Ultimate frisbee

Í kvöld prófaði ég nýtt sport, ultimate frisbee (nýtt fyrir mér - ekki nýtt af nálinni). Ég man eftir að hafa kastað frisbee diski þegar ég var tíu eða ellefu ára en annars hef ég alltaf litið á þetta sem hálfgert hundasport. Hér er þetta hins vegar mjög vinsæl íþróttagrein svona á meðal almennings. Reglurnar eru samsafn úr körfubolta, fótbolta og fleiri greinum. Liðið hans Ryans (mannsins hennar Marion) vantaði fleiri stelpur og nú þegar fótboltinn er kominn í frí ákvað ég að skella mér. Það var reyndar skrítið að spila alvöru leik í fyrsta sinn sem maður prófar, en það gekk bara ágætlega. Ég skil reyndar enn ekki almennilega reglurnar og kerfin, og svoleiðis, en ég náði svona því helsta. Ég komst að því að ég er ágætis varnarmaður í þessu því ég náði að komast inn í býsna margar sendingar og kom meira að segja í veg fyrir þó nokkur mörk skoruð. Ég skoraði meira að segja eitt stig sjálf með því að blokkera sendingu og hlaupa svo inn í marksvæðið og grípa diskinn þar. Almennt er ég hins vegar ekki góð í sókn því þótt ég sé góð að grípa og að hlaupa þá kasta ég diskinum mjög illa. Ég þarf að læra köstin betur. Reyndar er alveg hellingur sem ég þarf að læra betur. Þetta er býsna flókinn leikur þegar maður hefur aldrei spilað hann áður.

Við töpuðum fyrri leiknum 11-7 (leikið er til 11) en síðari leikurinn var varla leikinn nema í tíu mínútur eða svo því svo varð slys. Einn strákurinn úr okkar liði féll illa á öxlina sem fór úr lið, og jafnvel eitthvað verra. Við urðum að hringja á sjúkrabíl og enginn þorði að hreyfa hann því hann var að drepast úr sársauka, og þar að auki fann hann ekki lengur fyrir handleggnum á sér. Það tók sjúkrabílinn óra tíma að koma þannig að leiknum var að lokum frestað. Þarna lá greyið í grasinu, í mígandi rigningu, sárkvalinn, og ekkert hægt að gera. Við hrúguðum yfirhöfnum yfir hann, settum föt undir höfuðið, ein stelpan hélt í höndina á honum til að halda handleggnum á sínum stað og annar studdi við. Svo þurfti að skipuleggja hvað ætti að gera við bílinn hans, hver færi með honum á spítalann o.s.frv. Sjúkrabíllinn kom að lokum og handleggurinn var skoðaður vel, og síðan var stráknum gefið hláturgas svo hann fyndi ekki eins mikið til þegar þeir færðu hann. Ég vona bara að þetta hafi ekki verið of alvarlegt, en það er alltaf slæmt að fara úr axlarlið. Stundum er víst eins og öxlin fari stanslaust úr lið eftir að það gerist í fyrsta sinn. Vona að hann sleppi betur en svo. Það var gott að fara í heitt bað þegar ég kom heim enda búin að vera úti í mígandi rigningunni þá í um fjóra tíma og allt gegnblautt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, ég held þetta gæti bara orðið skemmtilegt. Svo förum við heim og þjálfum ultimate lið á Íslandi!!! Svona ef málfræðin og verkfræðin ganga ekki upp!

Kristín M. Jóhannsdóttir, 30.6.2007 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband