Loksins sigur

Við unnum loks í fótboltanum. Reyndar var hitt liðið ekki með fullt lið þannig að það er ekki alveg að marka, en við spiluðum vel og unnum 7-2. Ég skoraði fjögur mörk. Sjálfstraustið kom til baka og ég skoraði þrjú mörk þannig að ég fékk boltann nálægt miðju og tók hann alla leið inn. Í þau fáu skipti sem ég fékk svoleiðis tækifæri í vetur skaut ég of snemma og klúðraði, en í kvöld trúði ég á sjálfa mig og tók boltann alla leið inn þar til ég gat sett boltann í netið án vandræða. Það var býsna skemmtilegt. Hin þrjú mörkin skoruðu Karen, Jen og Sherry, og allar voru þær að skora sitt fyrsta mark. Það skemmtilega er að þær eru allar miðjuleikmenn en ekki framherjar. Ég var reyndar eini vanalegi framherjinn. Hinar sem spila þá stöðu voru ýmist meiddar eða ekki í bænum. Þannig að við héldum að það yrði vandamál en þá komu miðjustelpurnar bara sterkar inn í staðinn.

Við höfðum að sjálfsögðu ekki rúllað þessum leik upp ef hinar stelpurnar hefðu haft fullt lið (þær spiluðu níu eða tíu) en við spiluðum virkilega vel, sendum boltann vel á milli, sköpuðum endalaus tækifæri og uppskárum eftir því. Nú er bara að vona að þetta aukna sjálfstraust skili sér í næsta leik. 

Annars vil ég líka segja frá því að í gær fór ég út að hlaupa eftir að sólin settist niður og sá uglu fljúga beint fyrir framan mig. Ég hafði ætlað að hlaupa um hverfið á götunum fyrst farið var að dimma, en hnéð á mér kvartaði svo ég hljóp inn í skóginn. Vanalega hleyp ég ekki í skóginum eftir sólsetur en það var enn býsna bjart svo ég taldi þetta í lagi. Inni í skóginum var fremur dimmt enda há tré og mikið laufþykkni og allt í einu sé ég þetta flykki fljúga yfir stíginn fyrir framan mig. Ég horfði ekki beint á fuglinn en var strax nokkuð viss um að þetta hefði verið ugla. Ernir og fálkar koma ekki mikið svona djúpt inn í skóg, og þetta var of stórt fyrir flesta skógarfuglana. Og ég þurfti ekki að leita langt því uglan hafði sest niður stutt í burtu. Ég gat ekki séð vel hvers konar ugla þetta var en það er býsna auðvelt að nota útilokunaraðferðina. Hlöðuuglan (barn owl) er of hvít, og sama má segja um snæuglu, sem að auki ætti að vera flogin norður eftir. Norhtern Pygmy uglan er of lítil, og sama má segja um saw-whet ugluna, Stóra gráuglan (Great Gray) of stór. Það skilur eftir aðeins þrjár sem passa miðað við stærð og sem eru reglulegar á svæðinu: Great Horned, Spotted/Barred eða brandugla (short eared). Ég get ekki verið viss því það var dimmt, en þegar ég skoða myndir af þessum fuglum er ég næstum viss um að þetta hafi verið annað hvort Spotted eða Barred (meira og minna sami fuglinn) einfaldlega vegna þess að þegar ég horfði á ugluna fannst mér hún helst líkjast Great Gray, bara minni, og þannig lítur Spotted/Barred uglan einmitt út (aðrir litir reyndar, en ég sá nú enga liti í myrkrinu). Alltaf gaman að sjá uglur.

Það dimmdi hratt og að lokum varð ég að hlaupa út úr skóginum því ég vil ekki vera þar eftir að virkilega tekur að dimma. Bæði er að maður veit ekkert hvað fólk getur gert, en kannski aðallega það að skógurinn er fullur af úlfum, greifingjum og skunkum sem fara á stjá á kvöldin. Ekki sérlega skemmtilegt að mæta neinum þeirra ef maður kemst hjá því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband