Ekki Davíð, takk
11.9.2007 | 21:12
Það hefur löngum verið hefð á Íslandi að íslenska nöfn konungsfólks, svo og páfans. Þess vegna notum við Karl, Vilhjálmur, Friðrik, o.s.frv. í stað Charles, William, Frederick. Og þetta hefur náð almennri fótfestu. Einnig var alltaf talað um Jóhannes Pál páfa. Stundum hafa fjölmiðlarnir reynt þetta líka með nöfn tónlistarmanna; man t.d. eftir því þegar talað var um Gogga Michaels, og Pál unga (Paul Young). Slíkt hefur hins vegar aldrei náð almennri notkun eins og það að íslenska nöfn konungsfólksins. Og David Beckham er enginn konungur, ekki einu sinni á fótboltavellinu - góður, en ekki bestur. Og það að þetta skuli gert í frétt sem fjallar einmitt um hvað hann er ofmetinn gerir þetta auðvitað enn fáránlegra.
Auðvitað ætti aldrei að íslenska nöfn fólks. Nöfnin eru hluti af því maður er (nema páfinn sem fær allt annað nafn en það sem hann er skírður) og því á ekki að breyta, þótt í öðrum löndum séu nöfn með svipaðan hljóm. Sjálf er ég oft þreytt á því hversu fáir hér vestra geta borið nafnið mitt fram á þann hátt sem ég á að venja, það verður alltaf annað hvort kristÍn (með áhersluna á seinna atvkæðið) eða Kristin (með i en ekki í í seinna atkvæði). Þess vegna kynni ég mig stundum bara sem Stínu því fólk klúðrar því ekki.
Beckhamhjónin eru ofmetnasta fólk í heimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eitt nafn hefur náð að festa sig í sessi en það er nafn Cat Stevens og hef ég oftar en ekki heyrt því snarað yfir á ástkæra ylhýra málið sem HÖGNI STEFÁNS
Dante, 11.9.2007 kl. 21:40
Hahaha, ertu að meina það?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.9.2007 kl. 21:59
Hvaða Björgvin? Ertu að meina borgina? Við höfum líka haft þessa áráttu með að þýða ákveðin landa- og borgarnöfn yfir á íslensku.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.9.2007 kl. 23:01
Nýja Jórvík var íslenskunin á New York, en náði aldrei fótfestu.
Aftur á móti er fullt af „konunglegum“ nöfnum sem hafa náð fótfestu á ástkæra, ylhýra... eins og: Filippus drottningarmaður, Vilhjálmur prins, Margrét Þórhildur Danadrottning og Jóhann Karl Spánarkonungur.
En Valgeir Guðjónsson átti alveg snilldarþýðingu, þegar hann kynnti þjóðlagasöngkonuna Joan Baez á tónleikum í Óperunni, hér um árið. Hann kynnti hana til leiks, sem: Jóhönnu frá Bægisá!
Gunnar Kr., 12.9.2007 kl. 01:17
Finnst þú aldeilis frábær; hvar í Kanada býr frúin? Ég á nokkra góða vini í Íslendingabyggðum.
Árni Kr Þorsteinsson, 16.9.2007 kl. 22:03
Blessaður Árni. Ég bý í Vancouver og hef verið hér í fjögur ár. En þar á undan bjó ég í fjögur ár í Winnipeg. Kenndi þar íslensku við Manitóbaháskóla og kynntis fjöldanum öllum af Vestur Íslendingum.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 16.9.2007 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.