Dásamlegur dagur í Whistler

Ég komst loksins á skíði og það var alveg dásamlegt.

Ég vaknaði klukkan hálfsjö í morgun, borðaði morgunverð rauk út til að ná strætó. Ég þurfti að taka tvo strætisvagna niður í bæ og síðan ferjuna yfir til Norður Vancouver þar sem Peter vinur minn beið. Hann býr þar nyrðra. Það tók óvenjulangan tíma að komast uppeftir enda er verið að byggja upp veginn megnið af leiðinni vegna Ólympíuleikanna 2010. Klukkan var komin á tólfta tímann þegar við vorum loksins komin uppeftir og þá tók við gondólaferð upp í mitt fjall og síðan tvær stólalyftur þaðan upp á topp.

At WhistlerVið þurftum að bíða í fimmtán til tuttugu mínútur nokkrum sinnum en yfirleitt voru biðraðir þolanlegar. Samt voru alveg ótrúlega margir á skíðum miðað við að það var þriðjudagur. Ég var að velta því fyrir mér af hverju þetta fólk var ekki í vinnunni, eða í skólanum. Ekki geta allir verið að skrifa doktorsritgerð. Ég hef grun um að margir hafi bara tekið sér frí frá daglegum önnum vegna góðrar veðurspár. Enda var veðrið alveg dásamlegt. Sól og blíða en nokkuð kalt. Líklega um tíu stiga frost, þótt einhver hafi reyndar sagt að það hafi verið átján stiga frost. Ég er nokkuð viss um að það var ekki rétt. Færið var súper gott í troðnu brekkunum en þær ótroðnu voru ekkert sérstakar. Snjórinn of þungur. Í Whistler, eins og víða, eru brekkurnar merktar eftir því hversu erfiðar þær teljast. Þessar grænu eru auðveldastar og eru yfirleitt fyrir byrjendur. Bláu ferhyrningarnir eru fyrir meðaljónin og svörtu demantarnir fyrir  þá reyndari. Þar má reyndar velja um einn eða tvo svarta demanta og eru tveir erfiðari en einn. Demantarnir eru yfirleitt ótroðnar brekkur og stundum sértilgerðir mógúlar. Ég fór ekki margar ferðir niður demanta í dag þótt ég hafi vanalega gaman af því að skjótast niður þá nokkrar ferðir. En ég er alltaf hrifnust af breiðum, bröttum og vel troðnum brekkum. Það er sennilega gamla keppnisskapið. Ég get ímyndað mér að ég sé í vel lagðri braut að keppa. Ég sakna þess mikið að fá ekki að skíða niður braut. Hef ekki gert það síðan ég hætti að æfa fyrir...allmörgum árum.

Lyfturnar loka á bilinu hálfþrjú til korter yfir þrjú og ég náði ekki að komast alla leið upp á topp áður en hærri lyftunum var lokað. En komst þó nokkuð hátt. Ákvað að reyna vel á lærin á niðurleiðinni og skíðaði hratt niður í meira og minna einum rykk. Það tók um tíu mínútur að komast niður fjallið. Ég stoppaði einu sinni í nokkrar sekúndur til að gefa leggjunum smá afslöppun því læravöðvarnir voru farnir að titra. En svo hélt ég áfram.

Þetta var alveg súperdagur. Ferskt fjallaloft, sólskin, dásamlegur snjór, vel ruddar brautir, góður félagsskapur og chilli í hádegisverð (náði að halda mig frá hamborgara og frönskum).

Eftir skíðaferðina var ég svo þyrst að ég þambaði vatnið á heimleiðinni. Þurfti því að sjálfsögðu að pissa á miðri leið og var alveg í spreng þegar við komum niður í Norður Vancouver. Staulaðist á klósett á ferjumiðstöðinni og hélt að ég myndi aldrei klára. Þegar ég kom heim drakk ég þrjú eða fjögur glös af vatni og hef síðan verið að sötra vatn allt kvöldið. Er ennþá þyrst. Það er sennilega ferska fjallaloftið sem gerir þetta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mmmmm, hljomar yndislega..... Eg fekk gamla goda utivistarfris-nostalgiu vid ad lesa skrifin thin. Synd ad Akureyringar hafi ekki flutt ut "conceptid" utivistarfri, her gapa menn bara thegar eg segi fra svonalogudu....ja eda songsal... 

Rut (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 11:20

2 identicon

úff nett öfund hérna megin

Hrabba (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 14:14

3 identicon

Hljómar vel hjá þér! Ég hef ekki verið á skíðum mikið síðan ég var krakki, en skil vel þorstann samt Sólskinið og fjallaloftið (að litlu leyti) fékk maður á Kanarí ... en engan snjó sá ég.

Hafðu það gott!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 20:04

4 identicon

Mikið hefur nú verið gaman hjá þér á skíðum!! Mikil öfund!

Ég man þegar við bjuggum í Japan hvað við John fórum oft á skíði, ferlega gaman! Ekki svo mikið af því hér í Hawaii sólinni!! hehehe

Hafðu það gott ,

kærar kveðjur.

RAKEL (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 22:56

5 identicon

Öfunda þig gekkt eins og börnin segja! Er reyndar nýbúin að kaupa mér ný skíði sem ég á eftir að prófa, verð að reyna að drífa stubbinn í pössun í fyrramálið og smella mér á skíði. Kv Helena

Helena Gudlaug Bjarnadottir (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband