Vetrarhjólreiðar

Ég var að skipta um fararskjóta - lagði fallega Loius Garnier hjólinu mínu og tók fram gamla Trek fjallahjólið. Nú þegar er farið að fyrsta er ekki gott að vera á örmjóum dekkjum. Í morgun var t.d. svo hvasst að sjórinn gekk yfir göngustíginn á Sæbrautinn og fraus síðan þar og myndaði þar með heilmikið svell. Þá var ég ánægð með að vera komin yfir á fjallahjólið. En auðvitað er þetta svoítið eins og að fara af Bens yfir á gamlan Skoda - eins og þeir voru þegar Tékkarnir smíðuðu þá. Ég finn til dæmis fyrir því í lærunum í dag - miklu þyngra einhvern veginn að stíga hjólið. Annars var ég búin að sakna þessa Trek hjóls mikið í Kanada - allt þar til ég fékk Lois Garnier hjólið. Þegar ég flutti út fyrir tólf árum ætlaði ég nefnilega bara að vera í eitt ár. Svo ég keypti mér bara ódýrt - og þar af leiðandi tiltölulega lélegt - Bonelli fjallahjól. Ég var aldrei hrifin af því. Fannst það þungt og stíft og gírarnir voru aldrei þægilegir. Ef maður var til dæmis byrjaður að hjóla upp brekku og ákvað þá fyrst að gíra niður, var undantekning að það tækist. Helst þurfti sem sagt að skipta um gír áður en brekkan hófst. Óþolandi. Og á slíkum stundum hugsaði ég með hlýju til Trek hjólsins. Enda var það ákaflega gott hjól þegar ég keypti það fyrir sirka fjórtán eða fimmtán árum. En svo flutti ég til útlanda og skildi hjólið eftir hjá bróður mínum. Þar hefur það staðið - í garðinum hans - í alls kyns veðri og vindum í tólf ár. Ryðgað eftir því. Í vor lánaði ég frænku minni hjólið og hún lét taka það aðeins í gegn svo hægt er að nota það, en þetta er ekki sama dásamlega hjólið og ég keypti á sínum tíma. Það er hjólum ekki hollt að búa úti allan ársins hring. 

En talandi um hjólreiðar - alveg er það óþolandi hvað ökumenn bifreiða sína hjólreiðamönnum litla tillitsemi. Í dag var ég að hjóla niður Ægisgötuna, eins og flesta daga, og var einhvers konar grafa stopp á veginum þannig að bílarnir sem komu á móti mér þurftu í raun að skipta yfir á mína akrein til að komast fram hjá henni. Hefði ég verið á bíl hefði ég átt sjálfsagðan rétt og hinir hefðu þurft að bíða þar til ég var komin fram hjá gröfunni. En af því að ég var hjólandi þá hikuðu ökumenn bílanna ekki við að fara fram hjá gröfunni á minni akrein og þvinga mig út á kant. Algjörlega óásættanlegt. Ég átti fullan rétt. 

Í gær hjólaði ég heim eftir að fór að rökkva. Kom í ljós að batteríin voru búin á afturljósinu svo ég ákvað að hjóla heim eftir gangstéttum en ekki á götunni, svona öryggisins vegna. Í Laugardalnum fór ég því yfir götuna á gangstétt eins og gangandi vegfarendur. Bílstjóri á leið í vesturátt götuna stoppaði til að hleypa mér yfir. Ég komst út á eyju á miðju götunnar en treysti mér ekki til að fara alla leiðina yfir því bíll kom á töluverðri ferð vestanfrá og virtist ekki ætla að stoppa. Þetta var gömul kerling og þegar hún kom að gangbrautinni hægði hún á sér en hélt þó óhikandi yfir gangbrautina án þess að stoppa. Og ef einhverjum dettur í hug að hún hafi bara ekki séð mig af því að afturljósið vantaði þá passar það auðvitað ekki þar sem það snéri hvort eð er frá henni. Framljósið sneri í hennar átt og hægri ermin á jakkanum mínum er að auki með 'Vancouver 2010' skrifað með endurskinsmerki. Ég var því mjög vel upplýst þarna.

Hitt er annað mál að hjólreiðamenn eru hræðilegir með að fylgja umferðareglum. Það er efni í annað blogg. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já sennilega hjóla ég ekki meira í vetur á cannondale quik hjólinu mínu, er að jafna mig eftir axlarmeðferð og þegar hún verður orðin góð fer ég sennilega á spesialised fjallahjólið mitt en það er á nagladekkjum. Hálfgerður trabant miðað við Cannondale en dugar vel í hálkunni

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband