Um landamæramál
8.6.2007 | 16:10
Kanadamenn og Bandaríkjamenn hafa getað ferðast á milli landanna tveggja án þess að hafa vegabréf. Þessu breyttu Bandaríkjamenn fyrir nokkrum mánuðum og ákváðu að nú yrðu allir að sýna vegbréf sem færu yfir landamærin, enda trúa þeir því að allt illt komi frá Kanada. Þetta hefur gert það að verkum að ótrúlegur fjöldi umsókna um vegabréf hefur legið á borðum beggja þjóða. Bandaríkjastjórn gaf út 12 milljónir vegabréfa á síðasta ári og búast við rúmum 17 milljónum í ár. Hér í Vancouver mætir fólk um fimm leytið á morgnana til að standa í röð fyrir utan vegabréfaeftirlitið, bara til þess að koma inn umsókn. Síðan hefur tekið vikur að fá vegabréfið sjálft. Kerfið er allt of seinlegt og hafa umsóknir hrúgast upp. Bandaríkjamenn eru hundóánægðir yfir þessu og því er það nú þannig að Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að Bandaríkjamenn muni ekki þurfa að sýna vegabréf til að komast inn í landið (næsta hálfa árið) - en Kanadamenn munu þurfa að gera það. Og þetta þrátt fyrir að Kanada eigi í nákvæmlega sömu vandræðum og US með að gefa út nógu mörg vegabréf.
Mitt álit: Kanada á að bregðast við með því að neita Bandaríkjamönnum um að komast inn í landið án vegabréfs. Það er ástæðulaust að Bandaríkjamenn geti ferðast milli landanna án vegabréfs ef Kanadamenn geta það ekki. Jafnrétti hér takk.
Annars skiptir þetta mig engu máli persónulega. Ég hef alltaf þurft að sýna vegabréf og þarf þar að auki alltaf þurft að fylla út sérstakt grænt spjald í hvert skipti sem ég fer yfir til Bandaríkjanna. Það kostar $6 og tekur yfirleitt alla vega hálftíma aukalega bið á landamærunum.
Ég hef hins vegar fundið fyrir því hversu kerfið er langt á eftir því ég sótti um stöðu "landed immigrant" sem nú kallast víst "permanent resident". Þetta er sem sagt ekki ríkisborgararéttur heldur nokkurs konar milliréttindi. Núna er ég hér bara á námsmannavísa sem þýðir að ég má ekki vinna í landinu og ég verð að fara úr landi um leið og ég lýk námi. Með "landed" stöðunni hef ég næstum því sömu réttindi og Kanadamenn. Ég má vinna hvar sem ég vil og ég má vera í landinu eins lengi og ég vil. Ég get líka sótt um ríkisborgararétt tveimur árum eftir að ég fæ "landed". Ríkisborgararéttur er veittur eftir að maður er búinn að búa fimm ár í landinu en tíminn sem maður dvelur í landinu áður en maður fær "landed" telst aðeins til hálfs. Þar að auki verður maður að búa í alla vega tvö ár í landinu sem "landed" áður en maður fær ríkisborgararétt. Þess vegna má ég ekki sækja um strax þrátt fyrir að vera búin að búa hér í næstum átta ár. En sem sagt, ég sótti um í júlí 2005 og þetta er ekki enn komið í gegn. Mér skilst hins vegar að það eigi að taka mitt mál fyrir núna í júní. Eftir það mun ég líklega þurfa í læknisskoðun og kannski viðtal og svo ætti þetta að ganga.
Athugasemdir
Vá, er þetta eitthvað til að gulltryggja að fólk geri þetta ekki í snarhasti og að óyfirveguðu ráði?
Berglind Steinsdóttir, 8.6.2007 kl. 18:21
Það er auðveldara að kaupa byssu í Bandaríkjunum.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.6.2007 kl. 20:50
Þetta minnir mig á atriði úr hinum frábærum þáttum "My Name is Earl". Eitt sinn þegar hann er á leið til S-Ameríku og er mættur á flugvöllinn tilbúinn að fara um borð og þá er hann spurður um vegabréf og segir hann þá, "ég þarf ekki vegabréf ég er bandarískur og vegabréf eru bara fyrir útlendinga!"
Mummi Guð, 8.6.2007 kl. 22:22
Já, þeir þættir eru frábærir...og oft beittir.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.6.2007 kl. 06:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.