Rólegur dagur
19.5.2007 | 03:45
Haldiði ekki að ég hafi ryksugað í kvöld! Það var alveg tími til kominn.
Dagurinn hefur annars verið rólegur í dag. Ég fór á fund útbússtjóra í bankanum mínum í dag sem hjálpaði mér að fylla út endalausan fjölda af eyðublöðum tengdum lífeyrissjóðnum sem ég greiddi í á meðan ég vann í Manitoba. Alltaf sama skriffinnskan í Kanada. Ég hafði reynt að gera þetta áður með hjálp starfsmanns í bankanum en hann vissi ekkert hvað hann var að gera svo ég varð að lokum að fá hjálp frá efstu stöðum. þessi var frábær. Hann fyllti þetta bara út fyrir mig og sagði mér svo hvar ég ætti að skrifa undir.
Þar á eftir fór ég út í Cliffhanger að klifra. Ég komst loksins áfram í V3 leið sem ég hef ekki getað klárað. Ég kláraði reyndar ekki heldur en ég náði haldi sem ég hef bara ekki getað náð hingað til. Ég komst töluvert fram yfir það en datt svo loksins þegar tvö höld voru eftir. Það var vegna þess að ég missti fóthald og hékk of lengi úr loftinu án þess að koma fótunum aftur á hald í loftinu. Þegar maður klifrar neðan úr veggnum (loftinu) er mun mikilvægara en ella að maður missi ekki grip því það er erfitt að komast á stað aftur. Kannski mun ég ná að klára næst. Ég veit alla vega núna hvar ég þarf að koma fótunum.
Ég var að hugsa um að fara í bíó í kvöld og sjá nýju Shrek myndina en ákvað á endanum að spara peninga og vera bara heima. Það er hins vegar ekki margt merkilegt í sjónvarpinu í kvöld því flestar seríur eru komnar í sumarfrí, þar á meðal Ghost Whisperer og Close to Home sem ég hef horft svolítið á. Í kvöld er svo lokaþátturinn í Law & Order. Það er reyndar verið að sýna frá Minningabikarnum í hokkí, þar sem eigast við bestu liðin í unglingahokkíinu. Vancouver Giants tekur þátt (hitt Vancouver liðið) en það er ekki alveg það sama að horfa á þá og að horfa á Canucks. Þannig að ég hef leikinn í gangi og fylgist með af og til. Staðan núna eer 3-3 og þriðji hluti er næstum búinn, þannig að það lítur út fyrir að þurfi að framlengja. Ég hafði reyndar hugsað mér að fara á leikinn því ég hélt það yrði ódýrara en að fara á Canucks leiki, en ódýrustu miðarnir eru um 3000 krónur og ég hef annað við peningana að gera.
Eitt af því sem ég gerði við peningana mína var reyndar að kaupa miða á tónleika Bjarkar á miðvikudaginn. Mér finnst ég verði eiginlega að fara.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.