Matardagur
17.6.2007 | 01:48
Þetta hefur nú verið meiri matardagurinn. Planið var að hitta Juliönnu klukkan tíu yfir bröns og ég stillti klukkuna á níu. Ég er búin að vera eitthvað svo þreytt undanfarið að ég vildi sofa frameftir og svo bara fara í sturtu og uppí strætó. Þá væri ég heldur ekki orðin of svöng áður en ég borðaði.
Julianna hringdi hins vegar klukkan hálfníu til að láta mig vita að nú kæmist ekki fyrr en ellefu. Þetta þýddi bæði að hún vakti mig upp af draumum og skildi mig svo eftir með tvö tíma fram að matnum. Það er ekki séns að ég geti gert nokkuð skapaðan hlut á fastandi maga í tvo klukkutíma þannig að ég neyddist til að fá mér morgunverð.
Svo hálfsofin fór ég út á stétt að sækja blaðið (já, þeim er hent að húsinu eins og í amerísku bíómyndunum) og þar sem ég stend þarna á stéttinni, á náttfötunum, með blaðið í hendinni er kallað til mín: Góðan daginn (reyndar var það Good morning en þið vitið hvað ég meina). Þarna stóð þá einn af vinnumönnunum við hliðina. Ég hélt þeir ættu ekki að vinna á laugardögum en það var greinilega ekki rétt. Ég var bara fegin að ég var í náttbuxum því það hefur komið fyrir að ég hef hlaupið út á brókinni ef þannig liggur á mér.
Ég hitti Juliönnu klukkan hálfellefu á Sophie's, vinsælum morgunverðarstað. Þar var biðröð út úr dyrum en við fengum fljótt borð og ég hámaði í mig Eggs Benedict, enda hafði ég passað mig á að borða ekki of stóran morgunverð tveimur tímum áður. Eggs Benedict er svoooooooo gott. Eftir matinn fórum við aðeins niður í bæ en Julianna þurfti svo í hárgreiðslu en ég labbaði um þar til ég þurfti að hitta nokkrar stelpnanna úr fótboltanum. Við höfðum ákveðið að fara og hlaupa saman.
Ég hitti þær klukkan hálftvö og við vorum fimm sem enduðum á að hlaupa saman sex kílómetra. Við hlupum rólega, mun hægar en ég hleyp þegar ég er ein, en þetta var auðvitað mun skemmtilegra. Þar að auki hlupum við í Stanley Park og þar er alltaf fallegt. Eftirá vildu stelpurnar hins vegar fara út að borða. Mér fannst ég ennþá pakksödd en þó voru liðnir fjórir tímar frá því að ég borðaði. Svo ég ákvað að fara með þeim, enda það mun skemmtilegra en að láta sér leiðast heima. Sherry þurfti reyndar að fara heim að undirbúa afmæliskvöldferð en ég Kirsten, Leah og Katie fórum í leit að mat. Hlaupabúðin þar sem við hittumst, The Running Room, er á Denman, rétt hjá Stanley Park og þar er nóg af góðum matsölustöðum svo við skelltum okkur á stað sem heitir Joe's, og sátum þar þangað til rúmlega fjögur. Það var alveg súper.
Núna er svo rólegt kvöld framundan. Ef það er eitthvað gott í sjónvarpinu þá held ég að ég sitji bara fyrir framan imbann, en það er líka hugsanlegt að ég reyni að læra eitthvað, nú eða kannski ég fari út og sparki bolta. Ég þarf að æfa tæknilegu atriðin betur. En mér ætti alla vega ekki að leiðast hvað sem ég geri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.