Sex ár liðin
11.9.2007 | 16:53
Í dag eru liðin sex ár frá árásinni á tvíburaturnana í New York. Ég man þennan dag býsna vel. Vanalega var vekjaraklukkan stillt á útvarpið og þegar við vöknuðum á morgnana var það fyrsta sem maður gerði að hlusta á fréttir. Það var ekkert öðruvísi þennan morgun og við heyrðum um fyrri vélina sem lenti á fyrri turninum. Þetta var slys og maður hugsaði pínulítið til fólksins sem lést en ekkert meira en þegar maður heyrir um náttúruhamfarir víða um heiminn. En þegar við komum upp í skóla og ég komst í tölvuna mína kíkti ég á fréttirnar á netinu og sá þá fréttina um seinni flugvélina. Það var ljóst að ekki hafði verið um slys að ræða. Ég held að enginn hafi unnið sérlega vel þennan dag. Við sátum límd við útvarpið og heyrðum af hinum flugvélunum tveim, og greyið Ariane, fornleifafræðingurinn, sat í símanum og reyndi að fá upplýsingar um eiginmann vinkonu sinnar sem vann í öðrum hvorum turninum.
Nokkrum dögum seinna fékk ég einhverja kveisu og var heima í tvo þrjá daga og horfði þá mikið á sjónvarpið. Allar rásir voru undirlagðar atburðunum 11. september. Allir umræðuþættirnir fjölluðu um þessa atburði og töluðu við fólk sem þeim tengdust. Talað var við ekkju mannsins sem hringdi úr flugvélinni sem fór niður í Pennsylvaniu. Talað var við sjálfboðaliða. Talað var við fólk sem bjó nálægt og horfði með kíki á þegar fólk í turnunum kastaði sér út um glugga bygginganna því það vildi fremur hrapa til bana en brenna inni. Ég er ekki viss um að augun í mér hafi þornað almennilega í marga daga.
Almennt finnst mér ríkisstjórn Bandaríkjanna og forustumenn hafa hegðað sér eins og skepnur í áratugi, og þeir hafa að sjálfsögðu valdið dauða hundruða og þúsunda saklausra einstaklinga, t.d. í Írak og Afganistan, og þar á undan í Kóreu, Víetnam, öðrum löndum...en það breytir því ekki að þetta fólk var líka saklaust og átti ekki skilið að deyja vegna heimsku forustumanna landsins. Stundum skil ég ekki illsku fólks.
Athugasemdir
Ég held að flestir muni alveg upp á hár hvar þeir voru og hvað þeir voru að gera þegar þetta skeði, maður hálflamaðist yfir fréttum frá þessu og trúði varla að þetta væri að gerast. Því miður er alltaf allt of mikið af saklausu fólki sem er drepið vegna stríðsreksturs.
Huld S. Ringsted, 11.9.2007 kl. 19:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.