Að hitta fólk

Alveg hrikalega fer í taugarnar á mér þessi nýja lenska að tala um að fólk sé að 'hitta' hinn og þennan. 

"Amanda var hætt að hitta Pete og var aftur farinn að hitta gaurinn úr vondu fjölskyldunni..."

Hvaðan kemur þetta eiginlega? Ekki úr ensku því sögnin 'meet' er ekki notuð þannig. Hér er talað um að 'date someone' eða 'see someone' sem ætti því að vera að 'stefnumóta einhvern' eða 'sjá einhvern' (reyndar hef ég séð Íslendinga segja 'deita einhvern'). Er ekki  meira að segja annað hvort slorritanna (Séð og heyrt eða Hér og nú) farið að nota svona mál?

Það furðulega er að ég get ekki séð að það hafi verið nauðsyn á að koma með svona orðalag. Við höfum alltaf  getað talað um sambandsmáls fólks án þess að nota sögnina 'hitta'. Sagði maður ekki bara: Amanda var hætt að vera með Pete og farin að vera aftur með gaurnum úr vondu fjölskyldunni"?

Þar að auki finnst mér ég oft hitta fólk án þess að nokkuð liggi að baki. Þegar ég var á Akureyri um jólin hitti ég til dæmis alveg fullt af fólki, og ætti því kannski að hafa áhyggjur af lauslæti mínu. Reyndar hitti ég flest þetta fólk af tilviljun, annað hvort niðri í bæ eða á Glerártorgi, og fannst það nú allt fremur saklaust. 

Æ, ég ætlaði nú ekki að fara að röfla of mikið yfir tungumálinu enda hefur það aldrei breytt neinu hvort eð er. En ég er að vinna verkefni sem krefst þess að ég lesi geysilega mikið af því sem skrifað er á íslenskar vefsíður og stundum verður mér bara alveg nóg um. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Fari þá Sigfússynir að hitta konur sínar, segir Síðu-Hallur við Flosa í Njáls sögu ...

Hlynur Þór Magnússon, 7.2.2007 kl. 18:42

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

P.s.: Biðst velvirðingar á þeirri hótfyndni sem felst í ofanskráðri tilvitnun í Njáls sögu. Þó að rétt sé hér vitnað til sögunnar, þá er ekki átt við að þeir Sigfússynir „deiti“ konur sínar, eins og það er kallað.

Hlynur Þór Magnússon, 7.2.2007 kl. 18:50

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hey, mér líkar menn sem geta vitnað í Njáls sögu.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.2.2007 kl. 19:11

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég hef samt skilið sögnina sem þýðingu á enska orðinu „meet“, sbr. „They met each other two weeks ago“ sem ég myndi þá ætla að þýddi „Þau kynntust fyrir hálfum mánuði“. Og mér gremst þetta, þ.e. „Þau hittust fyrir hálfum mánuði“.

Mér gremst líka þegar menn þýða 72 hours sem 72 tíma en ekki þrjá sólarhringa. Eða þekkja menn eitt enskt orð fyrir sólarhring? Og segjast vera í vinnunni 24-7. Og loks hnaut ég í þýðingu um „Ég og Henry fórum upp/niður/út“ ... í stað „Við Henry fórum“ ... Eða hvernig þýða menn „Við Örnólfur ákváðum að slá þessu upp í kæruleysi“? „We Ornulf decided to hit it up in wrecklessness“???

Jæja, mál að ati mínu linni.

Berglind Steinsdóttir, 8.2.2007 kl. 22:59

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ah, rétt hjá þér Berglind að 'hitta' þýðir það sama og 'meet'. En sú notkun sem ég er að amast við er þegar 'hitta' þýðir 'to date'. Þ.e. 'að hitta einhvern' er sem sagt það að 'vera á föstu með', svo maður noti nú gamaldags orðalag. Ef Jónína er farin að hitta Guðmund er hún að slá sér upp  með honum, ekki bara að hitta hann einhvers staðar, hvort sem er planað eða af tilviljun.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.2.2007 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband