Frábærir grínþættir

Ef ske kynni að einhver frá Sjónvarpinu eða Stöð2 skyldi villast inn á þetta blogg þá ætla ég að segja ykkur frá nokkrum frábærum kanadískum þáttum sem íslenskar sjónvarpsstöðvar ættu að kaupa í staðinn fyrir margt af þessu ameríska rugli.

Í fyrsta lagi, Corner Gas er alveg frábær sjónvarpsþáttur með dásamlegum persónum. Aðalsprautan, Brent Butt, leikur bensínstöðvareiganda í Dog River, smábæ í Saskatchewan.  Hjá honum vinnur besservisserinn Vanda og á hverjum degi eru þau trufluð við vinnu sína af Hank, sem er skólabróðir Brents og auðnuleysingi. Aðrir aðalkarakterar eru Lacy sem rekur kaffisöluna við hliðina á bensínstöðinni, foreldrar Brents, Oscar og Emma, og löggurnar tvær, Karen og Davis. Það sem þessu liði dettur í hug er alveg frábært og minnir um margt á lífið í litlu sjávarþorpum Íslands. Fyndnasta atriði þáttanna var þegar nýr dýralæknir kom frá nágrannabæ sem er enn minni en Dog River og í einu atriðinu er hún að afsaka sveitamennsku sína við Emmu og Lacy: "You have to forgive me, I'm used to slower pace." Emma lítur á hana með forundran og segir: "There is a slower pace?"


Corner Gas þættirnir hafa náð geysilegum vinsældum og eru líklega langvinsælustu grínþættir sem komið hafa frá Kanada. Búið er að selja þá út um allan heim. Hér er síðan þeirra: http://www.cornergas.com/ 

Annar frábær þáttur, sem ég hef þó séð mun minna af en lofar góðu miðað við það sem ég hef séð er Little Mosque on the Prairie (Húsið á sléttunni hét á ensku Little House on the Prairie). Þátturinn fjallar um þorp á sléttunum þar sem enska biskupa kirkjan er í fjárhagsvandræðum og leigir því safnaðarheimilið undir mosku. Þarna er gert ótæplegt grín að bæði kristnum og múslimum. Sem dæmi úr þættinum sem ég sá í kvöld. Biskupinn er að koma og presturinn er hræddur um að ef biskupinn sjái hversu fáir mæta í messu þá muni erkibiskupsdæmið láta loka kirkjunni. Múslímarnir koma með  lausn á vandanum. Þeir munu mæta í kirkju hjá þeim kristnu og þá mun biskupinn verða hrifinn. Þá þarf að þjálfa múslimina, kenna þeim réttu lögin o.s.frv. Þau eru við æfingu þegar presturinn kemur inn, alveg í öngum sínum og segir að biskupinn muni sjá algjörlega í gegnum þetta. Til að mynda hefðu múslimirnir allir staðið upp sem einn þegar þeir áttu að syngja. Það gerðist aldrei í kristnum söfnuði. Það væru alltaf einhverjir sem stæðu upp strax en svo væru aðrir sem stæðu stynjandi á fætur, o.s.frv. Þetta var sem sagt allt æft. Það var líka fyndið að sjá svipinn á múslimunum þegar biskupinn messaði svo á sunnudeginum og fór að tala um reiði guðs.

Einhver amerísk sjónvarpsstöð hefur ákveðið að kaupa þættina en þó eru nokkrar áhyggjur yfir því hvernig Ameríkanar munu taka sjónvarpsþætti sem fjallar svo opinskátt um íslamstrú.  Hér má sjá meira um þessa þætti: http://www.cbc.ca/littlemosque/ 

Þriðji þátturinn sem ég vil nefna er aðeins alvarlegri en þessir tveir  sem  ég hef talað um, en það eru þættirnir Robson Arms. Þeir þættir gerast allir í fjölbýlishúsi í Vancouver þar sem búa skrautlegir karakterar. Undarlegur húsvörður af ítölskum ættum, tuttugu og eitthvað ára gamlir potthausar, eitt hommapar, ein undarleg kona, ungt par með nýfætt barn, o.s.frv. Þetta eru mjög fyndnir þættir en hafa þó alvarlegri undirtón en svona venjulegir grínþættir. Tveir leikaranna eru þeir sömu og í Corner Gas en þarna má líka sjá marga þekkta kanadíska leikara. Sérstaklega eru margir aukaleikarar frægir. Í einum þættinum má t.d. sjá engan annan en Leslie Nielsen.

Hér getið þið lesið betur um Robson Arms: http://www.robsonarms.com/?page=home 

Það er alveg undarlegt að einu kanadísku grínþættirnir sem sýndir eru í íslensku sjónvarpi skuli vera Trailer Park Boys. Það eru nú ljótu vitleysingjarnir. Skora núna á íslensku sjónvarpsstöðvarnar að tryggja sér sem fyrst réttinn að þessum ofangreindu þáttum og sýna nú Íslendingum almennilegan kanadískan húmor.

Frábær grínmynd frá Kanada er svo Men with brooms, þar sem þjóðaríþróttin krulla leikur aðalhlutverk. Sú mynd er líklega fjögurra ára og í aðalhlutverki er enginn annar en Paul Gross sem lék riddaralögregluna í þáttunum Due South hér um árið. Þar má líka sjá Leslie Nielsen sem föður Paul Gross, Peter Outerbridge sem ég man eftir úr þáttunum Michael Hayes sem sýndir voru á Íslandi hér um árið (hann leikur nú aðalhlutverk í þáttunum ReGenesis) og Molly Parker, sem lék í mynd Sturlu Gunnarssonar Rare birds. Í myndinni kemur líka fram kanadíska stórhljómsveitin Tragically Hips sem hefur verið geysivinsæl hér í rúman áratug en hefur aldrei almennilega náð flugi annars staðar.

Margt annað gott kemur frá Kanada en ég læt staðar numið hér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Eftir að hafa skoðað brot úr þessum þáttum þá skil ég svo sem af hverju þeir eru ekki sýndir hérna. Algerlega ófyndið, sérstaklega Corner Gas og Robson Arms. Little Mosque er samt með besta nafnið.

Víst þú ert þarna í Kanada þá vil ég benda á myndina Bon Cop Bad Cop sem kom út í fyrra. Mjög skemmtileg spennumynd sem fjallar um tvær löggur, eina frá Quebec og hina frá Ontario sem þurfa að vinna saman til þess að leysa morðmál sem tengist hokkí. Eins Kanadískt og það getur orðið en ótrúlega skemmtileg mynd. 

Ómar Örn Hauksson, 18.7.2007 kl. 11:06

2 identicon

Kaupa íslendingar (sjónvarpsfélögin meina ég) á íslandi ekki líka KENNY VS SPENNY þættina? Þeir geta stundum verið svolítið skemmtilegir.

Íris (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 14:32

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég er kannski orðin of kanadísk í hugsun. Eða kannski verður maður að þekkja umhverfið til að finnast þetta fyndið. Ef það er rétt er auðvitað akkert gagn í því að sýna þetta á Íslandi. Trúi samt ekki að fólki finnist Trailer Park Boys, sem eru sýndir á Íslandi, fyndnara. Ómar, auðvitað er ég búin að sjá Bon Cop, Bad Cop. Skrifaði meira að segja færslu um það einhvern tímann. Íris, veistu, ég hef aldrei séð Kenny vs. Spenny. Eru það góðir þættir? 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 18.7.2007 kl. 15:45

4 identicon

Sjónvarpsstöðvarnar hér á Klakanum hafa ekki efni á að kaupa almennilegt sjónvarpsefni af því að þær borga oftast tveimur Framsóknarmönnum, eða ígildi þeirra, fyrir að lýsa hverri íþróttakeppni, þar sem þeir apa allt upp hvor eftir öðrum. Meira að segja gamla fólkið þarf að borga þessum afætum á þriggja mánaða fresti.

Sá sem allt veit (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 00:28

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hehe, góður!

Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.7.2007 kl. 01:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband