Strandfótbolti
12.8.2007 | 04:33
Míní-útgáfa af fótboltaliðinu mínu, Vancouver Presto, tekur þátt í strandfótboltamóti núna um helgina. Í dag lékum við tvö leiki. Hver leikur er 2x14 mínútur og leikið er á völlum sem eru sirka 1/3 af venjulegum fótboltavelli og mörkin eru handboltastærð.
Það var svolítið erfitt að vakna klukkan sjö á laugardagsmorgni, sérstaklega af því að ég vakna vanalega ekki fyrr en um átta leytið en vekjaraklukkan mín virkar alveg ágætlega. Ég var mætt niður á strönd klukkan átta og þar sem leikurinn okkar var fyrsti leikur morgunsins (ásamt sjö öðrum leikjum). Við spiluðum nokkuð vel og unnum örugglega, 4-1. Katee skoraði tvö mörk, Julie eitt og ég eitt. Það kom mér reyndar á óvart að við skyldum vinna því við spilum í opnu deildinni þar sem betri liðin spila vanalega. Við hefðum í raun átt að spila í lægri deildinni því þar eigum við betur heima.
Eftir leikinn horfðum við á nokkra strákaleiki og fórum svo og fengum okkur hádegisverð í siglingaklúbbnum sem er þarna nálægt. Að hádegisverði loknum fórum við fjórar, ég Kathy, Christine og Jodi aftur til baka á ströndina og horfðum á fótbolta það sem eftir var dagsins. Það er alveg ótrúlegt hvað það er mikið meiri harka í strákaboltanum. Og meiri alvara. Þetta mót er til skemmtunar en það komu upp þó nokkur tilfelli þar sem annað hvort var slegist eða rifist svo svakalega að varð að aðskilja fólk. Ég veit ekki hversu margir fengu rautt spjald. Í eitt skiptið var svo mkið uppistand að alla vega sex dómarar skárust í leikinn. Bæði dómarar sem voru í pásu og dómarar sem voru að dæma aðra leiki. Í eitt skiptið urðu fjöldaslagsmál svo það skapaðist hrúga í sandinum. Fyndnast var þegar ein stelpan (ein deildin var bland kvenna og karla) henti sér á hrúguna. Yfirleitt eru konur aðeins dannaðri en svo.
Fyrir utan slagsmálin og rifrildin, og fyrir utan nokkuð góðan bolta hjá sumum, var skemmtilegast þegar heitast var því þá spiluðu sum liðin skyrtulaus (strákaliðin, stelpurnar lögðu ekki í það). Hey, kommon, eins og þið hefðuð ekki gaman af því líka!!! (Ókei, kannski ekki karlmennirnir).
Tíu mínútur yfir fimm spiluðum við síðari leikinn okkar. Ég held að hitt liðið hafi náð einum tíu skotum á markið fyrstu fimm mínúturnar. Ja, það var kannski ekki svo slæmt en þær voru töluvert mikið betri en við. Þær voru einmitt eins góðar og ég bjóst við af liðunum í þessari deild. Í hálfleik var staðan reyndar 1-1 en það sagði lítið um gang leiksins. Í seinni hálfleik spýttu þær í og skoruðu þrjú mörk, þar á meðal eitt á síðustu sekúndunni. Við töpuðum sem sagt með sama markamun og við unnum með í fyrri leiknum.
Þriðji leikurinn okkar verður leikinn á morgun klukkan fjögur og þá kemur í ljós hvort við komumst í undanúrslit eða ekki. Mín spá: Ekki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.