sól, rigning, hlaup og skokk
2.4.2007 | 20:33
13 dagar til hlaups.
Ég uppgötvaði mér til mikillar skelfingar í síðustu viku að þá voru aðeins rúmar tvær vikur í Vancouver Sun 10 kílómetra hlaupið og ég hef sama og ekkert hlaupið í vetur. Eins og ég hef sagt áður þá er það aðallega vegna þess að það hefur rignt svo mikið og það eyðileggur hlaupastígana í skóginum. Alla vega, það skiptir ekki máli lengur. Það sem skiptir máli er að ég er ekki komin í form ennþá.
Svo ég fór að hlaupa í síðustu viku. Það hjálpaði að sólin fór að skína og við fengum eina fimm meira og minna þurra daga. Svo ég hljóp út í skóg. Það er svo miklu skemmtilegra en að hlaupa á bölv. götunum. Og ég enda alltaf á því að hlaupa mikið lengur þegar ég fer í skóginn. Þannig að bæði föstudag og sunnudag hljóp ég í sextíu mínútur og gekk svo í einar fimmtán þar á eftir. Í gær var hnéið á mér ekki eins slæmt og það er vanalega ef ég hleyp lengur en í fjörutíu mínútur þannig að það er allt á uppleið. Ég held það hjálpi að ég reyni að labba mikið inn á milli. Á laugardaginn gekk ég til dæmis niður í klifurhús, en það er um tveggja tíma gangur. Ég klifraði svo í klukkutíma og var þá orðin þreytt. Sólin breytir öllu. Um leið og hún fer að skína er svo miklu skemmilegra að fara út og hlaupa, hjóla eða ganga. Og þá syngur maður bara eins og í gamla daga:
Sól sól, skín á mig!
Ský ský burt með þig!
Gott er í sólinn' að gleðja sig.
Sól sól skín á mig!
P.S. Set inn mynd af hlaupaleiðinni frá því í gær. Hljóp fyrst í skóginum og svo niður á strönd. Labbaði að lokum upp brekkuna heim til mín.
Athugasemdir
Vona að þú sigrir í hlaupinu! Þvílíkur dugnaður.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 2.4.2007 kl. 20:40
Haha. Ég stefni nú bara að því að verða mér ekki til skammar. Ég get hlaupið hundrað metra mjög hratt en hef aldrei verið góð í langhlaupum. Ég verð ánægð ef ég hleyp þetta á klukkutíma.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.4.2007 kl. 22:04
Og svo tekurðu 10 kílómetrana í Reykjavíkurmaraþoninu næsta sumar (18. ágúst) á 50 mínútum (loftið svo gott, sko). Ég skokka einu sinni á ári, bara í þessu Reykjavíkurhlaupi. Ræræræ.
Berglind Steinsdóttir, 3.4.2007 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.