Ævintýri næturinnar

Eina mínútu eftir miðnætti í gær labbaði ég út í myrkrið til þess að sækja nýjustu Harry Potter bókina. Sem betur fer var hætt að rigna en það hefði þó ekki skipt miklu máli því ég var í regnkápu og með regnhlíf ef ske kynni að úrhellið hæfist á ný.

Sex mínútur yfir tólf var  ég komin í langa röð í bókabúðinni en af því að flestir höfðu keypt bókina í forsölu alveg skotgekk þetta og tólf mínútum yfir tólf var ég því komin með bókina í hendur. Það var svo sem ekki allt. Í pokanum sem ég fékk var líka örk með límmiðum af öllum bókarkápunum hingað til, pappír til að setja á hurðarhúninn á herbergi manns með colloportis galdri (this spell will magically lock a door, precenting it from being opened), límmiða með eldingarörinu hans Potters (sem maður getur væntanlega sett á sjálfan sig) svo og bókarmerki. Einnig vær hægt að grípa með sér veggspjald en þar sem ég var nokkuð viss um að ég myndi ekki setja Harry Potter veggspjald upp heima hjá mér þá lét ég það vera.

Um hálfeitt leytið skreið ég undir sæng með bókina í hönd (eftir að hafa drepið tvær moskítur) og hóf lesturinn. Á blaðsíðu númer tvö voru augun farin að límast saman en ég var svo þrá að ég komst í gegnum fyrsta kaflann áður en ég lokaði bókinni. Ég held ég hafi ekki náð að hugsa heila hugsun til enda áður en ég var sofnuð.

Vaknaði reyndar um klukkutíma seinna við það að moskíta var að fljúga við höfuðið á mér og íhugaði þá að halda áfram að lesa en ákvað að ég myndi varla komast niður eina blaðsíðu svo ég hallaði mér bara aftur á koddann.

Nú er ég rétt skriðin á fætur, ætla að næra mig og fara svo á vit galdramanna og norna. 


mbl.is Harry Potter rokselst um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Ég hef aldrei lesið Harry Potter né horft á hans bíó myndir. Ég held að ég verði að fara að skoða það mál. Engin smá eru lætin yfir þessu. Hvað er málið? Ég bara spyr. 

Kannski að ég fari og kaupi fyrstu bókina. Hver veit.

Halla Rut , 21.7.2007 kl. 17:14

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, skelltu þér endilega á fyrstu bókina - hver veit nema þér líki hún. Og þá geturðu verið alveg eins og allir hinir! Bara aðeins seinni!

Ég fór að elsa þessar bækur fyrir mörgum árum þegar sennilega tvær voru komnar út, eða kannski þrjár. Var í mat hjá vinarfólki og tólf ára dóttir þeirra sat og las Potter allt kvöldið. Ég spurði eitthvað út í bókina og komst að því að allir krakkar voru að lesa þetta. Þá var þetta ekki orðið æði á meðal fullorðinni. Varð það mjög fljótlega. Ég ber til dæmis sjálf áybrgð á því að fjölmarkgir fulloðrnir fóru að lesa bækurnar. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.7.2007 kl. 17:49

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú bloggar um endirinn góða mín, er það ekki?? Muhahahahaha

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.7.2007 kl. 22:54

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Jú auðvitað, og ég ætla að gera það þannig að fólk búist alls ekki við því þannig að þeir sem forðast að lesa nokkuð um bókina viti ekki fyrr en þeir eru allt í einu búnir að fá að vita hver deyr. Líklega mun ég setja einhverja kynlífsfyrirsögn og byrja á æsandi hátt og setja svo inn leyndarmálin. Hehehehe, þá fengi ég líkleg morðhótanir en það er allt í lagi því það næst ekki auðveldlega í mig hér.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.7.2007 kl. 00:27

5 Smámynd: Einar Indriðason

Segðu bara.... a la Agatha Christie:  "The Butler Did it!"

(nema hvað... Butlerinn kom víst aldrei við sögu, hjá Agöthu... :)

Einar Indriðason, 22.7.2007 kl. 01:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband