Hrekkjavaka, hokkí, klukkubreytingar og så videre

Hér var Hrekkjavakan haldin hátíðleg í dag og allt fylltist af litlum skrímslum með poka að betla nammi. Við hér í húsinu vorum leiðindapúkar og höfðum útiljósið slökkt til marks um að hér væri ekkert nammi að fá. Það var af bitri reynslu. Fyrst árið mitt hér hlakkaði ég mikið til og hafði keypt helling af nammi til að gefa liðinu, en margir voru svo vanþakklátir að mér varð nóg um. Margir þökkuðu ekki fyrir sig og sumir kvörtuðu yfir því að það væru allir með eins nammi (það var hægt að kaupa ódýra poka með litlum nammistykkjum úti í kjörbúð og flestir nýttu sér það). Ég varð svo pirruð á frekjunni, og þegar bættist við að ég þurfti að hlaupa upp og niður stigann í tæpa tvo tíma (ég bý uppi í risi) þá ákvað ég að einu sinni væri nóg. Og þar með var hrekkjavökuþátttöku minni lokið. 

Á morgun fer ég hins vegar á hokkíleik og mun sjá Canucks spila á móti Nashville. Þetta er að öllum líkindum síðasta árið sem Nashville hefur hokkílið því þeir tapa milljónum dollara á hverju ári (fólk í Nashville hefur ekki áhuga á hokkíi, bara á kántrítónlist) og því er talið líklegt að liðið verði selt í vor. Líkur eru á að það verði selt til Kansas sem er fáránlegt því áður hefur verið reynt að vera með hokkílið í Kansas og það gekk ekki. Eigandinn var sama sem búinn að gera samning við ríkan Kanadamann sem ætlaði að flytja liðið til Hamilton (um klukkustund suður af Toronto) en einhverjir Kanar komu í veg fyrir það. Ég vil fá liðið til Winnipeg að endurnýja Winnipeg Jets. En alla vega, þetta verður síðasti séns til að sjá Nashville og það er eins gott að mínir menn vinni.

Á sunnudaginn verður klukkunni breytt. Hún verður færð fram um klukkutíma sem þýðir að það verður dimmt klukkutíma fyrr á kvöldin. Þetta ruglar mig alltaf. Og ég VERÐ að muna að breyta klukkunni á laugardagskvöldið því ég á að spila fótbolta klukkan ellefu á sunnudaginn og má ekki við ví að fara tímavillt.

Á morgun ætla ég að skella mér í Ikea og í Costco með Rosemary. Mig vantar nýjan standlampa í svefnherbergið því sá sem ég hef brotnaði og liggur nú upp að kommóðunni til að vera nýtilegur. Fyrir tveimur dögum rak ég mig í hann þegar ég var að hátta mig og fékk allt galleríið í hausinn. Það var ekkert þægilegt. Verð því að bjarga málum. Get ekki verið lampalaus því það er ekkert loftljós.

Hef ekkert annað að segja svo sem. Fór reyndar að klifra í dag og lallaði svo aðeins niður í bæ áður en ég kom aftur heim. Lærði næstum ekkert nema ég átti tvo fundi með nefndarmönnum mínum í morgun. Sem sagt, náði tveggja tíma vinnu. Það er nokkrum klukkutímum of lítið. En nú er ég farin að sofa - og þið hin eruð að vakna. Ég segi því ekki góða nótt við ykkur en hvísla því að sjálfri mér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Góða skemmtun á leiknum og vona að þú njótir þín í draumalandinu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.11.2007 kl. 08:52

2 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Góða skemmtun!!! Farðu svo varlega í kringum nýja lampann!

Margrét St Hafsteinsdóttir, 1.11.2007 kl. 13:43

3 Smámynd: Kolbrún Kolbeinsdóttir

Já ég gerði það sama, slökkt á öllum ljósum og forðaði yfir til vinar míns í barna-snauðu hverfi til að sleppa við skrílinn!    Hann fékk ekki nema nokkra í heimsókn og sum þeirra barna höfðu ekki einu sinni fyrir því að fara í búning en vildu samt nammið.  Suss og fnuss, þessi börn ættu að upplifa almennilegan íslenskan öskudag!

Kolbrún Kolbeinsdóttir, 1.11.2007 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband