Dagur er að kvöldi kominn

Stundum kvarta ég yfir því að ég hafi lítið skemmtilegt að gera en ég get ekki sagt það um daginn í dag. Ég vaknaði um átta leytið og eftir svolítinn morgunverð og blaðalestur fór ég að vinna við ritdóm sem ég þurfti að klára. Það tókst og ég kom honum af mér. Stuttu síðar kom Lína að sækja mig en hún á bíl og hafði lofað að skutlast með mig til að sækja tölvuna mína. Ég þurfti að borga rúma fjörutíu dollara (2400 krónur) fyrir að fá að vita að ekkert væri hægt að gera fyrir skjáinn, nema að kaupa nýtt stykki upp á 900 dollara. Mér fannst það mikill peningur fyrir ekkert en auðvitað þurftu þeir að kíkja á tölvuna til að geta staðfest þetta, þannig að það var svo sem sanngjarnt að borga. Bara svolítið skítt.

Klukkan ellefu hitti ég Marion og Jeremy á Sunshine diner þar sem við fengum okkur almennilegan brunch. Ég fékk mér eggs benedicts sem er alveg dásamlegur morgunmatur. Þessi útgáfa innihélt sveppi, beikon og tómat auk hins reglulega (poached egg, ensk múffa, hollandaise sósa). Við höfðum um margt að spjalla en sumt var endurtekning því við Jeremy fórum í fjallgöngu um daginn og þar fékk ég að heyra flestar sögurnar. Marion og Jeremy höfðu hins vegar ekki hist í sumar svo hún þurfti að heyra allt um Thailandsferðina og væntanlegt nám í Rutgers.

Besta kjaftasagan sem kom frá Jeremy var reyndar ekki úr hans lífi heldur hokkítengd (Jeremy er mesti hokkíaðdáandi sem ég þekki). Fyrir einum tveimur árum fékk hokkíliðið Edmonton Oilers til sín hinn frábæra varnarmann Chris Pronger sem fékk fimm ára samning. Hokkíaðdáendur í Edmonton voru í skýjunum enda Pronger frábær leikmaður og liðið komst alla leið í úrslitaleikinn um Stanley bikarinn þar sem þeir töpuðu gegn Carolina Hurricanes. En þótt það hafi verið vonbrigði fyrir Edmonton að komast ekki alla leið þá hafði liðið spilað betur en nokkur bjóst við og menn voru sáttir. En í júní 2006 fór Pronger á fund eigenda Edmonton liðsins og bað um skipti til annars liðs. Ástæðurnar sem hann gaf voru persónulegar en sú saga gekk fjöllum hærra að það hafi í raun verið eiginkona Prongers sem vildi ekki búa í Edmonton. Sumir sögðu að það væri vegna þess að hún kynni ekki við borgina og allan sjóinn. Chris Pronger varð hataðasti maðurinn í borginni og margir munu eflaust aldrei fyrirgefa honum. Sérstaklega ekki þar sem hann fór frá Edmonton til Anaheim þar sem hann spilaði með Anaheim öndunum til sigurs nú í vor. Jeremy hefur góð sambönd í hokkíheiminum og heyrir margt sem fáir heyra. Eitt af því er alvöru ástæðan fyrir því að Pronger bað um flutning. Það var rétt að það var vegna kröfu konu hans, en ekki vegna þess að hún þyldi ekki borgina heldur vegna þess að Pronger var farinn að halda framhjá konu sinni með blaðakonu í Edmonton. Frúin setti honum því stólinn fyrir dyrnar og sagði að annað hvort færi hún frá honum eða þau flyttu eitthvert annað. Já, það er margt merkilegt í íþróttaheiminum.

Um eitt leytið fór ég að klifra. Ég var svolítið þreytt og klifraði ekki sérlega vel en fékk samt ágæta æfingu og komst lengra með eina leiðina en ég hef áður komist. Strákarnir mínir voru líka margir þarna. Reyndar ekki Dave, Scott og Zeke sem mér finnst gaman að klifra með, en Dean var þarna og Wes og svo sæti strákurinn sem ég veit ekki hvað heitir. Ég kynntist líka öðrum náunga, Patrick, sem ég hef séð þarna nokkrum sinnum en aldrei áður talað við. Hann var fínn eins og hinir. Almennt eru þessir strákar vænstu skinn og mjög hjálplegir. Ég hef lært heilmikið af þeim.

IMG_1089Uppúr þrjú var ég mætt niður á Jericho strönd þar sem Leora og Ross ætluðu að játast hvort öðru. Þau höfðu um viku til þess að undirbúa giftinguna og flýttu henni meira að segja um einn dag. Sumir nota heilt ár í þetta. Þetta var bara annað brúðkaupið sem ég er við hér í Vancouver og það var voðalega notalegt. Þarna voru nokkrir vinir þeirra og fjölskyldur, varla nema um 20 manns, og enginn var neitt sérlega klæddur uppá, ekki einu sinni brúðhjónin. Eftir á borðuðum við svolítið af samosum og þessa líka fínu tertu. Ekki eins góð og íslensk terta en það er nú heldur ekki hægt að ætlast til þess.

Úr brúðkaupinu henti ég mér niður í bæ að hlusta á kammerkórinn flytja verk eftir Jón Leifs og fleiri. Þeir fluttu meðal annars verk eftir Grieg og Sibelius og nokkur nýleg kanadísk verk. Þegar kom að íslensku lögunum tveimur sagði kórstjórinn að þeir hefðu líklega skemmt sér best yfir íslensku lögunum (út af framburðinum - ekki að þetta hafi verið svo létt lög). Hann bað síðan alla Íslendinga um að rétta upp hönd. Ég var sú eina sem það gerði svo kórstjórinn sagði: "Nú, bara þjálfarinn okkar. Þá ættum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framburðinum." Það var reyndar rétt því þau gerðu þetta meistaralega og lögin voru bara býsna falleg. Ég var hrifnust af finnsku lögunum tveimur og einsöngvararnir í þeim lögum voru dásamlegir. Ég var mjög sátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Cougar!

Berglind Steinsdóttir, 16.8.2007 kl. 07:33

2 identicon

Ótrúlega pakkaður og skemmtilegur dagur hjá þér, fyrir utan viðgerðina sem var engin ... 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband