég sakna Hagabúðar sem ég verslaði alltaf í þegar ég flutti fyrst til Reykjavíkur. Það var einmitt verið að loka henni þegar ég flutti til Kanada fyrir tólf árum og 10-11 að taka við. Alls ekki það sama. Þar var t.d. hægt að fá alveg dásamlegar samlokur með túnfisksalati. Maður fær enn vatn í munninn við tilhugsunina.

En kaupmaðurinn á horninu sem situr í fyrsta sæti var náttúrulega alltaf Reginn gamli sem rak litlu verslunina í Langholtinu á Akureyri þegar ég var barn. Þangað fór maður stundum með pening í vettlingi ásamt miða með því sem maður átti að kaupa, rétti Regni (já, þannig beygist Reginn í þágufalli) og hann setti þetta í poka fyrir mann, tók það af af peningum sem til þurfti og lét mann fá afganginn í vettlinginn Með þetta tölti maður aftur heim, stuttum fótum. Stundum fékk maður líka pening fyrir eitthvert viðvik og fór þá til Regins með aurana og fékk kannski eina karlmellu.

Sérstaklega stunduðum gömlu konurnar það í hverfinu að senda mann í búðina og þá fóru þær bara út á stétt og kölluðu til næsta krakka. Maður nennti nú ekki alltaf en lét sig hafa það, enda engir vasapeningar í þá daga og sjaldan sem maður fékk nammi. Amma Gunna var ein af þeim sem sendi okkur gjarnan. Hún var í rauninni amma mín en það kölluðu hana allir hinir líka ömmu Gunnu. Amma var fokill við Siggu systur sína yfir því að Sigga borgaði alltof mikið. Amma var þá kannski að borga fimmtíu aura en Sigga borgaði krónu. Amma vændi þá systur sína um að hífa verðið upp. Já, þá voru aðrir tímar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verslunin Rangá er hverfisverslunin mín,og er ég um fimm mínútur að labba þangað. Eigendur verslunarinnar eru einstaklega elskulegt fólk,og sumt starfsfólk verslunarinnar er búið að vinna þarna í tuga ára.  Verslunin Rangá verður 80 ára núna í Nóvember.  Kristín,hún er skemmtileg og skondin sagan sem þú segir frá æskuárum þínum á Akureyri.

Númi (IP-tala skráð) 5.7.2011 kl. 09:42

2 identicon

Peningar og miði í vettlingunum. Ég fæ nostalgíuhroll og finn hvernig fingurnir leika við kaldan málminn og þukla eftir bréfinu með innkaupalistanum á meðan ég skottast fyrir mömmu útí búð!

ef þú ert annars með frysti er bara að skella í soðið brauð. tekur bara kvöldstund og gott að grípa í það!

Rut (IP-tala skráð) 5.7.2011 kl. 09:56

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þá erum við nágrannar Númi.

Rut, er ekkert mál að baka þetta?

Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.7.2011 kl. 18:42

4 identicon

Iss nei, viltu að ég sendi þér uppskriftina hennar mömmu?

Rut (IP-tala skráð) 5.7.2011 kl. 19:33

5 identicon

Ekki er að spyrja að rausn Brekkufólksins!

Frændi

Bernharð Haraldsson (IP-tala skráð) 7.7.2011 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband