Hjólreiðamenn þurfa líka að taka tillit
11.6.2012 | 23:50
Ég hjóla í vinnuna. Þetta eru sirka 14 kílómetrar báðar leiðir og mest hjóla ég á hjólreiðastígum. Fer þó út á götuna þegar stígum lýkur fremur en að hjóla á gangstéttinni - enda trúi ég því einlæglega að hjóla eigi fremur heima með akandi umferð en gangandi. Ég get sagt margt um tillitsleysi ökumanna gagnvart hjólreiðarmönnum og ég mun gera það - en í annarri færslu.
Ég ætla að byrja heima hjá mér; þ.e. hjá okkur hjólreiðarmönnunum sjálfum. Það er auðveldast að lýsa hjólferðinni í vinnuna í morgun. Ég hjólaði Laugarásveginn og svo Sundlaugarveg.Það gekk vel og ég lenti ekki í neinum vandræðum. Ég hjóla svo út á stíginn við Sæbrautina til móts við Kringlumýrarbraut. Stígurinn þar er greinilega afmarkaður með heilli línu sem skilur að gangandi og hjólandi. Með reglulegu millibili er málað hjól þeim megin sem ætlast er til að hjólreiðarmenn hjóli, og gangandi manneskja er máluð hinum megin. Þetta gæti nú varla verið einfaldara. Nema að þegar ég kem inn á stíginni hjóla ég mjög fljótlega uppi mann á hjóli sem hjólar hægra megin á stígnum, þeim sem er kirfilega merktur gangandi manneskju. Mig langaði að benda honum á að hann væri vitlausu megin en hann var með heyrnartól í eyrum og ég var á hraðleið. Ég tek fram úr (vinstra megin því ekki annað var hægt) og hjóla áfram. Ég verð þó að taka fram að það er ekki oft sem ég sé fólk hjóla þarna vitlausu megin. Það er margfalt algengara að gangandi labbi þar sem merkt er hjólreiðamönnum.
Stuttu síðar kemur annar hjólreiðamaður á móti mér. Þarna er mitt mál að víkja inn á stíginn þar sem hann á réttinn miðað við hinn íslenska hægri rétt, nema hvað áður en ég næ að víkja er hann búinn að víkja. Hann víkur þar með til vinstri og við mætumst vitlausu megin. Hefði ég vikið á sama tíma hefðum við hugsanlega lent saman. Ég skil ekki að hægri rétturinn geti verið svona flókinn. Þetta er ekki heldur algeng vandamál en þó mun algengara en það að hjóla að jafnaði á vitlausum helming. Einn daginn mætti ég tveim á sama stígnum sem viku til vinstri. Það hefur líka komið fyrir mig að vera að hjóla í austurátt á stígnum, þar sem ég á réttinn, og sá sem kom á móti vék ekki heldur þumbaðist áfram með frekju. Þar mátti litlu muna að um slæman árekstur yrði.
Á föstudaginn lenti ég í því að hjóla í austurátt - á þá réttinn á Sæbrautinni eins og fram kom. Hjólreiðarmaður kom úr gagnstæðri átt og hefði átt að víkja öllu jöfnu, nema að akkúrat þar sem við áttum að mætast voru þrjár manneskjur á gangi sem þar með tóku upp sinn hluta stígsins - eins og þær hafa fullan rétt til. Þar hefði hinn hjólreiðarmaðurinn átt að stoppa en hann var ekki á því og mætti mér á hjólreiðarpartinum þrátt fyrir að manneskjurnar þrjár væru þá akkúrat við hliðina. Ekkert hefði mátt útaf bregða til að annað hvort okkar flygi á hausinn. Og ef það hefði verið hann, þá hefði hann dottið á fólkið.
Algengasti dónaskapur hjólreiðamanna er þó sá að margir þeirra telja umferðarljósin ekki eiga við sig. Langstærstur hópur hjólreiðamanna fer yfir á rauðu ljósi ef engin er umferð. Hvað myndum við segja ef ökumenn höguðu sér þannig? Kíktu til hliðar og ef enginn bíll væri að koma þá færu þeir bara yfir? Ég er hrædd um að slysunum myndi fjölga í umferðinni ef allir færu að taka sénsa. Og af hverju halda hjólreiðamenn að umferðareglurnar taki ekki til sín? Af hverju halda þeir að rautt ljós eigi ekki við þá? Ég gerði könnun á þessu í fyrra. Í hvert sinn sem ég beið á rauðu ljósi taldi ég hversu margir fóru yfir og hversu margir biðu með mér. Niðurstaðan var sláandi - 75% fóru yfir. Ókei, úrtakið var kannski ekki stórt þar sem ég taldi bara í nokkra daga og ég var ekkert alltaf stopp á rauðu ljósi, en ætli ég sé ekki að tala um 12 sem fóru yfir á rauðu og 3 sem biðu.
Við sem ferðumst um á hjóli vitum hversu mikilvægt það er að tillit verði tekið til okkar og að við hljótum jafnan sess í umferðinni og aðrir. Ætti þá ekki fyrsta skref okkar að vera það að fylgja sjálf umferðarreglunum? Ættum við ekki að sýna gott fordæmi? Getum við ætlast til þess að tillit verið tekið til okkar ef við tökum ekki tillit til annarra?
Athugasemdir
Tímabær og þörf ábending.
guru (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 00:49
Mjög góð skrif hjá þér. Alltof margir svo uppteknir af því að láta aðra fara í taugarnar en gleyma að þetta byrjar allt hjá okkur sjálfum.
Gangi þér vel
Anna Guðný , 12.6.2012 kl. 10:20
Þessi lína á hjóla/göngustígum sem á að aðskilja gangandi og hjólandi umferð, og gefur tvístefnu hjólaumferð samtals um 70 cm breidd, er bara ekki sérlega sniðug og eiginlega afleit strax og er nokkur umferð hjóla á slíkum stíg.
Einar Karl, 12.6.2012 kl. 10:31
Reyndar rétt. Þetta er best eins og er orðið í Fossvoginum þar sem búið er að aðskilja hjólandi og gangandi, en mér finnst þessi lína samt betri en ekkert því maður hefur þá alla vega rétt á því að hringja bjöllunni ef fólk labbar innan við hana, án þess að búast við skömmum. Ég hef nefnilega lent í því að hjóla á breiðri gangstétt þar sem engin lína var. Þrjár stelpur löbbuðu hlið við hlið og tóku upp allan stiginn. Ég hjólaði rólega á eftir þeim og hringdi bjöllunni til að biðja þær að víkja. Ein gerði það, nóg til að ég komst framhjá, en hinar skömmuðu hana fyrir að víkja - hún ætti ekki að sinna svona frekju. Mér finnst línan alla vega vera áminning um að við eigum þennan stíg saman, þó svo að hjólreiðamönnum sé ætlað að veita gangandi forgang.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.6.2012 kl. 11:48
hmm mín skoðun er sú að engar línur eigi að vera á gangstéttum sem skilja að gangandi og hjólandi. Það á einfaldlega að vera hægri réttur á göngustígum, og þá virkar þetta ótrúlega vel ... gerir það í Seattle þar sem Burke Gillmann stígurinn er nokkuð breiður og langur á honum eru allir, gangandi, hjólandi, línuskautar, fólk með vagna .. öll flórann, þar er kallað "to your left" þegar farið er framúr, einfalt ekki satt?
Ég hjóla og ég hjóla alltaf hægra megin hvort sem stígnum er skipt eður ei, ég skal koma á hægri umferð á stígum landsins! ;)
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 16.6.2012 kl. 22:57
Þú ert allt of bjartsýn Hrafnhildur. Íslendingar virðast ekki skilja reglur og sérstaklega ekki reglur sem ganga út á kurteisi. Þetta er frumskógur hérna.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.6.2012 kl. 18:22
já ég veit en ef maður ekki reynir þá gerist ekki - munið bara að ala börnin ykkar og litla frændur og frænkur upp í þessu þá eigum við von
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 14:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.