Flughræðsla eða drykkja

Það kom ekki fram hvað fékk þennan mannræfil til að láta svona. Varð hann svona ógurlega hræddur eða var hann fullur?

Ég var einu sinni færð upp á Saga class á leið til Minneapolis eftir að of margir miðar höfðu verið seldir í vélina. Þetta var hin notalegasta reynsla þar sem ég fékk alls kyns fínerí, dvd spilara með fjölda mynda, matseðil til að velja af o.s.frv. Það sem sjokkeraði mig mest var allt áfengið sem boðið var uppá. Flugfreyjurnar voru stanslaust að koma og bjóða upp á vín, bjór, og enn sterkari drykki. Ég þáði smá kampavín í upphafi ferðar en lét áfengið að öðru leyti eiga sig, enda ekki mikið fyrir drykkju. Mér var mun sjaldnar boðið upp á vatn eða gosdrykki en hinu fólkinu var boðið áfengi. Enda var það svo að eftir nokkra tíma flug var einn karlinn orðinn svo drukkinn að hann ákvað að fara bara heim og tilkynnti að hann ætlaði að stökkva út úr vélinni. Hann lagði af stað að dyrunum en tvær eða þrjár flugfreyjur náðu að koma honum í sæti sitt og róa hann. Fljótlega eftir það sofnaði kauði og voru ekki frekari vandræði af honum. En mér fannst þetta merkilegt því að að mínu mati skapaði starfsfólkið þessar aðstæður. Áfengið flaut til hans alla leiðina. Ég hafði alltaf haldið að flugfreyjurnar neituðu að bera áfengi til farþega sem væru orðnir drukknir en þannig var það ekki í þessari ferð. 


mbl.is Óður farþegi reyndi að opna neyðarútgang á flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er því eins og bisnessmenn séu flestir drykkjumenn í hugum starfsmanna flugfélaga? Flottur punktur hjá þér. Ég segi fyrir mitt leyti, að ef ég hef engum skyldum að gegna eftir flug, þá sé ég ekkert að því að fá mér áfengi. Ég fæ mér nær alltaf eitthvað áfengt að drekka í tengslum við flug. Einn til tvo bjóra - sem ég borga fyrir.

En ef mér yrði stanslaust boðið áfengi, þá myndi ég jú halda að það væri á ábyrgð starfsfólksins hversu "fullur" ég yrði. Auðvitað gæti ég sagt "nei takk" eða "þetta er komið nóg" - en ef ég segði ekki neitt, drykki bara og það yrði fyllt hjá mér undir eins, þá segi ég bara: takið afleiðingunum!

(En án gríns ... ég verð mjög rólegur og skemmtilegur með víni - aldrei æstur ... þannig að ef einhverjar flugfreyjar eða -þjónar eru að lesa þetta og sjá nafnið mitt ... ekki halda aftur af ykkur ... feel free to fill me up!)

Kveðjur frá Akureyri! 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 21:37

2 Smámynd: Gunnar Kr.

Áhugaverð umræða hjá þér, kæra frænka!

Ég flaug einusinni til Færeyja með Atlantic Airways og í því stutta flugi var boðið upp á snarl og svo var boðið upp á gos, bjór og allskyns áfengi. Ég gleymdi að taka fram að ég sat bara í almennu farrými. Veit ekki einusinni til þess að það sé neitt æðra stig hjá þeim. Ég fór með tveimur félögum mínum sem mynduðu tríó sem átti að leika fyrir dansi hjá Íslendingafélaginu í Færeyjum og svo var íslenskur töframaður með okkur í för, sem sat við hliðina á mér. Hinir tveir voru handan gangsins, í sömu röð. Ég er eins og þú, frænka, ekki mikið fyrir áfengið, fékk mér bjór með matnum og annað ekki. Svo þegar flugfreyjurnar komu til að bjóða annað hvort koníak eða líkjör, sá ég að spilafélagar mínir handan við þáðu sitt staupið hvor. Svo snéri flugfreyjan sér að mér og bauð mér, en ég sagði kurteistlega: Nei takk. Þá varð mér litið hinum megin í vélina og hrökk við þegar ég sá augnaráðið sem annar félagi minn sendi mér, kveikti strax á perunni og sagði: Jú, annars. Kannski að ég þiggi koníak. Það gerði töframaðurinn einnig og svo sendum við staupin yfir ganginn til glaðbeittra félaga okkar sem kunnu vel að meta svona orðalaus tjáskipti.

Annars var ofboðslega gaman í Færeyjum og við skemmtum okkur jafn vel, ef ekki betur, en þeir sem dönsuðu... en það er nú önnur saga og lengri.

Gunnar Kr., 23.6.2007 kl. 15:51

3 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Mér finnst sem betur fer að þessi taumlausa drykkja um borð í millilandavélum hafi farið minnkandi með árunum.  Ástandið var slæmt hér fyrir 20-30 árum.  Þá voru heilu flugvélarnar á "general" fylleríi í háloftunum.  Núorðið sér maður þetta varla.  Einstaka maður fer yfir strikið í rólegheitunum í sæti sínu en flestir dreypa aðeins lítillega á drykkjum í tengslum við mat.  Sjálfur drakk ég ótæpilega í flugvélum hér áður fyrr en rak mig fljótt á að það voru leiðinleg og tilbreytingalaus fyllerí og notaði því ekki áfengi við þau skilyrði.   Nú fæ ég mér aldrei áfengi, hvorki í flugi né annarsstaðar, og hef aldrei notið lífsins betur.

Hreiðar Eiríksson, 23.6.2007 kl. 16:12

4 Smámynd: Jens Guð

  Það er engin stéttskipting í flugi til og frá Færeyjum.  Allir sitja jafnir til borðs.  Hinsvegar er munur á hvort flogið er í íslenskri flugvél eða færeyskri.  Maður veit það aldrei fyrr en stigið er um borð.

  Í færeysku vélinni er boðið upp á frítt áfengi.  Það þarf ekkert að sníkja af ferðafélögunum.  Það er hægt að biðja flugfreyjurnar um meira.  Aftur og aftur.

  Á öðrum millilandaflugleiðum vel ég alltaf Saga Class.  Það er aðeins dýrara en á móti koma margföld þægindi,  betri matur og ókeypis áfengi.  Fyrir einstakling er ekki spurning að Saga Class borgar sig. 

  Þegar fjölskylda er á ferð og einn borgar þá er hinsvegar sparnaður í að velja almennt farrými. 

Jens Guð, 23.6.2007 kl. 16:17

5 Smámynd: Gunnar Kr.

Ég held að þetta snúist um hverju maður er vanur og hverju ekki. Guðinn virðist vera alvanur flugfarþegi, en ég held að viðbrögð félaga míns hafi verið þau að hann vildi hvorki líta út fyrir að vera frekjudolla né flugdólgur. Þar sem hann vissi mætavel að hvorugur okkar handan gangs vildi koníak, nægði honum að senda ákveðið augnaráð og svipbrigði, ég skildi hann og pantaði drykk sem ég svo gaf honum. Mér finnst óþarfa dramb að brígsla honum um sníkjur.

Hvað varðar flugfargjald, þá reyni ég oftast nær að finna ódýrasta verðið og læt mér nægja að sitja hjá almúganum. Ég er ekki að fljúga til að drekka og borða, en athugasemdin hjá Guðinum: "...Saga Class. Það er aðeins dýrara..." er út í hött.

Hér eru nokkur dæmi hjá Icelandair í september nk.:

Kaupmannahöfn: 18.930, en Saga Class er : 69.830

París: 31.940, en Saga Class er: 81.390

Baltimore: 45.120, en Saga Class er: 102.120.

Ansi má kappinn nú drekka stíft, éta eins og flóðhestur og teygja svo rækilega úr sér til að Saga Class miðinn "borgi sig". Nei, það er ekki spurning að Saga Class er allt of dýrt til að þetta borgi sig, sé bara miðað við "þægindin, áfengið og matinn".

Gunnar Kr., 23.6.2007 kl. 17:48

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég er ekki frá því nema ég myndi fljúga Saga Class ef ég ætti nóga peninga því það er óneitanlega þægilegra. En ég yrði líka að eiga nóóóóóga peninga því eins og Gunnar bendir á er munurinn töluverður - fyrir venjulegt fólk. Fyrir suma eru þetta auðvitað smáaurar. Sem sagt, ef ég verð einhvern tímann rík þá mun ég ferðast með Jens á Saga Class en þangað til sit ég í públiknum með Gunnari. Enda er ég bæði stutt í annan endann og lítið gefin fyrir áfengi þannig að kostir Saga class eru kannski minni fyrir mig en marga aðra.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.6.2007 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband