Vinnuhelgi

Nú er þessi helgi að verða búin og ég er búin að vinna eins og sjúklingur. Byrjaði snemma í gærmorgun. Átti að leika fótbolta gegn Wildcats en þegar ég skreið á fætur klukkan átta um morguninn athugaði ég póstinn minn og sá þar bréf frá þjálfaranum þar sem tilkynnt var að leik væri frestað vegna snjókomu. Þjálfari hins liðsins hafði farið eldsnemma út á völl og sá þar að allt var á kafi í snjó og ekki hægt að spila. Hluti af mér andvarpaði af svekkelsi en hinn hlutinn af ánægju – ég gat skriðið aftur undir sæng. En ekki var ég búin að liggja nema í nokkrar mínútur þegar síminn hringdi. Það var Leah að láta mig vita að búið væri að fresta leiknum. Hún mundi ekki hvort ég hafði tölvupóst heima eða ekki. Ég spjallaði aðeins við hana og var nú glaðvöknuð og ekkert þýddi að reyna að sofa. Svo ég fékk mér morgunverð - óvenju stuttan því blaðið kemur ekki út á laugardögum, og svo fór ég bara að skrifa.

Ég var í stuði og skrifaði þangað til um eitt leytið þegar ég skrapp í kaffi til Rosemary. Kom heim aftur um þrjú leytið og hélt áfram að skrifa. Var reyndar dauðþreytt og reyndi að sofa á milli fimm og sex en ég held ég hafi í mesta lagi dottað. Ég sef yfirleitt ekki á daginn. Um sjö hófst leikur Canucks á móti LA Kings sem er lélegasta liðið í deildinni. Þeir vinna varla leik - nema þegar þeir spila á móti okkur. Og það gerðist aftur í gær. Skil ekki hvernig á þessu stendur. Við vorum með 45 skot að marki en skoruðum ekki nema þrjú mörk. Þeir skutu sextán sinnum að marki og skoruðu fjórum sinnum. Og við erum með besta markmann í heimi. Greinilegt að Luongo er mannlegur og á sína slæmu daga.

Um hálfníu  leytið fór ég yfir í Burnaby að spila innanhúsfótbolta. Mér fannst ég ekki spila vel. Náði einhvern veginn ekki að koma mér inn í leikinn. En ég held ég hafi ekki verið léleg. Bara ekki eins þolanleg og mér finnst ég geta verið. Leikurinn endaði 4-4. 

Lína hringdi í mig í gærkvöldi og bauð mér með á skíði í dag. En ég gat ekki farið því ég átti von á viðgerðarmanni frá símanum. Hann átti að koma á milli átta og tólf. Ég gat því ekki farið út og notið fallega veðursins heldur húkti heima og beið. Og þá var um að gera að nota biðina til skrifta. Svo ég skrifaði og skrifaði. Símamaðurinn kom ekki fyrr en klukkan tvö. Þá var ég búin að bíða í sex klukkutíma. Hann gat lagað sumt en ekki allt. Ætlar að koma aftur á morgun. Aðalástæðan fyrir veseninu er sú að símalínurnar í húsinu eru frá fornöld. Nískupúkarnir sem eiga húsið hafa ekki látið endurnýja neitt. Megnið af rafmagninu er t.d. ójarðbundið. Hugsanlega þarf að skipa um allar símalínur og það myndi taka marga klukkutíma.

Gallinn var að um leið og símamaður byrjaði að fikta í línunum versnaði vandinn og nú er módemið að endurræsa sig mörgum sinnum á klukkutíma og það þýðir að internet og sjónvarp lokast í þrjátíu sekúndur í hvert sinn. Sem betur fer er ekkert spennandi í sjónvarpinu í kvöld vegna verkfalls handritshöfunda.

En aðal málið er að ég hef skrifað alveg helling þessa helgina. Kaflinn minn um ástandssagnir er orðinn 37 síður sem er að verða nokkuð góð lengd.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rut tipsaði mig að spyrja þig, þar sem þú ert líka með Makka. Hvað notarðu á skype-inu? Ertu með símtól eða bara heyrnartæki og hvar fékkstu það?! Ég þarf nefnilega að skaffa mér og er nú þegar búin að brenna mig á að það sem ég get keypt í "venjulegum" búðum hér og sem afgreiðslumennirnir segja að "passi ábyggilega líka fyrir mac", gerir það ekki.. E-r góð tips? :)

Helga Fanney 

Helga Fanney (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 18:47

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hæ Helga. Ég nota heyrnartól frá Logitech með innbyggðum míkrafón. Ég held að hvaða heyrnartól sem er passi svo framarlega sem þau hafa USB tengingu. Heyrnartól sem nota in/out línu eins og PC eru gagnslaus.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.1.2008 kl. 23:48

3 identicon

Takk, ég hef þetta í huga.. :) Ég er nefnilega líka að spá í svona símtól, sem virkar meira eins og "venjulegur" sími, ef þú skilur.. :) Ég held nefnilega að ég neyðist til að panta þetta á netinu og Það er pínu pirrandi að geta ekki farið út í búð og spurt að því sem maður vill spyrja um og geta stólað á að fá almennileg svör!

Helga Fanney (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband