Útbitin
21.6.2007 | 16:14
Ég er útbitin af moskítum og mig klæjar ógurlega. Hugsið ykkur, það er enn til fólk sem heldur því fram að það séu engar moskítur í Bresku Kólumbíu! Ég hlæ að þeim. Þær eru kannski ekki eins margar og í Manitoba en alveg nóg samt.
Ástæða þess að ég er útbitin er sú að við lékum fótbolta óvenjuseint í gær. Leikurinn hófst klukkan hálfníu á upplýstum gervigrasvelli í Burnaby. Við spiluðum á móti North Shore Saints, sem eru efsta liðið í deildinni. Við spiluðum við þær fyrsta leik sumarsins og töpuðum 5-0. Ég veit ekki af hverju við þurftum að leika á móti þeim aftur. Þetta er eina liðið sem við spilum gegn tvisvar í sumar og það þurfti að vera besta liðið. Annars stóðum við alveg í þeim. Þær skoruðu mark á síðustu mínútu fyrri hálfleiks eftir eitthvert moð í vítateignum okkar...algjör klaufaskapur af okkar hálfu. Þær bættu síðan við einu marki undir lok leiksins og unnu því 2-0. Það er minnsti sigur þeirra í sumar. Þær hafa unnið hvert einasta lið með alla vega þremur mörkum þar til nú. Við vorum almennt frekar ánægðar með leik okkar. Það er allt annað að sjá okkur nú en í fyrsta leik sumarsins þar sem við þekktum ekkert hver inn á aðra, enda gengu einar fjórar nýjar stelpur í liðið þá. Nú er bara að vona að við höldum þessum mannskap í haust.
Og nú ætla ég að fara og maka á mig kremi svo ég klóri ekki bitin. Ég losna fyrr við þau ef ég klóra ekki.
Annars er þetta ekkert miðað við fyrstu bitin mín eftir að ég flutti til Kanada. Ég stóð fimm mínútur undir tré og fletti upp á fugli í fuglabók. Að fimm mínútum loknum var ég búin að greina fuglinn (Chickadee) og var komin með 46 bit á leggina.
Athugasemdir
Ónei, flugur elska mig svo mikið að ef ég er á svæðinu er enginn annar bitinn á meðan.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.6.2007 kl. 17:07
Við erum þjáningafélagar í þessu núna... þetta er plága hérna í Minnesota og maður hættir sér varla út í göngutúr nema eftir að úða á sig hálfum brúsa af Deet.
Það reynist mér betur að leyfa þeim að klára ef ég verð var við þær heldur en að lemja þær af því þær dæla einhverjum ensímum í sárið sem eiga að loka því og þannig veldur það minni kláða.
Svo er bara að vona að við fáum ekki West Nile vírusinn!
Róbert Björnsson, 22.6.2007 kl. 03:19
Ætli flugurnar hafi haldið með hinu liðinu?
Pétur Björgvin, 22.6.2007 kl. 08:22
Sæl Kristín, rakst á bloggsíðuna þína á mbl. Er þjáningarsystir vegna moskítóibita. Gat ekki setið á mér að senda athugasemd frá Möltu, þaðan sem ég hef verið bitin eins og svissneskur ostur undanfarin ár þótt það sé orðið betra nú til dags. Minni á ýmist góð húðkrem sem fást í apótekum, sérstaklega gerð til að verjast bitum, ég nota þau á kvöldin. Og svo er gott ráð að taka ofnæmistöflur, það róar bitin og mann sjálfan :)
Bestu kveðjur frá Miðjarðarhafi. Linda Blöndal
Linda Blöndal (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 09:38
Róbert og Linda, það sem mér finnst best gegn moskítum - ef ég sé þær bíta mig - er að hrúga strax After bite á sárið (nú eða hreinu ammóníki ef ég hef ekki after bite en hef einhverra hluta ammóníak - sem hefur gerst einu sinni). Þá finn ég ekki baun fyrir neinu. Ef ég hins vegar veit ekki af bitunum og uppgötva þau bara þegar mig fer að klæja, þá er After bite gagnslaust. Það er hins vegar rétt hjá þér Linda að ég ætti að taka ofnæmistöflur þegar ég er svona bitin. Hvaða efni eru í þessum húðkremum sem þú berð á þig? Lykta þau illa? Ég hef ekki fundið neitt til varnar bitum sem ekki lyktar ógurlega - sem er oft ástæðan fyrir því að fólk ber ekki á sig oftar. Róbert, er líka tick-vandamál hjá ykkur? Ég hef ekki séð þá hér í Vancouver en í Manitoba voru þessi kvikindi plága á sumum svæðum. Og þar getur maður bætt Lyme disease við West Nile.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.6.2007 kl. 17:38
Ég nota krem og gel frá Boots með mildum ilmi sem heiri Repel: Insect Repellent Lotion. Hægt að kaupa sprey líka. Annars man ég eftir að hafa séð margar nýjar tegundir og þessar nýjustu ilma alveg ok. Myndi bara skella mér í gott apótek og byrja vörnina! :)
Linda Blöndal (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.