Fyrrum glæpamaður verður doktor

Í fyrradag lýsti ég undirheimum Stórvancouversvæðisins sem ég hef þó ekki orðið svo vör við sjálf. Það var svipað þegar ég bjó í Winnipeg. Ég vissi yfirleitt ekkert um það ljóta sem gerðist í borginni, og þó eru framin fleiri morð í Winnipeg en nokkurri annarri borg í Kanada, að Edmonton undanskilinni. Það var ekki fyrr en ég flutti burt úr borginni sem ég heyrði minnst á Winnipeg mafíuna.

Svo var mál með vexti að minn fyrrverandi, Tim, var þá prófessor í heimspeki við Manitobaháskóla (nú við Columbusháskóla í Ohio). Einn nemenda hans, ungur myndarlegur maður, leitaði mikið til hans vegna þess að hann átti við þunglyndi að stríða og Tim hefur alltaf verið góður að tala við fólk í erfiðleikum. Árið eftir að við hættum saman og ég flutti til Vancouver sagði Tim mér að þessi strákur hefði fengið að gista hjá honum í viku. Ástæðan var sú að hann var flæktur í Winnipegmafíuna (alvörumafíuna, ekki listamafíuna) og hafði frétt að það ætti að drepa sig. Glæpamennirnir vissu hvar hann bjó hjá mömmu sinni og hann gat ekki farið þangað. Ég varð dauðskelkuð enda ekkert ólíklegt að þessir menn myndu elta hann úr skólanum og heim til Tims. En það gerðist ekki og strákurinn kom sér í burtu í einhvern tíma. Hann náði hins vegar að klára nám og fékk sitt masterspróf og ótrúlegt en satt, komst inn í Brown háskólann á Rhode Island sem er virkilega góður háskóli.

Um daginn fékk Tim símtal frá honum þar sem strákurinn sagði honum enn meira um glæpastarfsemina í Winnipeg, og þar kom í ljós að hann hafði verið miklu flæktari í glæpastarfsemi en Tim hafði nokkru sinni gert sér grein fyrir. En með dugnaði náði hann að vinna sig út úr þessu, flutti í burtu og er nú í doktorsnámi. Það er sem sagt hægt að rífa sig upp ef viljinn - og hugsanlega utanaðkomandi hjálp - er fyrir hendi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Winnipeg mafían!!! Ég hélt að það væru bara friðsamir íslenskir bændur sem byggju þar.  Er þetta kannski framsóknarmafían??

Þorsteinn Sverrisson, 26.10.2007 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband