Jólahátíðin hjá mér
27.12.2007 | 19:40
Jæja, loksins læt ég í mér heyra eftir jóladagana. Ég var án almennilegrar tengingar yfir jóladagana tvo og í gær var ég bara einfaldlega of löt til þess að nenna að blogga. Í stað þess að taka þátt í brjálæðinu sem eru útsölurnar á annan í jólum (hér fóru sumir í röð um átta leytið á jóladagskvöld) þá hékk ég heima á náttfötunum og hafði það náðugt. Borðaði íslenskt sælgæti og horfði á sjónvarpið. Það var ákaflega notalegt. Svona á annar í jólum að vera - ekki biðraðir og slagur í búðum.
Hér kemur löng lýsing og mun ábyggilega enginn nenna að lesa lengra nema mamma og pabbi, og kannski einn og einn vinir. Þið hin getið bara skoðað myndirnar.
Klukkan tíu á aðfangadagsmorgun tók ég strætó niður að lestarstöð og síðan lestina út í Surrey þar sem Tim, maðurinn hennar Juliönnu sótti mig. Hann var ákaflega ánægður með að hafa fengið það verkefni að sækja mig því ástandið á heimilinu var víst rafmagnað. Allir í stressi og systurnar farnar að senda illskuleg skot hvor á aðra. Mér skyldist síðar að ástæða hafi verið fyrir afsökunarbeiðnum því þær rétt svo sluppu við slagsmál. Ég þurfti ekki að horfa upp á þetta því ástandið hafði róast þegar ég mætti á staðinn. Þetta var í fyrsta sinn sem jólin voru haldin hjá Juliönnu en þar sem mamma hennar var með í eldamennskunni hefði svo sem ekki þurft að vera svona mikið stress. Ég hugsaði til jólanna heima þar sem ég man bara ekki eftir stressi á aðfangadag. Kannski af því að það er auðveldara að elda svínið en kalkúninn. En kannski er það líka munur á fólki. Mamma stressar sig ekki oft.
Við borðuðum klukkan eitt í stað sex því litla systurdóttir Juliönnu var á Winnipeg tíma og vitað mál að hún myndi sofna fyrir fimm. Þetta var hluti ástæðunnar fyrir stressinu því til þess að hafa kalkún tilbúinn klukkan eitt þá þarf að elda megnið af nóttinni. Þessi flykki þurfa svo ógurlegan eldunartíma. En þetta gekk allt eftir, þótt kalkúnninn hafi reyndar verið tilbúinn klukkan tíu um morguninn vegna vitlausra reiknina (sem er fyndið af því að Tim er stærðfræðikennari í menntaskóla - það er ekki enn vitað hvort hann reiknaði vitlaust eða hvort honum voru gefnar vitlausar upplýsingur um stærð fugls eða bökunartíma á hvert pund). Maturinn var góður eins og við mátti búast og ég passaði mig á að éta ekki á mig gat.
Klukkan fjögur fórum við í messu í babtistakirkju sem vinir Tims og Julönnu tilheyra. Þau voru víst margbúin að biðja þau skötuhjú að koma með sér þangað. Við vorum nú ekki sérlega hrifin af messunni. Kannski er maður orðinn svo vanur gömlu lútersku þyngslunum að svona létt og skemmtileg poppmessa passar bara ekki inn í dæmið. Ég saknaði alla vega tónunar prestsins og þess þegar prestur og söfnuður kallast á. Og eins hefði ég viljað heyra sálmana í sínum hefðbundnu útgáfum. Það var eiginlega bara Heims um ból sem sungið var á hefðibundinn hátt. Annað var svona ekki alveg eins og maður vildi hafa það. Ég var mest pirruð yfir útsetningunni á What child is this, sem vanalega er sungið undir Greensleeves laginu, og sem að þessu sinni var nær óþekkjanlegt. Mér fannst eins og þeir hefðu ákveðið að syngja bara bakröddina í laginu en ekki aðalröddina, og það var ekki flott. En það var samt skemmtilegt að prófa að fara í öðru vísi messu. Ég hafði áður prófað að fara í jólamessu hjá kanadísku sameinuðu kirkjunni, hjá ensku biskupakirkjunni og hjá kanadísku lúterskirkjunni (sem er töluvert ólík okkar lútersku kirkju). Að mörgu leyti var ég hrifnust af messunni hjá ensku biskupakirkjunni - hún var svo falleg og hátíðleg. Ef ég verð hér úti um næstu jól eða þarnæstu þá held ég að ég fari í messu hjá kaþólsku kirkjunni. Hef trú á að það gæti verið skemmtilegt.
Um sex leytið opnuðum við pakkana og þið hefðuð átt að sjá fjöldan á jólagjöfum á þessu heimili. Ég held að Julianna, systir hennar og mamma, gefi hver annarri sjö eða átta pakka. Og þá ekki smávægilega. Það er aðeins komið eitt barnabarn, hún Bryndís litla, og ég held að Julianna hafi gefið henni úlpu, stígvél, náttföt, kjól, og fjölda leikfanga. Þau þurfa greinilega fleiri börn því þessi er á hraðferð við að verða gjörspillt. En það er svo sem verið að reyna. Bæði Julianna og systir hennar eru með mælinn á fullu og svo eru karlarnir dregnir upp í rúm þegar tíminn er réttur. Ætli það verði ekki komin þrjú börn að ári.
Ég var mjög ánægð með mínar gjafir. Toppurinn var málverk eftir níu ára gamlan bróðurson minn, Arnar. Ákaflega falleg og sólrík mynd í stíl Stefáns frá Möðruvöllum. Ég fékk líka ákaflega fallegt lopavesti frá mömmu og pabba, sem hefðu ekki átt að gefa mér neitt því þau gáfu mér myndavél í sameiginlega afmælis- og jólagjöf. En mamma er svo gjafmild og elskar það að gleðja fólk. Og það tókst líka vel. Ég var ákaflega ánægð með vestið mitt og held að ég sé bara fín í því. Þau gáfu mér líka nýja diskinn með Álftagerðisbræðrum sem ég hef alltaf gaman af. Við fyrstu hlustun finnst mér þessi diskur þó ekki eins góður og hinir fyrri og veldur fyrst og fremst skorturinn á einsöng. Þeir hafa allir svo fallegar raddir að mér finnst alltaf skemmtilegt að heyra í einum í einu. Þarna eru næstum engir einsöngvar. Ég hafði meira gaman af DVD disknum sem kom með. Ég var búin að gleyma því hversu fyndinn hann Óskar er. Stundum er nóg að horfa á hann glenna sig aðeins til að fara að hlæja. Kannski er það meðal annars vegna þess að það minnir mig á ættarmót fyrir nokkrum árum þar sem Óskar fór á kostum á harmonikkunni. Hann er giftur frænku minni og var virkilega lífið og fjörið á því ættarmóti. Ég mun ekki fara nánar út í sögur enda vita allir að what happens at ættarmót stays at ættarmót!!!!
Næst vil ég fá jóladisk frá Álftagerðisbræðrum og þar vil ég heyra Óskar syngja Ó helga nótt. Fáir syngja það lag vel. Ég er einmitt núna að hlusta á hann syngja í þættinum sem sýndur var á Aðfangadag og þar sem hann syngur með karlakór Reykjavíkur.
Ég fékk líka disk Ljótu hálvitanna (sem ég hef aðeins byrjað að hlusta á og haft gaman af - þeir eru snillingar þessir strákar og skemmtilegt að hlusta á hann Sævar minn sem var alltaf svo skemmtilegur þegar við vorum saman í bekk í denn. Svo fékk ég líka diskinn með Ellen (frá Geira bróður og fjölskyldu) en hef ekki komist í að hlusta á hann. Ég fékk tvær bækur, bókina um Karítas eftir Kristínu Mörju, og svo bókina um íslenska hugsun (frá Gunna og fjölsk. og Geira og fjölsk.). Það eina sem vantaði þar var nýja bókin hans Arnalds Indriða. Ég er ekki enn búin að ná því að ég skuli ekki hafa fengið þá bók í jólagjöf. Það er ekki eins og það hafi ekki allir vitað að hann er uppáhaldshöfundurinn minn. Ég var búin að hlakka ógurlega til þess að byrja að lesa bókina strax að kvöldi aðfangadags og kláraði bókina um Morse í tæka tíð. En nei, enginn Arnaldur til mín En pabbi sagðist hafa fengið hana í jólagjöf þannig að þegar hann er búinn að lesa hana ætlar hann að senda mér bókina svo ég geti lesið hana. Ég verð því að bíða um sinn.
Ég fékk líka rúmföt frá stelpunum hans Hauks bróður, sokka með íslenska hestinum á frá Rosemary (sem fór til Íslands í sumar), skíðagrímu frá Rut sem ég get annað hvort notað til þess að ræna banka eða ef ég fer á skíði í Alberta þar sem slík gríma er nauðsyn, gjafakort í Le Chateau frá Juliönnu og Tim og annað frá mömmu hennar Juliönnu, og reyndar gaf Julianna mér líka gjafakort í Starbucks því hún veit að ég vinn hvergi eins vel og þar. Ég fékk líka bók og konfekt frá Dianne Brynjólfson og fjölskyldu og svo krem og kerti í gjafaskiptum hjá Brynjólfsson fólkinu. Jólasveinninn gaf mér svo litla jólakúlu með engli innan í. Mamma og pabbi sendu mér svo líka gullfallegtkort eftir Önnu Ó Guðmarsdóttur með fallegri hugsun til dóttur. Þetta er svona í stíl við Hallmark kortin, ef einhver kannast við þau.
Ég gisti hjá Juliönnu og þeim á jólanóttina og vaknaði eldsnemma þegar Bryndís var komin á kreik. Um sex leytið held ég, eða fyrr. Náði að sofna aftur en skreið svo upp í sófa og kláraði að prjóna trefil handa Juliönnu sem ég hafði ekki náð að klára í tæka tíð. Svo var borðaður stór og góður pönnukökumorgunverður og eftir það tók Bryndís upp sína pakka en hún hafði verið sofnuð þegar við hin opnuðum okkar. Það var svo sem alveg í stíl við kanadískar hefðir því hér eru pakkar vanalega opnaðir á jóladagsmorgunn. En af því að Julianna er af íslenskum og þýskum ættum hafa þau alltaf opnað á aðfangadag eins og Evrópubúar.
Eftir hádegið komu Dianne og Gerry og sóttu mig og ég keyrði með þeim til Kathie systur Dianne þar sem Brynjolfson fólkið kom saman. Þar borðaði ég aðra kalkúnsmáltíð og je minn hvað þessi kalkúnn var góður. Held ég hafi aldrei smakkað svona safaríkan kalkún áður. Hann var alveg fullkominn. Ég hefði auðvitað frekar viljað borða nýtt svín eða reikt svín eða jafnvel hangikjöt en ég verð að sætta mig við kanadískar hefðir. Hér borða allir kalkún meira og minna.
Ég spjallaði svolítið við Ben, pabba Brynjolfson systranna, sem fullu nafni heitir Brynjólfur Bolli en það er of erfitt nafn fyrir Kanadabúa. Hann var sá eini sem talar íslensku svo við spjöllum alltaf á okkar ástkæra ilhýra þegar við hittumst.
Um ellefu leytið fannst mér tími til að fara heim enda vildi ég ná síðasta hraðstrætó heim en þeir hætta að ganga á miðnætti. Það sem við tekur er venjulegur strætó sem stoppar á 200 metra fresti og svo þarf ég að skipta um vagn á miðri leið og gæti þurft að bíða í hálftíma eftir hvorum vagni. Ég náði að húkka far með Richard, sem er vinur Patricks, mannsins hennar Kathie. Ég bað hann bara að keyra mig á lestarstöðina en hann þessi elska sagðist ekki vilja hugsa til þess að ég væri í lestinni um miðja nótt og keyrði mig alla leið heim. Það er ekkert smá almennilegt því þetta er um klukkutíma keyrsla. Og han býr sjálfur í Surrey einhvers staðar ekkert langt frá Kathie og Patrick. Ég var ekki komin heim fyrr en um miðnætti og hann átti þá eftir klukkutíma akstur heim til sín. Þetta er eins og AKureyringur skutlaði einhverjum í Varmahlíð eða að Reykvíkingur skutlaði einhverjum upp í Borgarnes. Svona rétt fyrir svefninn. Það er þó gott að vita til þess að það er til gott fólk.
Og þá er ég eiginlega komin hringinn því ég var búin að segja ykkur frá leti minn í gær.
En svona hafa jólin sem sagt verið.
Athugasemdir
Jolin jolin, það er aldeis nóg um að vera hjá þér stelpa. Gott að þú færð ´frídaga inn á milli til að keyra þig ekki út af kalkúnaáti og jólaboðum. Áfram gleðileg jól. jólakveðja fra Akureyri, Rut et al
P.S. Ég vil fá mynd af þér með grímuna ;)
Rut (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 20:59
Yndisleg jól greinilega hjá þér, gaman að lesa færsluna. Richard fær auðvitað extra flottan bónus fyrir skutlið, og eins og þú segir: það er gott að vita til þess að það er til gott fólk. Stundum er það líka þannig að gott fólk trekkir að gott fólk
Ég ætla að elda kalkún um áramótin ... þarf að undirbúa mig greinilega vel undir það. Annars tek ég "no stress" stimpilinn á þetta - stress eykur bara hrukkur, og það er ekkert skemmtileg viðbót á sköllóttan mann
Kærar jólakveðjur héðan frá Akureyri!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 21:03
Aldeilis fín jólin heyrist mér á öllu.
Er alveg virkilega hrifin af myndinni af þér þar sem þú heldur á gjöfinni frá foreldrum þínum, alveg rosalega fín mynd af þér!
Fín jól á Hawaii þó rauð væru. Hefði nú samt viljað þau hvít það verður nú að viðurkennast! Átum á okkur stórt gat af hangikjötinu góða og öllu tilheyrandi....úúffff það verður heldur betur tekið á því eftir áramótin og náð kílóunum af áður en við förum til Íslands næsta sumar, það er ekki sjón að sjá mann.....
Hafðu það gott yfir áramótin Stína mín.
Höldum áfram net-sambandinu á nýja árinu.
Kærar kveðjur
Rakel, gamall Akureyringur!
Rakel (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 21:31
jahá flott jól - og flottur skuttlari þarna á ferð - thumbs up for him -
og ég skil þig vel að vera svekkt yfir að fá ekki Harðskafa ... þar sem ég veit ekki um neinn sem ekki fékk hann uff það fengu hann bókstaglega ALLIR held ég bara, já og þar á meðal ég. Mamma las hana einmitt áður en ég fór aftur til Rey því hún fékk hana ekki - ekki gáfulegt að gefa tvær á sama heimilið nánast (þar sem að ég er einkabarn (-: ).
en mér finnst Doddi hafa gleymt einu mikilvægu atriðið - það voru hvít hjá á Íslandi þetta sinni - snjóaði svona líka fallega á jóladagskvöld á Akureyri uff það var svo fallegt - svo keyrði maður um bæinn á snæviþökktum götunum, ekki búið að riðja og ekkert salt og bara oh æðislegt :D
Svo kom ég suður í gær og þetta er svipað hér, nema stofnbrautirnar eru auðvitað orðnar auðar en geggjað að keyra allar smærri götur og bílaplön yeh allt á hálf kafi bara hehe geggjaður fílingur ;)
Ég er að reyna að setja video af snjókomunni inn á facebook - gengur bara illa sjáum til hvort það fari inn - en það eru nokkrar jólamyndir þar.
Njóttu jólarestinnar :*
Hrabba (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 21:46
Ljótu hálfvitarnir rokka, bara stilla í botn (sérstaklega í byrjun) og skæla síðan hátt og með hraði yfir Harðskafa. Þú átt hins vegar gott í vændum með Karitas án titils (ef þú ert ekki þegar búin með hana), ég hlakka mikið til að lesa Óreiðu á striga. Og fékkstu ekki Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson, uss uss ...?
Berglind Steinsdóttir, 27.12.2007 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.