Ertu á leið til Manitoba?
30.6.2007 | 19:58
Íslenskar ferðaskrifstofur hafa boðið upp á ýmsar ferðir til Kanada í sumar og margir mun væntanlega fara á Íslendingaslóðir í Manitoba. Hápunkturinn þar ætti að vera Íslendingadagurinn í Gimli, fyrstu helgina í ágúst. Það er því mánuður til stefnu.
Ég bjó í Winnipeg í fjögur ár og hef því ýmis ráð að gefa fólki. Þau snúast fyrst og fremst um skordýr, en inn á eftir slæðast upplýsingar um hvað er skemmtilegt að gera.
Skordýrafræðsla númer 1: Það eru moskítóflugur í Manitoba - og það mikið af þeim!!! Íslendingar hafa ekki hafa alist upp við moskítur og sýna því oft sterk viðbrögð við stungunum. Ég átti það til dæmis til að fá risastórar skellur í kringum hvert bit og stundum var líkaminn þakinn í þessu. Ráð: Spreyið ykkur vel með einhverju sem inniheldur Deet. Alls staðar í Manitoba er auðvelt að fá það sem kallast Deep Wood Off. Það lyktar illa en virkar. Það er líka hægt að nota Citronella sem lyktar betur en er ekki eins áhrifamikið. Aðrir hafa ráðlagt betur lyktandi krem en þau hafa ekki virkað eins vel fyrir mig. En fólk er misjafnt og þarf mismunandi vörn. Og þótt þið bregðist ekki of illa við moskítóbitum er samt gott að verjast gegn þeim því West Nile vírusinn er kominn á slétturnar.
Skordýrafræðsla númer 2: Eitt ógeðslegasta skordýrið er tick. Áttfætla sem skyld er kóngulóm. Rauðbrún á lit, sýgur blóð úr fólki þar til búkurinn er orðinn margaldur á stærð. Best er að ná þeim af með flísatöng en þá verður höfuðið eftir inni og verður stundum að fara til læknis til að láta taka hann út. Kosturinn er hins vegar að þið fáið ekki sýkingu á þennan hátt. Oft er fólki ráðlagt að brenna tickinn af, eða setja olíu yfir hann svo hann sleppi takinu. Gallinn við þetta er hins vegar að þá er ticknum ógnað og það sem hann gerir er að losa öll eiturefni líkamans inn í bitið og þar með fáið þið allt sem hann hefur. Og tickurin ber með sér sjúkdóm sem kallast Lyme disease. Alls ekki allir tickir gera það en hvernig veit maður hver gerir það og hver ekki. Ráð: Það sem dugar á moskítur dugar á tickinn. Sérstaklega Deep Wood Off. Spreyið vel á ökkla og leggi, sérstaklega ef þið gangið í gegnum hátt gras. Svæðið í kringum Gimli hefur helling af tick og ég hef fengið nokkra á mig á Víðirnesi, þar sem fyrstu Íslendingarnir lögðu af. Það góða er að fyrstu helgina í ágúst er minna af þeim en á þessum tíma ársins.
Skordýrafræðsla númer 3: Tvisvar á ári fyllist Winnipegvatn af svokölluðum fiskiflugum (ekki eins og okkar fiskiflugur). Þetta eru stórar flugur sem drepast eftir aðeins þriggja daga líf og þá verður lagið af dauðum flugum á vatninu nokkrir sentímetrar á hæð. Þetta er ógeðslegt en skaðlaust. Ég held hins vegar að þær verði búnar að fara í gegnum sín tvö lög fyrir ágúst. Ef einhver er hins vegar á leið til Gimli núna gætuð þið lenti í þessu.
Skordýrafræðsla númer 4: Önnur skordýr eru í raun ekki vandamál á svæðinu. Black flies eru ekki vandamál svona sunnarlega en ef þið farið eitthvað norður eftir þá gætuð þið lent í þeim og þær bíta stykki úr manni. Ógurlega sárt. Sama má segja með Deer flies. Þær eru norðar og einnig austar. Ef einhver er á eigin vegum og fer til Whiteshell svæðisins gætu þeir lent í þessum flugum.
Túristaráð 1: Það er ótrúlega gaman að leigja kajak í Gimli og ferðast um vatnið. Það er líka svo grunnt að þið náið niður í botn á flestum stöðum. Þannig að þótt þið hafið aldrei prófað kajak áður er þetta ekkert mál. Munið bara að ef það er hvasst skulið þið ekki fara of langt í burtu. Það er erfitt að róa á móti vindi.
Túristaráð 2: Í Winnipeg er algjörlega nauðsynlegt að fara niður að Forks þar sem Rauðá og Assiniboine áin mætast. Þar er lítill markaður sem hægt er að skoða (mæli með að þið smakkið fudge, sérstaklega ekta kanadískt maple fudge), barnasafn og barnaleikhús, og svo er gaman að ganga upp með Assiniboine ánni upp að Osborne brúnni. Þá fáið þið líka skemmtilegt sjónarhorn af þinghúsinu.
Túristaráð 3: Í Winnipeg er líka skemmtilegt að ganga um hið svokallaða Exchange district. Þetta er hverfi fullt af gömlum vöruhúsum og skemmtilegum byggingum frá því Winnipeg var Chicago norðursins. Þarna eru oft kvikmyndaðar myndir sem eiga að gerast í Chicago bannáranna því Winnipeg er líkari Chicago á þeim tíma en Chicago er. Þarna eru líka lítil kaffihús, skemmtilegar búðir og fleira. Eitt kaffihúsið er líka bókabúð með róttækt efni, ég held hún heiti The Mandrigan. En ég er ekki lengur viss. Staðurinn er algjörlega vegan og maturinn er ótrúlega góður þrátt fyrir engar dýraafurðir.
Túristaráð 4: Þegar þið keyrið frá Winnipeg til Gimli skulið þið horfa vel í kringum ykkur á merkingar bæja. Yfirleitt eru bæir ekki merktir í Kanada (bóndabæir, þ.e.) en þegar þið farið að sjá lítil blá skilti með hvítum stöfum vitið þið að þið eruð komin á Íslendingaslóðir. Og þá er oft skemmtilegt að lesa nöfnin á bæjunum. Stundum eru þau í vitlausu falli sem er svolítið fyndið.
Túristaráð 5: Í Gimli verðið þið að fara inn í Tergesen búðina. Ein elsta búð í Kanada og þarna má kaupa allt frá bókum til fatnaðar. Ef ykkur langar í bækur eftir Vestur Íslendinga þá er þetta staðurinn. Þarna eru líka seldar íslenskar bækur í enskri þýðingu. Ekki það að Íslendinga vanti slíkar bækur. Kaupið endilega bækur eftir David Arnason, sem er ótrúlega fyndinn. Smásagnasöfnin hans eru alveg mögnuð. Barnabækur Bills Valgarðssonar eru margar hverjar mjög skemmtilegar líka. Margir aðrir höfundar eru góðir. Flettið endilega í gegnum bækurnar í Tergesen.
Túristaráð 6: Kanadamenn eru alveg ótrúlega kurteisir og hjálpsamir þannig að þið skulið ekki hika við að biðja um hjálp ef á þarf að halda. Annars eru reyndar líkur á því að þið þurfið ekki að spyrja, ef þið lítið út fyrir að vera ráðvillt mun einhver koma og bjóða fram hjálp sína.
Túristaráð 7: Ég verð að tala um matinn. Þetta þurfið þið að prófa:
-Slurpee (fáið í 7-11 búðunum, Winnipeg er slurpee capital of Canada),
-Bison burger (vísundaborgari, mjög góður),
-Hvað sem er með hlynsírópi,
-Sushi (ekki kanadískt augljóslega en Winnipeg hefur ótrúlega góða sushi staði. Minn uppáhalds staðar er Meji á horni Osborn og River í Osborne Village),
-Tartar kökur (man ekki nafnið á þeim en þið fáið þær víða í Winnipeg. Þetta eru litlar tartarkökur með sírópsfyllingu og rúsínum. Ekta kanadískt),
-Pútín (þjóðarréttur Quebec, franskar kartöflur með sósu og osti yfir. Ferlega skrítin samsetning en eitt af því sem maður verður að prófa þegar maður er í Kanada).
Athugasemdir
sæl Kristín
Er nokkrum sinnum búin að detta hérna inn á síðuna þína. Mjög gaman að lesa það sem þú skrifar um hérna og ég kannast vel við það! Var í Snorra West verkefninu annað árið sem það var og eftir það flutti ég til Winnipeg og fór þar í háskóla.
Lenti í því að ég varð að týna margar af þessum fiskiflugum af mér því þetta sat á manni eins og ég veit ekki hvað! Og síðan þegar að þetta var dautt var allt þakið! Kannast líka við hinar pöddurnar en ekki svo óheppin að hafa lent í þeim.
Ég varð reyndar ekki bitin af moskító fyrr en ég setti vörn á mig! Furðulegt en satt.
Er núna að plana að flytja til Vancouver með dönskum sambýlismanni mínum þannig að ef þú gætir og vildir gefa góð ráð í sambandi við það og sagt mér hvað er öðruvísi í Vancouver frá Winnipeg væri það sérstaklega vel þegið! Vona að þú sjáir þetta comment þótt það sé við gamla færslu.
Iris Bjorg (IP-tala skráð) 1.7.2007 kl. 21:41
Komdu endilega til Vancouver Íris. Hér er frábært að vera. Svo virðist sem mun fleiri Íslendingar verði hér í vetur en hefur verið því ég veit um alla vega fimm sem eru að flytja hingað til að fara í skóla. Sendu mér bara póst á stina@mail2skier.com og ég get sagt þér allt um Vancouver sem þú vilt vita.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.7.2007 kl. 02:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.