1. Maí

Ég óska öllum til hamingju með daginn, þótt á Íslandi sé hann næstum búinn. Ég er búin að syngja Nallann og ætla núna á eftir að taka Maístjörnuna og Fram allir verkamenn.

Þegar ég hugsa um fyrsta maí í gegnum tíðina verð ég svolítið sorgmædd yfir því hvernig hann hefur þynnst í gegnum árin. Ég hef reyndar ekki verið heiima á þessum degi í ein átta ár en eftir því sem ég heyri frá vinum og ættingjum er lítið eftir af hátíðleikanum sem áður einkenndi þennan dag. Ég man að afi var vanur að klæða sig í sín bestu föt, með hatt á höfði og 1. maí næluna í brjóstinu, og spássera niðri í bæ, í veðri sem alltaf var gott í minningunni.

Eitthvert árið sem ég var í háskólanum fórum við nokkrar stelpur úr íslenskunni saman í skrúðgöngu. Ég man að Marín var þar og ég er nokkuð viss um að Berglind og Laufey voru þar einnig. Er það ekki Berglind? Við fundum okkur stað í göngunni fyrir aftan kvenréttindakonur og fyrir framan herstöðvarandstæðinga. Okkur leið vel þarna því þá tilheyrðum við báðum hópum. Fljótt var farið að hlaða á okkur alls konar dóti og einhver var kominn með skilti og einhver annar með tamborínu, Marín held ég. Þetta var rosalega skemmtilegt. Og þannig þrömmuðum við niður Laugarveginn og öskruðum slagorð. Ég sakna þess. Ætli ég verði ekki að syngja Nallann aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Téhé, ég man reyndar ekki eftir þessu en trúi því samt vel.

Sko, það sem er sorglegt er að fólk hefur engan baráttuanda. Vissulega hafa margir það gott og sjálfsagt er stærri hópur betur settur núna en var, en óréttlætinu er samt til að dreifa og þótt maður standi sjálfur á blístri gefur það manni engan rétt til að hafna almennari velmegun í ríkasta landinu.

Þessi hópur sem hefur það reglulega skítt hættir sér kannski ekki út ..? Og við hinum fljótum bara sofandi *geisp* ...

Berglind Steinsdóttir, 2.5.2007 kl. 00:35

2 identicon

Rámar í þetta, sú var tíðin.  Gekk í gær með Marín og fjölskyldu, Berglindi og svo þremur krílum, þar af tveimur sem ég á sjálf.  Ekki of snemmt að byrja að ala upp.  Allir skemmtu sér hið besta en það var alveg pláss fyrir fleiri.

Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 09:14

3 Smámynd: Rannveig Þorvaldsdóttir

Við eigum öll að taka þátt í 1. maí hvort sem við höfum það gott eða ekki og standa vörð um grundvallarlífskjör. Þannig er það nú bara... og svo ætla ég að minna þig á að kjósa ef þú ert þá ekki búin að því... það munar um hvert atkvæði  

Rannveig Þorvaldsdóttir, 2.5.2007 kl. 23:52

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Búin að kjósa - og kaus mjög gáfulega.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.5.2007 kl. 03:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband