Um kringlur, glæpi, tölvur og sæta stráka

Um kringlur. Þegar ég heimsótti Siggu vinkonu mína í Munchen fyrir einum tíu árum kynntist ég þrenns konar mat sem ég hafði aldrei fengið áður og sem þá fengust ekki á Íslandi. í fyrsta lagi var um að ræða nokkurs konar hráskinku sem ég þekki hér úti sem Procuttio en sem Sigga kallaði eitthvað allt annað. Slíkt, eða alla vega svipað, fæst nú á Íslandi og líka hér í Vancouver. Í öðru lagi var um að ræða ferskan mozarella, eða boccio, sem einnig fæst núna bæði á Íslandi og í Vancouver. Það þriðja, hins vegar, hefur verið mun erfiðara að fá, en það er þýska kringlan, pretzel. Hér vestanhafs er reyndar seld kringla sem kallast soft pretzel og sem er svipuð útlits en allt öðru vísi á bragðið. Það eru ágætar kringlur en samt ekki eins góðar og þessar þýsku. Marion vinkona mín er algjörlega á sama máli enda mamma hennar þýsk. Hún fann stað í Lilloet sem selur svona kringlur og kaupir svoleiðis þegar hún fer til Lilloet að vinna með indjánakonunum sínum þar, og hefur tvisvar sinnum komið með svoleiðis til baka handa mér en það gengur ekki að þurfa að fara til Lilloet til að kaupa kringlur.

Ástæða þess að ég minnist á þetta nú er sú að fyrir nokkrum vikum opnaði tehús hér í nágrenninu. Ég sagði Marion að við yrðum að kíkja þangað því þeir virtust hafa gott bakarí, en sjálf hafði ég ekki farið. Nema hvað, í gær sendi Marion mér tölvupóst og sagði mér frá því að hún hefði farið þangað inn og ÞEIR VÆRU MEÐ ÞÝSKU KRINGLURNAR!!!!! Við ekkert smá ánægðar. Ég skellt mér því niður á tíundu en þá voru kringlurnar uppseldar. Mér var sagt að koma á morgnana ef ég vildi tryggja mér kringlu. Greinilega finnst fleirum en okkur þetta gott. Svo að ég fór aftur í morgun, fékk mína kringlu og naut hennar í botn. Ég var ótrúlega nálægt því að kaupa mér aðra en mér fannst ástæðulaust að ganga of langt. Má ekki borða of mikið af brauði á dag. En ég á eftir að lalla þarna yfir mjög reglulega. 

Um þjófa. Það hefur verið algjör innbrotsfaraldur í skólanum að undanförnu. Þjófarnir eru farnir að færa sig upp á skaftið og núna um helgina notuðu þeir slökkvitæki til að brjóta glerhurð í Buchanan byggingunni (þar sem heimspekideildin er...þar á meðal málvísindin) og komust þannig inn. Búið er að vara fólk við að vera mikið á ferli þarna um helgar því enginn veit hvað myndi gerast ef einhver kæmi að þessum mönnum. Hvað er að fólki. Það er verið að stela tölvum frá prófessorum. Það er ekki eins og þeir fái svona hrikalega vel borgað. 

Um morð. Í gærmorgun komu vopnaðir menn inná kínverskan veitingastað hér í bæ, ekki langt frá Gunnari og Suzanne, og skaut átta manns sem þar sátu að snæðingi. Tveir létust en sex særðust. Talið er að þetta tengist glæpastarfssemi. Það hefur verið töluvert um það síðustu ár að skotið sé að fólki á veitingastöðum og í öllum tilfellum nema einu hefur verið um að ræða kínverskt veitingahús. Og í flestum tilfellum hefur þetta gerst eftir miðnætti. Ég hef lært eitt af þessu. Ég mun ekki þvælast á kínverskum veitingahúsum eftir miðnætti.

Um tölvuna mína. Ég hringdi í dag í Applebúðina sem fékk að kíkja á tölvuna mína. Það eru orðnar þrjár vikur síðan ég fór með hana og ég hafði ekkert heyrt. Á fimmtudaginn fyrir viku lofuðu þeir mér að segja mér hvað væri að daginn eftir. Síðan leið vika. Ég hringdi í dag og kvartaði yfir þessum seinagangi og þeir sögðu: ó, var ég ekki búin að hringja í þig? Asnar. Ég hefði átt að fara með tölvuna á sama stað og ég hef vanalega skipt við en þessi staður hentaði betur núna því ég fékk far þangað. Mér var sagt að stykkið sem væri bilað kostaði rúmlega níuhundruð dollara og að  með vinnu væri þetta alla vega 1400 dollarar. Ég get keypt betri tölvu fyrir það.

Um sæta klifrara. Ég vildi að þessir strákar í klifrinu væru ekki svona ungir. Sumir þeirra eru alveg gullfallegir. Það er sérstaklega einn sem er eins og grískur guð. Ótrúlega myndarlegur með einn þann flottasta skrokk sem ég hef séð. Hann virðist pínulítið feiminn og talar ekki mikið við fólk sem hann þekkir ekki þegar margir eru nálægt en ég hef aðeins kynnst honum í gegnum aðra stráka sem ég þekki þarna. Hann var að klifra í dag og smátt og smátt fóru allir svo við vorum bara tvö eftir. Við enduðum á því að sitja og kjafta í lengri tíma. Hann virðist fínasti náungi en kannski aðeins of fallegur. Og líklega allt of ungur. Á leiðinni út rakst ég svo á Dave og Karsten sem ég spjalla alltaf mikið við. Dave er í doktorsnámi í tölfræði og Karsten í stærðfræði. Því miður var Scott hinn krúttlegi ekki með þeim. Æi, maður getur nú ekki fengið allt. Ég fór loks og fann Marion í ísbúð. Hún var að skipuleggja partý fyrir vinkonu sína sem er að fara að eignast barn. Hér eru alltaf haldin svona babyshower (barnasturtur!!!!).

Um kanadískan fótbolta. Í kvöld mætast BC Lions og Winnipeg Blue Bombers í kanadíska fótboltanum. í eina skiptið sem ég hef farið á leik mættust einmitt þessi tvö lið. Þá sigraði Winnipeg enda var það árið sem þeir léku um bikarinn. Ljónin hafa verið ótrúlega sterk í sumar og sitja á toppi vesturdeildarinnar en Winnipeg er í öðru sæti austurdeildarinnar. Einu stigi á eftir Montreal. Þetta ætti því að verða toppleikur. Ég er hins vegar ekki viss um með hvoru liðinu ég myndi halda. Ég ætti náttúrulega að halda með BC en Winnipeg situr alltaf svolítið í mér. Mér leið svo vel í Manitoba. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Kæra Kristín, hvað er kanadískur fótbolti ? Á hann eitthvað skylt við hinn breska? Ég er annars lítill áhugamaður um bolta nema ég horfi gjarnan á ballskák, sem mikið er sýnd á EUROSPORT. Reyndar horfi ég stundum á fótbolta, sem sama stöð sendir út, því að bestu þulirnir eru þar. Ég er að vísu áskrifandi að SÝN ein-göngu vegna konum minnar, sem elskar að horfa á golf í beinni. Ég hefi annars megnustu óbeit á 365-Miðlum, sem eru ekkert annað en ósvífnir gróðapungar að mínu mati.Gangi þér ávallt sem best í klifrinu og í Guðs bænum farðu varlega!Góðar kveðjur frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 11.8.2007 kl. 11:29

2 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Afsakaðu fingurbrjótana. Kv. Sami.

Kristján P. Gudmundsson, 11.8.2007 kl. 11:31

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Nei, kanadískur fótbolti er líkari hinum ameríska. Munurinn á amerískum fótbolta og kanadískum fótbolta er fyrst og fremst stærðin á vellinum (91x49 metrar í hinum ameríska, 101x59 metrar í hinum kanadíska), fjöldi leikmanna (12 í kanadíska boltanum, ellefu í þeim ameríska) svo og tilraunirnar sem leikmenn fá til þess að koma boltanum 10 years (þrjár í þeim kanadíska, fjórar í þeim ameríska). Þá eru ýmsar reglur leiksins mismunandi en í raun er þetta sami leikurinn þannig lagað. Báðir eiga uppruna sinn í rugby.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.8.2007 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband