Þrumuveður

Það er þrumuveður úti núna. Mér brá svo þegar ég heyrði í fyrstu þrumunni fyrir um tíu mínútum að ég trúði því varla að þetta hefði verið þruma. Í Winnipeg fengum við iðulega þrumuveður en hér í Vancouver er það mjög sjaldgæft. Þannig að mér finnst alltaf þrumuveður tilheyra sléttunum. En þetta var þruma og ef ég hefði efast um það  lengi þá var allur vafi tekinn af fyrir um tveimur mínútum þegar húsið alveg nötraði. Í Winnipeg var alltaf skemmtilegt í þrumuveðri. Við bjuggum á elleftu hæð með útsýni yfir stóran hluta borgarinnar og þegar þrumuveðrið kom drógum við gardínurnar frá svefnherbergisglugganum, lögðumst upp í rúm og horfðum á eldingarnar lýsa upp himininn. Við vorum líka vön að telja sekúndurnar frá því sáum eldinguna og þar til við heyrðum þrumuna og reikna þannig út hversu nálægt okkur eldingarnar voru. Þetta er ekki eins skemmtilegt þegar maður býr í gömlu timburhúsi sem ekki aðeins nötrar í þrumunum, heldur sem einnig myndi brenna upp ef eldingu slægi þar niður. Fyrstu helgina mína í Kanada sá ég brunarústirnar af sumarhúsi sem hafði verið lostið eldingu árið áður.

Það er líka svolítið ógurlegt þegar maður er í bíl og þarf að keyra í gegnum eldingarnar. En einu sinni vorum við Tim að keyra heim til Winnipeg frá Lethbridge í Alberta og keyrðum á svipuðum hraða og þrumuveðrið ferðaðist yfir Manitoba. Það var nokkuð sunnan við okkur svo við þurftum aldrei að keyra í gegnum það, en í rúman klukkutíma ferðaðist veðrið með okkur svo allan tímann sáum við eldingarnar dansa í loftinu, næstum eins og norðurljós. Það var nú skemmtilegt.

 Það var annars ekki skemmtilegt hjá  mér í gær. Fyrst tapaði fótboltaliðið mitt, Presto, fyrsta leiknum í sumarkeppninni (skíttöpuðum meira að segja) og þegar ég kom heim var fjórði leikur Vancouver og Ducks hálfnaður. Staðan var 1-0 fyrir Vancouver og stuttu síðar bættu þeir við marki og komust í 2-0. En snemma í þriðja hluta skoruðu endurnar og fimm mínútum fyrir leikslok jöfnuðu þeir leikinn. Þá var farið í framlenginu og eftir tvær mínútur skoruðu endurnar enn einu sinni og staðan í seríunni er því 3-1 fyrir öndunum. Leikurinn á morgun verður í Anaheim og með sigri slá þeir Vancouver út úr keppninni. Það er því að duga eða drepast, svo maður grípi til lélegra slagorða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband