Hræðilegur atburður í Vancouver
15.11.2007 | 02:46
Ég var núna rétt áðan að horfa á hrikalegt myndband sem tekið var upp á Vancouverflugvelli fyrir nokkrum vikum. Myndbandið var tekið upp af ungum Kanadamanni sem var að koma heim frá Kína. Hann lét lögreglunni myndbandið í hendur með því loforði að hann fengi það aftur innan tveggja daga, en það gekk ekki eftir og hann varð að lokum að stefna lögreglunni til þess að þeir skiluðu myndbandinu. Nú hefur það verið sýnt í öllum fjölmiðlum og það er ekki gott að sjá hvernig lögreglan ætlar að svara fyrir þessa atburði.
Pólskur maður að nafni Dziekanski lenti á Vancouverflugvelli klukkan fjögur í eftirmiðdaginn þann þrettánda október síðastliðinn. Hann hafði í sjö ár safnað peningum til þess að geta flutt til Vancouver til að vera hjá móður sinni. Í einhverja klukkutíma var honum haldið á flugvellinum áður en honum var veitt landvistarleyfi laust eftir miðnætti. Um klukkan eitt um nóttina var hann enn á flugvellinum og var nú orðinn reiður og fleygði meðal annars tölvuskjá og litlu borði á glervegg þarna á flugvellinum. Aðrir farþegar á svæðinu reyndu að róa hann en þar sem hann talaði aðeins pólsku vissi enginn hvað var í raun að. Öryggisverðir voru kallaðir til en þeir reyndu ekki einu sinni að nálgast manninn heldur gengu í burtu. Stuttu síðar komu fjórir lögreglumenn. Fólkið á staðnum sagði þeim frá því að hann talaði enga ensku en samt sem áður ruku lögreglumennirnir að honum og skipuðu honum fyrir á ensku. Maðurinn hafði róast niður áður en lögreglan mætti á staðinn og virtist reyna að tala við þá á pólsku. Hann gerði ekkert sem getur réttlætt aðgerðir lögreglunnar. Aðeins 24 sekúndum eftir að lögreglumennirnir komu skutu þeir hann með taser byssu. Hann orgaði af sársauka og lögreglumennirnir fjórir réðust á hann og þrýstu honum niður á gólfið. Notuðu meðal annars hnén til þess að skorða hann niður. Þeim virðist ekki hafa verið sagt að það má alls ekki þrengja að öndunarvegi manns sem hefur verið skotinn með taser. Á vídeóinu sem tekið var má sjá annan bláan geisla frá einum lögreglumannanna sem bendir til þess að Pólverjinn hafi verið tasaður aftur á meðan honum var haldið á gólfinu. Rúmum tveimur mínútum eftir að lögreglan mætti á svæðið var hann dáinn.
Á þeim tíu tímum sem Dziekanski var á flugvellinum var ekkert gert til þess að hafa samband við túlk. Allan þennan tíma beið móðir hans fyrir utan og hafði ítrekað beðið flugvallaryfirvöld um hjálp til þess að ná samband við hann. Án árangurs. Ekkert var gert til að hjálpa þessu fólki og því fór sem fór. Þessu hefði auðveldlega mátt afstýra. Hvernig verður þetta 2010 þegar ólympíuleikarnir verða haldnir?
Það eru allir í sjokki. Við vorum búin að heyra frá atburðunum en það var enn ótrúlegra að sjá þetta með eigin augum. Þeir gáfu honum aldrei séns.
Það skal tekið fram að móðir mannsins vildi að þetta vídeó yrði sýnt í fjölmiðlum ef það gæti haft einhver áhrif á lögregluna svo svona atburður megi ekki endurtaka sig.
Hér má sjá vídeóið: http://www.cbc.ca/mrl3/8752/bc/ondemand/video/YVRTASERVIDEO.wmv
Athugasemdir
Já þeir eru frekar harðhentir. Annars mjög undarleg hegðun hjá þessum Pólverja.
Páll Geir Bjarnason, 15.11.2007 kl. 03:15
Já, þetta er að mörgu leyti undarleg hegðun. En ekki erfitt að setja sig í spor þessa manns. Hann er búinn að vera í flugvél í fimmtán tíma (í fyrsta sinn á ævinni) og síðan þarf hann að bíða í tíu tíma á flugstöðinni án þess að vita af hverju. Það eru því liðnir 25 tímar frá því hann hóf ferðina (og hver veit hversu mikið hann þurfti að ferðast innan Póllands áður en flugið hófst. Hann er því þreyttur og ruglaður, og veit ekki hvað er að gerast og af hverju enginn getur hjálpað honum. Hann stressast allur, fer að svitna, reynir að tala við fólk en enginn getur gert sig skiljanlegan. Hann er búinn að vera að kalla á lögreglu í langan tíma áður en hún loks birtist. Fyrir utan það að henda tölvunni og stólnum sýnir hann samt ekkert ofbeldi og því erfitt að réttlæta hegðun lögreglunnar. Æi, þetta er bara svo sorglegt.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.11.2007 kl. 03:54
Sammála Jón Frímann.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.11.2007 kl. 03:55
Jamm þetta leikfang vill Björn Bjarna fá auk þess að snúa við sönnunarfærslu, þegar um fíkniefnasmyglara er að ræða og fá leyfi til að gera allt fé þeirr, maka og frændgarðs upptækt ef þeir geta ekki sannað nákvæmlega að þeir hafi unnið fyrir eignum sínum með heiðarlegum hætti. Gaman að sjá hvað slíkt fordæmi á eftir að koma til leiðar. Alger stjórnarskrárbrot náttúrlega, en hann vill liða þann pappír skipulega í sundur að fordæmi vænissýkimekkunnar USA.
Ég skil samt ekki hvað plagaði hann og hvers vegna hann var svona æstur. Voru þeir með peningana hans eða fékk hann ekki að komast út? Hver leikmaður sér að maðurinn þarf lækni og túlk en ekki lögreglu. Mér finnst þetta ekki síður ábyrgð starfsfólks og flughafnarstjórnenda að hafa ekki skýran prótokoll í svona tilfelli.
Lögguna á að dæma í tugthús fyrir morð af gáleysi og fyrir exessive force.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.11.2007 kl. 07:43
Sennilega vill hann fá farangurinn sinn og peningana sína og veit ekkert hvað er á seyði. Blessaður karlinn. Þetta ætti að vera rannsakað í kjölinn og sýnt um allan heim. Við erum með sömu kringumstæður fyrir svona slysum hér.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.11.2007 kl. 07:52
Það er ekki enn vitað nákvæmlega hvers vegna maðurinn var enn þarna og hvort honum var ekki hleypt út eða hvort hann vildi ekki fara út af einhverju. Einhvers staðar las ég að farangurinn hans hafi komið annars staðar að og að enginn hafi getað sagt honum hvernig hann ætti að nálgast hann. En það er rétt hjá þér. Flugvellir verða að vera undirbúnir undir svona atvik, m.a. með því að hafa á reiðum höndum símanúmer túlka sem tala alls konar tungumál. Þeir eru eingöngu með túlka sem tala kínversku og einhver tvö önnur mál. Það er allt of sumt.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.11.2007 kl. 08:08
Gunnar, jú þetta er væntanlega þessi rafstuðsbyssa. Ég fletti í orðabók og reyndi að finna orð fyrir taser en þar var ekkert að finna. Ég vissi því ekkert hvað þetta er kallað. Málið er að svona byssu geta verið stórhættulegar og það hafa nú þegar orðið töluvert mörg dauðaslys sem skapast af notkun þeirra. Lögreglan virðist ekki alltaf átta sig á því og á það til að nota byssurnar of oft. Verið er að rannsaka málið.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.11.2007 kl. 08:10
Já, þetta er sóðalegt atvik og leitt að maðurinn skuli drepast, kemur mér samt ekki á óvart m.v. hverskonar satistar vinna núna hjá lögguni. Síðan hvað er ein löggan að lemja þarna í hann þegar hann lyggur á jörðinni?? Síðan þegar þeir finna engann púls, þá er ekki farið í hjartahnoð heldur bara sagt, hann er dauður blablabla....
Já Björn Bjarnason og hans vinir eru einmitt að hampa svona aðferðum.
Alfreð Símonarson, 15.11.2007 kl. 08:30
Ég hef ekki skoðað mynbandið, ég vil taka það fram að ég er lögreglumaður og ég spyr, hversu langt á að ganga í því að vera með túlka og aðra þjónustu fyrir aðila sem eru að KOMA til lands, í heimsókn eða hvað það nú er. Hver á að bera slíkan kostnað og ef síðar hefði komið í ljós aðrar upplýsingar um manninn t.d. að eitthvað annað byggi að baki, hver hefði þá verið gagnrýndur fyrir athæfið. Við verðum að átta okkur á því að heimurinn er ekkert sérlega ,,vinsamlegur" þó svo því miður að dags daglega sé hinn venjulegi borgari látinn gjalda fyrir athæfi hryðjuverkamanna með því að þurfa að fara í gegnum alls konar skoðanir, leitir og slíkt sem þessir hryðjuverkamenn eiga líklega ekki í miklum vandræðum með að komast hjá. Enn og aftur, ég hef ekki skoðað myndbandið og tal óvarlegt að dæma athæfið út frá myndunum einum. kveðja frá Sarajevo.
Guðm. Fylkisson (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 08:39
Thetta er ekki falleg saga, eg veit ekki med hverju loggaeslulidid hugsar stundum!!! En kannski hefdi thessi saga fengid annan endi ef aumingja madurinn hefdi lagt sig eftir, thessi sjö ar sem hann var ad safna fyrir ferdinni, ad laera svolitla ensku, til ad geta skilid og gert sig skiljanlegan i landinu thar sem hann hafdi hugsad ser ad setjast ad i. Thott ekki vaeri nema: eg er polskur, eg vil tulk!!!
Rut (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 10:11
Þetta myndband er ljótt. Það virðist enginn einkennisklæddur aðili, sem þarna sést, leggja sig fram við að leysa málið með góðu. Það eru nokkur myndbönd á youtube - svipuð - sem sýna þetta sama andrúm. Yfirvald sem er laust við mannúð og skilning, menn í búningum sem ganga út frá því að fólk sé yfirhöfuð óvinsamlegt og hafi illt eitt í huga. Kannski fylgir það starfinu. Hugsanlega hætta menn að sjá aðrar hliðar en þær allra skuggalegustu. Veit ekki.
Ég vil aðeins snerta á því sem Guðmundur Fylkisson segir. Í upphafi vil ég taka fram að ég ber mikla virðingu fyrir starfi lögreglumannsins og ég átta mig fyllilega á að þar er um að ræða hættulegt, krefjandi og - oft á tíðum - vanþakklátt starf. Ég tel mikils virði að einhver vilji hreinlega taka það að sér að gegna þessu starfi.
Hins vegar tel ég alveg ljóst að það verði að vera skýrt mörkuð stefna að reynt sé að leysa öll mál á farsælan hátt og án ofbeldis, ef sá möguleiki virðist vera fyrir hendi. Þar má aldrei spyrja um kostnað eða krónur ef niðurstaðan getur orðið sú að líf skerðist eða tapast.
Og þó svo sumir álíti heiminn óvinsamlegan þá má það sjónarmið aldrei verða til þess að vega að réttindum borgaranna eða öryggi þeirra. Það má ekki nýta til þess að færa sönnunarbygðina til eða snúa henni við svo menn þurfi hreinlega að sanna sakleysi sitt. Við slíkar aðstæður er gengið út frá illum vilja þess sem á í hlut og við það eitt verður hann ótrúverðugur. Þar með eru öll vopn slegin úr höndum hans, jafnvel þegar hann neitar sök, þar sem hann er hreinlega ekki tekinn trúarlegur.
"Evil when we are in its power is not felt as evil but as a necessity, or even a duty. " - Simone Weil (1909 - 1943)
Jónas Björgvin Antonsson, 15.11.2007 kl. 11:16
Það er skelfilegt að sjá þetta myndband og það að þetta geti gerst í siðmenntuðu landi. Ég hefði trúað að þetta gæti gerst í N-Kóreu, Zimbabve eða Tyrklandi.
Ég held að það hefði verið einfaldara að kalla til túlk en að ljúka málinu svona. Það hefði dugað að vera í símasambandi við túlkinn, þannig að kostnaðurinn hefði ekki átt að sliga flugvallalögregluna í Vancouver. Það sem meira er þá hefði sennilega dugað að fá rússneskan túlk. Þar sem vel flestir Pólverjar sem ég þekki tala líka rússnesku.
Mummi Guð, 15.11.2007 kl. 12:17
Þetta er ótrúlega sorglegt að horfa upp á. Ég skil ekki hvernig er einu sinni hægt að verja aðgerðir lögreglunnar eða öryggisgæslunnar þarna. Af öllum þessum tíma sem hann þurfti að dúsa þarna, hvaða tilraunir voru gerðar til að útskýra fyrir honum stöðu mála? ég ber virðingu fyrir lögreglu og yfirvöldum í flestum tilfellum, en að sjá 4 menn drepa annan vegna misskilnings, sem hefði verið hægt að forðast með ró og þolinmæði (og túlk! - í versta falli pólsk-enska orðabók!!!) ... þetta er bara virkilega sorglegt.
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 12:51
Já, þetta er ljótt. Guðmundur, málið er að flestir lögreglumenn eru einmitt góðir menn (eða við skulum vona það) og það er einmitt sérlega slæmt fyrir þá þegar svona kemur upp. Það varpar skugga á alla lögreglumenn, ekki bara þá sem eiga það skilið og það hlýtur því að vera öllum í hag að svona gerist ekki.
Ég vil benda á að þessi maður var ekki að koma til landsins í heimsókn. Hann er innflytjandi, fékk þarna skrifað upp á varanlegt dvalarleyfi.
En Rut, það er rétt hjá þér, ótrúlegt að hann skyldi ekki hafa lært neitt í ensku á öllum þessum tíma, vitandi það að hann ætti eftir að flytja til enskumælandi lands. En hann hlýtur að hafa verið býsna fátækur fyrst það tók hann svona langan tíma að safna fyrir ferðinni.
Ég hef horft á myndbandið núna þrisvar sinnum, þar af tvisvar í sjónvarpinu og ég held að lögreglumaðurinn sé ekki að berja Pólverjann þegar hann ber kylfunni í jörðina. En hvað hann er að gera get ég ekki skilið.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.11.2007 kl. 17:09
Vil bæta einu við því ég held að Mummi hitti einmitt naglann á höfuðið. Það að hafa á lista fjölda manna sem geta hjálpað við að túlka í gegnum síma á ekki að kosta mikið. Ég myndi t.d. gjarnan vilja vera á slíkum lista og myndi ekki að taka neitt fyrir það að hjálpa Íslendingum í neyð. Og er ekkert hrædd um að það væri stanslaust verið að trufla mig.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.11.2007 kl. 17:21
Moggabloggið hefur leitt í ljós fullt af íslenskum öfgamönnum sem vilja vopnavæða Ísland. Þeir eru herskáir á ritvellinum og munu ekki bæta landið ef þeir fá sínu fram.
Ólafur Þórðarson, 15.11.2007 kl. 17:21
Spurning: Hvað er löggan að gera með kylfuna?
Svar: Hann er ekki að lemja greyið manninn í hausinn heldur er hann að loka kylfunni. Þetta er kylfa eins og íslenska löggan er með (held ég) og hún er innfelld. Til að lengja hana er haldið í endan á henni og hún slengd þannig til að hún lengist. Hún helst þannig opinn þangað til henni er lamið nokkup fast niður á endan og þá er aftur hægt að draga hana aftur saman. Það er allt og sumt það sem maðurinn er að gera.
Helgi Eiríkur Eyjólfsson (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 17:31
Guð hvað þetta er hræðilega sorglegt.
Þetta var svo ástæðulaust. Maðurinn var greinilega æstur því hann andaði mjög ört en hvernig þessir lögreglumenn tóku á þessu er ekkert annað en glæpur. Hann þurfti bara einhvern sem að skildi hann. Eftir að þeir gefa honum raflost og koma honum í gólfið þá situr einn af þeim ofan á andlitinu á honum! Ég er ekkert hissa að maðurinn hafi bara dáið. Þetta er ógeðslegt og sýnir verstu hliðina á manneskjunni.
Linda (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 17:48
Takk fyrir upplýsingarnar Helgi.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.11.2007 kl. 18:04
Fyrri setingin hans Jóns er nokkuð hörð en ég er algjörlega sammála þeirri síðari.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.11.2007 kl. 21:05
Gott að vita af þessu með kylfuna, það voru ekki svona tæknilegar kylfur þegar ég var í löggunni, bara gömlu trékylfurnar, sem ég þurfti sem betur fer aldrei að beita.
Takk fyrir góða umfjöllun á þessu hörmulega máli Kristín.
Góða nótt til fallegu borgarinnar Vancouver.
alva (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 01:16
Lögreglan í Nýfundnalandi hefur nú þegar tekið þá ákvörðun að hætta notkun teiserbyssna. Gott hjá þeim.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 16.11.2007 kl. 07:42
Flott hjá þér Kristín! Þetta kom í fréttum og allt, bara tær snilld. Eina umræðan um þetta mál er samt einungis hérna í blogginu, ekkert talað um þetta í framhaldinu. Svo er það þeir sem eru að reyna að verja löggurnar þá sérstaklega þeirrar sem lamdi kylfunni 4 sinnum nálægt (ef ekki í) höfuðið, segja þetta svona loftnets-kylfu og að hann væri bara að loka henni... Hmmm, svona nálægt höfðinu?? Og af hverju var ekki farið í hjartahnoð eftir að þeir finna engann púls????????????????????
Þetta er ekki afsakanlegur verknaður og vill ég líka benda á að rafpúlsarnir eru í nokkrar ef ekki meira en 10 sekúndur. Teljið upp á 10 og ímyndið ykkur að það sé verið að stuða ykkur, nokkuð óhugnarlegt er það ekki?
Alfreð Símonarson, 18.11.2007 kl. 19:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.