Allar tölvur á íslensku
2.2.2012 | 18:40
Pabbi keypti Sinclear spectrum tölvu fyrir heimilið í kringum 1984. Tölvan var bara með 8k og því komst ekki mikið fyrir á henni. Maður hlóð leikina inn af kassettu og þegar átti svo að spila næsta leik varð að hlaða þann leik inn. Sex árum seinna, eða 1990 keypti ég mér svo Hyundai tölvu sem keyrði á DOS. Hún var með svörtum skjá og appelsínugulum stöfum. Myndræni þátturinn var mjög takmarkaður. Ég fékk þó einhverja leiki hjá vinkonu minni, svo sem King's Quest, Space Quest og Leisure Suit Larry, en aðallega notaði ég tölvuna til að skrifa ritgerðir.
Tveim árum seinna eignaðist ég fyrstu alvöru tölvuna. Það var Macintosh Color Classic frá Apple. Ég var fyrst efins um að ég vildi þessa tölvu því skjárinn var svo lítill, en bróðir minn sannfærði mig um að þetta væri tölvan sem ég ætti að fá mér. Ég get sagt að það á vissulega við um mig að 'when you go Mac, you never go back'. Ég hef átt makka síðan og vil alls ekki breyta því.
Þarna haustið 1991 (eða vorið 1992 - man ekki hvort) þegar ég fékk fyrsta makkann minn vakti það auðvitað athygli mína að stýrikerfið var á íslensku. Og það var hægt að fá ýmislegt fyrir tölvuna á íslensku. PC tölvur voru þá allar á ensku og langur tími átti eftir að líða þar til þetta breyttist. Ég man að ég skammaðist oft yfir því þegar PC tölvur voru keyptar í skólana og benti á að þar sem Microsoft neitaði að láta íslenska kerfið sitt ætti að sjálfsögðu ekki að skipta við þá og eingöngu ætti að kaupa makka fyrir íslenska skóla.
Svo flutti ég til útlanda og á þeim árum sem ég bjó í Kanada eignaðist ég fjóra makka: tvær fartölvur og tvær borðtölvur. Stýrikerfið var að sjálfsögðu á ensku enda ég í enskumælandi landi, en ég fékk mér þó íslensku uppfærslurnar til að fá íslenska stafi. Fyrst þurfti ég að kaupa þetta frá Apple búðinni en svo kom þetta ókeypis með síðari tölvunum. Ég stóð alltaf í þeirri trú að heima hefði ekkert breyst og allar Apple tölvur kæmi með íslensku viðmóti.
Það var ekki fyrr en ég flutti heim og var að ræða um mikilvægi íslensks viðmóts á tölvum að ég komst að því að Apple tölvur voru ekki lengur á íslensku - og það sem meira er, höfðu ekki verið það í mög ár. Ég varð eiginlega fyrir sjokki. Þarna hafði sem sagt verið stigið stórt skref afturábak. Ég veit ekki af hverju þetta breyttist. Nýir eigendur sáu kannski ekki mikilvægi íslenskunnar. Kannski var Apple Inc. stífari. Kannski eitthvað annað. Aðalatriðið er að makkarnir eru ekki lengur á íslensku. Sem er hrikalegt þegar tekið er tillit til þess að þeir eru nú mun vinsælli en þeir voru þegar þeir voru á íslensku. Ekki það að hér sé um orsakasamhengi að ræða.
Og nú er farið að nota iPad spjaldtölvur í íslensku skólastarfi - og þær auðvitað á ensku. Í dag spurði ég fulltrúa Apple Inc. um það hvort til standi að þýða stýrikerfi Apple aftur yfir á íslensku. Hann benti fyrst á að lyklaborðið væri til á íslensku en ég svaraði að það væri ekki nóg. Hann sagði þá að þeir væru meðvitaðir um ástandið og þetta stæði til, en það væru mörg verk í gangi og mörg tungumál og hann gat ekki sagt neitt um það hvar í röðinni við værum. Sem sagt, ekki mjög framarlega, eða það les maður alla vega úr svari hans. Hann sagði að fyrsta skrefið væri að vinna með Apple á Íslandi og fá þetta þannig í gegn. Apple á Íslandi skilur vandamálið en þeir þurfa að eiga við þá stóru vestanhafs. Hins vegar held ég að ef við beitum þá þrýstingi þá geti þeir betur beitt Apple Inc þrýstingi. Og ég held að þetta sé það sem við þurfum að gera.
Ef það næst í gegn að koma iPöddum (eða bara pöddum) í skólakerfið þá verður stýrikerfið að vera á íslensku. Við verðum að krefjast þess.
Og svo að Windows sleppi ekki alveg frá þessari umræðu má benda á að þótt Windows sé núna til fyrir íslensku þá eru tölvurnar ekki settar upp með því stýrikerfi þegar notandinn kaupir tölvuna heldur verður hann sjálfur að fara á netið, sækja uppfærsluna og keyra hana inn. Auðvitað á þetta að vera öfugt. Tölvan á að koma til neytandans uppsett á íslensku (eins og Apple tölvurnar voru í gamla daga), og ef fólk vill hafa kerfið á ensku þá geta þeir sótt það á netið og sett upp sjálfir.
Sem sagt, við ættum að krefjast þess að Apple láti þýða stýrikerfið sitt á íslensku og að seljendur tölva með Windows selji tölvurnar með íslenska kerfið þegar upp sett. Erum við nokkuð að ætlast til of mikils?
Athugasemdir
Já, við erum að ætlast til of mikils. Við erum því miður of lítil og allt kostar peninga. Málum þarf þó auðvitað að halda vakandi. Tók á árum áður oft þátt í trúarbragðadeilum um PC vs. Mac og hef ekki áhuga á að endurtaka það allt. Íslenskan var alls ekkert aðalatriði þar. Frá mínu sjónarmiði var aðalgallinn við Makkann að hann var "proprietary" og það speglaðist í verðunum á öllu honum tilheyrandi. Kannski varð pésinn svona opinn fyrir slysni. Það eru fremur einstakir tölvuhlutar sem skipta mestu máli núna en ekki hvort tölvur eru PC eða Mac.
Sæmundur Bjarnason, 2.2.2012 kl. 22:56
Nei, við erum ekki að ætlast til of mikils. Stórfyrirtæki eins og Microsoft (og væntanlega Apple) láta þýða stýrikerfi sín á fjölmörg tungumál, að taka íslenskuna með í þeim pakka er sáralítil kostnaðarviðbót fyrir þau fyrirtæki. Ástæðan fyrir því að Windows og notendaviðmót allra farsímategunda (nema iPhone) eru til á íslensku er alls ekki ötul barátta íslendinga (enda varla til staðar), heldur miklu frekar vilji fyrirtækjanna til að ná inn á ólík markaðssvæði (listinn hjá Microsoft er gríðarlangur: http://windows.microsoft.com/en-us/windows/downloads/languages), og svo hafa reglur ESB haft mikil áhrif. Ætla svosem ekkert sérstaklega að mæla með Windows 7 á íslensku, enda massahlutdrægur.
Guðmundur Erlingsson (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 01:56
Mér finnst svo bjánalegt að þeir ætli að nota Ipad til kennslu, á meðan alltaf er verið að væla yfir að krakkar séu of mikið í tölvum. Svo er þetta svo kostnaðarsamt, og krakkarnir eiga eftir að skemma þetta.
Athugandi (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 14:40
Ég verð að viðurkenna að ég er ein af þeim sem hef símann minn á ensku og tölvuna mína, sem er makki núna, á ensku. Lyklaborðin hef ég á íslensku. Ég skil einfaldlega ekki síma eða tölvur á Íslensku, hef oft ætlað að hjálpa foreldrum eða öðrum með tölvurnar sínar eða símana og þegar ég sé að stillt er á íslensku bið ég um að símunum sé breytt yfir á ensku svo ég geti eitthvað gert ... tölvurnar skil ég bara ekki!
En aftur á móti ef tölvan sem keypt var á mitt heimili í kringum 1992 hefði verið á íslensku þá hefði ég vanist því of fyndist það í góðu lagi í dag því styð ég það að stýrikefin fyrir bæði Mac og PC séu til bæði á íslensku og ensku og að íslenskunni sé haldið að börnunum í þessum tækniheimi.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 13:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.