Vetrarólympíuleikarnir 2010

Í Vancouver í gær var afhjúpuð klukka sem mun telja niður til Ólympíuleikanna 2010 en í gær voru nákvæmlega þrjú ár þar til eldurinn verður tendraður hér í Vancouver.

Nú þegar er búið að eyða ótrúlegum fjárhæðum í uppbyggingu á ýmsum mannvirkjum, svo sem nýrri hokkíhöll, nýrri skautahöll, ólympíuþorpi, sleðagarði... Og svo er það endurgerð alls þess sem fyrir er. Margt af þessu á eftir að  koma borginni til góða í framtíðinni. Til dæmis er nýja hokkíhöllin á svæði háskólans og mun verða keppnisstaður háskólaliðsins að ólympíuleikum loknum. Ólympíuþorpið mun standa á frábærum stað niðri við False Creek og verða íbúðirnar væntanlega settar á almennan markað að leikum loknum. Hins vegar eru mikil óþægindi samfara allri þessarri uppbyggingu. Til dæmis er verið að byggja nýjar lestarlínur yfir í Richmond þar sem flugvöllurinn er. Vegna þess eru stórar æðar eins og Cambie gatan sundurgrafnar og margir eru orðnir leiðir á því hvaða áhrif þetta hefur haft á umferðina. Þá er ljóst að enginn veit hvernig borgin á eftir að koma út úr þessu fjárhagslega. Calgary hefur náð að borga upp Ólympíuleikana 1988, og kom jafnvel út í gróða, en Montreal er enn í stórskuld síðan sumarólympíuleikarnir voru haldnir þar árið 1976. 

Við athöfnina í gær söfnuðust einnig saman um sextíu manns til að mótmæla. Nokkrir voru handteknir en ekki fyrr en þeir náðu að koma skilaboðum sínum á framfæri. Mary Claremont, ein mótmælenda sagðist vera á móti ólympíuleikunum vegna þess að verið væri að dæla milljón eftir milljón í tveggja vikna partí á sama tíma og þúsundir deyja á götum borgarinnar vegna eyðni, fátæktar og hungurs.

Annar viðstaddur athöfnina, David Krantz, sagði að sér þætti klukkan flott en var óánægður með mótmælin. Fannst að mótmælendur hefðu átt að vera lengra í burtu frá athöfninni!!!!! Mér finnst ferlega fyndið að segja þetta. Kannski mótmælendur ættu í framtíðinni að halda sín mótmæli þannig að þau trufli ekki athafnirnar sem verið er að mótmæla. Það yrði nú áhrifaríkt.

Ég er eins og framsóknarmaður í þessu máli, tvístíga. Sem skíðamaður og almennur aðdánandi íþrótta finnst mér ofsalega spennandi að ólympíuleikarnir skuli vera að koma hingað (verst að ég verð búin að útskrifast og farin fyrir 2010) en ég skil líka þá sem hafa áhyggjur. Allt er sundurgrafið, þetta kostar ógurlega peninga, ólympíunefndin hefur tekið land frá indjánum í leyfisleysi og almennt vaðið yfir hvern sem er.... En maður verður bara að sjá hvernig þetta allt fer.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband