Íþróttir og fjármálaheimurinn

Tvö mál úr réttarsölum Bresku Kólumbíu hafa fyllt síður blaðanna í allt sumar. Annars vegar er það málið yfir svínabóndanum og fjöldamorðingjanum Robert Picton og hins vegar málið um eignaréttinn yfir fyrirtækinu Orca Bay, sem á hokkíliðið Vancouver Canucks og GM Place höllina.

Fyrra málið er óhugnanlegt og ég er löngu hætt að lesa um smáatriðin þar enda ekki erfitt að kúgast við þann lestur. Síðara málið hef ég hins vegar drukkið með morgunverðinum. Málahættir eru þessir:

Árið 2003 tóku þrír auðjöfrar í Vancouver, Tom Gagliardi, Ryan Beedie og Francesco Aquilini, sig saman og buðu í félagið Orca Bay, þá í eigu bandaríska auðjöfursins Sam McCaw. Lítið gekk í samningsmálum og nokkrum mánuðum síðar dró Aquilini sig út úr samstarfinu. Gagliardi og Beedie héldu áfram viðræðum við Stan MacAmmon, aðalsamningamann McCaws en ekkert gekk. Ár var liðið og aðilar höfðu ekki náð saman. Gagliardi og Beedie trúðu því að McCaw vildi ólmur selja og myndi því sætta sig við lægra verð og þeir héldu því áfram að reyna að ná verðinu niður. Einhvern tímann um sumarið 2004 reyndi Aquilini að koma aftur inn í samstarfið en var hafnað. Það var svo í nóvember 2004 að Aquilini gerði McCaw boð í 50% eignahluta í Orca Bay og á innan við tveim vikum höfðu þeir náð samkomulagi. Síðar keypti Aquilini afganginn af félaginu og er því eini eigandi liðsins og bygginganna.

Í vor kærðu svo Gagliardi og Beedie þá Aquilini og McCaw og ásökuðu þá um óheiðarlega viðskiptahætti. Vilja þeir m.a. meina að af því að Aquilini var um tíma hluti af boði þeirra þá hafi hann vitað of mikið um smáatriði í tilboðum þeirra og hafi því ekki átt rétt á að bjóða á móti þeim. Þeir vilja líka halda því fram að viðræður milli Aquilini og McCaw hafi hafist áður en McCaw sagði þeim Gagliardi og Beedie að hann væri hættur viðræðum við þá. Þessu hafa Aquilini og McCaw alltaf neitað en margt bendir til þess að þeir séu að fela sannleikann. Hvorugur þeirra síðarnefndu kom mjög vel út úr vitnaleiðslum. Hitt er annað mál að í upphafi sökuðu þeir Gagliardi og Beedie Aquilini um ýmislegt sem þeir hafa síðar dregið til baka, þannig að það virðist ljóst að hér er leikið af hörku og ekki hikað við að skjóta aðra í bakið.

Þetta mál hefur verið fyrir rétt síðan einhvern tímann síðasta vor og nú virðist loks vera að styttast í málalok. Ég get ekki séð að neinn hér sé góði gæinn en að mörgu leyti vona ég að þeir Gagliardi og Beedie tapi málinu. Í fyrsta lagi vegna þess að ég held að það sé ekki gott fyrir liðið ef allt í einu skiptir um eigendur núna. Í öðru lagi sýnist mér að þeir séu ekkert betri gæjar en Aquilini og yrðu ekkert betri fyrir félagið. Og í þriðja lagi virðist Aquilini hafa gert ýmislegt gott með félagið. Alla vega stóðu kanúkarnir sig betur í fyrra en þeir hafa gert í mörg ár. Ég held reyndar að þar hafi gert gæfumuninn þjálfarinn Vigneault og frábærir samningar framkvæmdastjórans Nonis. En þessir menn eru auðvitað báðir starfsmenn Aquilinis og hann hefur alla vega haft vit á að hafa hæfileikamenn í mikilvægustu stöðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband