Fótboltadagurinn mikli

Í gær var sannkallaður fótboltadagur. Kvennaliðið mitt, Vancouver Presto, lék klukkan tvö í gær gegn Burnaby Inter FC. Við unnum þetta lið í fyrsta leik okkar í haust en síðan höfðu þær ekki tapað leik. Við höfðum reyndar ekki heldur tapað leik en við höfðum bara spilað þrjá leiki en þær fimm. Þær voru því ofar okkur í deildinni en með tvo leiki til góða. Einnig jafnar okkur voru tíkurnar í North Shore Saints en þær eiga einn leik á okkur. Því miður töpuðum við 0-1 gegn Burnaby eftir ákaflega jafnan leik þar sem við áttum þó töluvert fleiri færi. Það er að hluta til mér að kenna að boltinn fór ekki inn. Ég spilað fremur góðan leik, var alltaf á réttum stað, náði nokkrum sinnum að koma mér í gott skotfæri en skaut alltaf hægra megin við markið. Veit ekki alveg hvað var í gangi hjá mér því ég er yfirleitt ekki svona rangeyg. Og það var slæmt að hitta ekki rammann oftar því mér fannst ég að öðru leyti spila mun betur en áður - var miklu agressívari og hafði betra auga fyrir leiknum. Við vorum allar mjög svekktar að leik loknum því okkur fannst við hafa átt að taka þetta. Nú erum við í þriðja sæti en getum komist aftur upp í fyrsta sæti með því að vinna þá leiki sem við eigum til góða. Og við eigum pottþétt að geta klárað veturinn í einu af fyrstu þremur sætunum. Við munum ekki spila við Burnaby aftur en eigum eftir að leika tvisvar við Noth Shore sem er höfuðandstæðingur okkar. Ég fór annars í kaffi um daginn með fyrrum þjálfara þeirra og sagði honum m.a. að við þyldum stelpurnar ekki. Hann var fremur hissa og lofaði mér því að hann hefði ekki kennt þeim að brjóta á okkur og vera tíkur.

En fótboltinn var ekki búinn í gær. Þjálfarinn minn spilar í co-ed liði (blandað karlmönnum og konum) og það vantaði stelpur í gær. Ég bauðst til að spila með þeim (flestar stelpurnar í liðinu eru einmitt úr Presto) þótt ég væri auðvitað dauðþreytt eftir að hafa þegar spilað sirka 90 mínútur. Sá leikur var haldinn í Burnaby 8Rinks sem er risastór hokkíhöll með fjölmörgum hokkíhringjum og einum gervigrasvelli. Lið þjálfarans kallast Nuevos Amigos sem er við hæfi því næstum því allir eru af portúgölskum ættum. Við vorum fjögur sem vorum það ekki. En þvílíka fallega liðið. Bróðir þjálfarans, Phil, er t.d. eins og grískur guð og til að gera þetta enn skemmtilegra þá komu tveir vinir hans að horfa og þeir voru alveg jafnfallegir. En ég var þarna til að spila fótbolta en ekki til að horfa á stráka og fótboltinn gekk betur enn fyrr um daginn. Við unnum 8-2 og hefðum getað unnið stærra en ákváðum að reyni ekki eins mikið í seinni hálfleik eins og þeim fyrri því við vorum að rúlla liðinu upp. Og það er alltaf svolítið vandræðalegt. En það voru greinilega töluverðir hæfileikar í liðinu. Wilhelm er frá Hollandi og er glettilega góður með boltann en hefur svolítið gaman af að sýna sig. Hann er eiginmaður einnar stelpunnar í Presto svo ég hafði hitt hann nokkrum sinnum áður. Hafði líka hitt Phil áður en hann er líka mjög góður. Hann kom og spilaði með okkur í leiknum gegn eiginmönnum í vor (þótt hann sé reyndar ekki eiginmaður heldur bara bróðir þjálfarans). Aðra hafði ég ekki hitt. Ég stóð mig hins vegar býsna vel og skoraði tvö mörk en í bæði skiptin var um að ræða frábærar sendingar, annars vegar frá Phil og hins vegar frá strák sem ég vissi aldrei hvað hét. í bæði skiptin sendu þeir boltann frábærlega fyrir markið og ég þurfti bara að vera á réttum stað og þrusa inn. 

Canucks gekk ekki eins vel. Þeir töpuðu 2-3 fyrir Detroit Red Wingers (í annað skiptið á fjórum dögum) og hafa nú unnið aðeins einn af fimm heimaleikjum (en unnið fjóra af sex útileikjum - skrítið). Ég vona að þeir standi sig betur á fimmtudaginn en þá mun ég fara á leik. Það var reyndar fúlt að á síðustu mínútu leiksins skoruðu Canucks mark en það var flautað af. Leikmenn voru reiðir og héldu því fram að þetta væri löglegt mark en Vigneault sagðist sammála dómnum. Að Pyatt hefði ekki bara ýtt pökknum inn heldur líka markmanninum og það er ólöglegt. Hann benti hins vegar á að Red Wings hefðu skorað akkúrat þannig mark á Vancouver í síðasta leik (sem einnig fór 2-3) en þá hefði það ekki verið flautað af.

Í dag er ég svolítið þreytt í vöðvunum eftir að hafa spilað tvo fótboltaleiki en ég ætla nú samt að fara og klifra í dag og á fótboltaæfingu í kvöld. Það sem mig vantar er meira af íþróttum á miðvikudegi eða fimmtudegi því það hrúgast of mikið á sunnudag og mánudag. Vildi að ég gæti spilað fótbolta á fimmtudagskvöldum. Í staðinn verð ég bara að vera duglegri að hlaupa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband