Pakkaður dagur
15.8.2007 | 15:54
Dagurinn í dag er býsna pakkaður. Ég verð að reyna að klára ritdóm fyrir klukkan tíu því þá ætlar Lína að keyra mig til þess að sækja tölvuna mína úr svokallaðri viðgerð (ekki borgar sig að gera við skjáinn á henni - ég ætla að reyna að tengja hana við annan skjá og sjá hvort það virkar) og svo þarf ég að hitta Marion og Jeremy klukkan ellefu. Við þrjú höfum ekki hist öll saman síðan áður en Jeremy fór til Thailands fyrir næstum tveimur árum. Og nú er hann að fara til New Jersey í doktorsnám.
Ég er að vonast eftir að hafa tíma til að skjótast í klifurhúsið eftir það og ná kannski um klukkutíma á veggnum en klukkan þrjú ætlar Leora, sem útskrifaðist héðan úr deildinni fyrir tveimur árum, að gifta sig á ströndinni. Þetta var tilkynnt í gær og verður bara örstutt athöfn og síðan hugsanlega kaka. Þau drifu í þessu vegna þess að Leora er búin að fá varanlega vinnu í Montana og það er auðveldara fyrir Ross að fara með henni þangað ef þau eru gift. Þau ætla svo að halda almennilega veislu næsta sumar.
Klukkan hálf sex er ég svo að fara á tónleika með kammerkór Vancouver í kirkju niðri í bæ. Þau munu syngja skandinavísk lög, þar á meðal eitt eftir Jón Leifs og eitt eftir Hafliða Hallgrímsson. Ég fór á æfingu með þeim á mánudaginn og hjálpaði þeim með framburðinn. Í staðinn fékk ég tvo aðgöngumiða að tónleikunum. Ég heyrði svolítið af finnska laginu (Sibelius) sem var dásamlegt, en ég var ekki eins hrifin af norska laginu. Ég verð nú líka að viðurkenna í góðra vina hópi að ég var ekkert sérlega hrifin af þessum íslensku. Ekki var við kórinn að sakast. Rosalega voru þau annars fljót að ná framburðinum. Hefði ekkert á móti því að hafa þann hóp sem nemendur. Þau gerðu ótrúlega fáar vitleysur og það var helst að þau notuðu uppgómmælt
Ekkert er á dagskrá í kvöld svo ég hugsa bara að ég hafi það notalegt heima.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.