Og sólin skín sem aldrei fyrr
25.1.2008 | 21:49
Veðrið í Vancouver hefur verið dásamlegt alla vikuna - sól og blíða en hrollkalt (þegar maður er kominn úr æfingu - í raun hangir þetta aðeins neðan við frostmark). Skemmtileg tilbreyting frá grámanum og rigningunni sem maður er vanur. En samt er búið að fresta fótboltaleiknum sem ég átti að spila á morgun. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að það er spáð slyddu eða vegna þess að jörðin í Delta er frosin (Delta er hér suður af Vancouver, alveg niðri við landamæri). Það verður hugsanlega hægt að finna nýjan völl sem höndlar frost og snjó betur en mér þykir það ekki líklegt. Alla vega ekki ef snjóar. Það er ekki talið leikandi á völlum þegar maður sér ekki línurnar. Ætli ég verði ekki að hreyfa mig á einhvern annan hátt.
Ég sit núna á háskólabókasafninu og reyni að læra. Það gengur þolanlega en mætti þó ganga betur. Ég held að það sé af því að ég er orðin of svöng. Ætli ég rölti ekki út í SUB (nemendabyggingu) og fái mér eitthvað í gogginn. Það eru tæpir tveir tímar þar til ég þarf á fyrirlestur. Angelika Kratzer, frægur merkingarfræðingur, er hér í heimsókn og ætlar að að tala um það sem hún er að vinna að. Það ætti að vera áhugavert.
Í morgun kenndi ég tvo tíma í inngangi að málfræði. Annar hópurinn hefur tuttugu manns og hinn átta. Svolítið ójafnt. Það skrítna er að meðal þessa átta er aðeins einn nemandi sem hefur ekki ensku að móðurmáli en í stóra hópnum eru aðeins sex af tuttugu með ensku að móðurmáli. Skrítin skipting.
Athugasemdir
Hæ, skemtileg síða:) væri vit í því að koma til vancouver í nokkra vikna enskunám ? Á ættingja þarna. kveðja EBG
Egill Bjarki Gunnarsson, 26.1.2008 kl. 04:07
Takk fyrir. Vancouver er alveg magnaður staður. Hér er dásamlega fallegt með sjóinn hér fyrir neðan og fjölin fyrir ofan. Fyrst þút átt ættingja hér þá þarftu endilega að skella þér hingað út.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.1.2008 kl. 07:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.