Íslenskur fnykur af fótboltanum
30.3.2008 | 08:34
Í morgun fór ég á leik með knattspyrnufélaginu Vancouver Whitecaps en þjálfari þess er enginn annar en Teitur Þórðarson. Þetta var sýningarleikur gegn SFU háskólaliðinu og Whitecaps tóku þá algjörlega í nefið. Lokatölur voru reyndar ekki nema 3-0 en það segir ákaflega lítið um gang leiksins. Ég held að SFU hafi ekki átt neitt gott skot að marki. Varnarmenn Whitecaps héldu þeim algjörlega niðri. Whitecaps áttu hins vegar fjölmörg frábær tækifæri. Þeir hafa býsna góða framherja.
Við vorum nokkrir Íslendingarnir sem mættum á leikinn, með íslenskan fána, og hvöttum liðið áfram. Þetta voru mjög íslenskar aðstæður þar sem það var fremur kalt svo maður var vafinn í húfu og vettlinga, og svo stóð Óðinn hluta af leiknum eins og góðum Íslendingi sæmir (þótt hann sé reyndar Vestur-Íslendingur). Ég man að það voru alltaf karlar á Akureyrarvelli sem stóðu fremur en að sitja á leikjum.
Eftir leikinn var hádegisverður í Íslandshúsi og Teitur kom í mat ásamt einum fjórum eða fimm öðrum starfsmönnum Whitecaps, þar á meðal aðstoðarþjálfaranum. Það var þrælgaman að tala við þá og ég spjallaði t.d. lengi við upplýsingafulltrúann þeirra og við ræddum um nýja völlinn sem þeir ætla að byggja og almennt um stefnuna. Það var líka skemmtilegt að hitta Teit og hann viðurkenndi að aðstæður hér væru vissulega öðruvísi en hann ætti að venjast.
Mér fannst magnað þegar aðstoðarþjálfari liðsins kom til mín og óskaði mér til hamingju með nýju vinnunna. Ég var orðlaus og fannst þetta ógurlega sætt af honum. Í ljós kom að Jana hafði sagt honum frá þessu.
Um kvöldið lék ég ásamt innanhússliðinu mínu í Burnaby (þar sem við leikum alltaf). Leikur klukkan tíu á laugardagskvöldi. Ouch. Við unnum leikinn 10-5. Dave var orðinn svo hræddur um að við yrðum sett í aðra deild að hann gerði allt sem hann gat til þess að leyfa hinu liðinu að skora. Hann var í marki í stað Joe sem var í veislu, og Dave var farinn að færa sig út úr markinu og sendi boltann á hitt liðið en það var alveg sama hvað hann reyndi. Þeim gekk ekki vel að koma boltanum í markið. Hann var búinn að banna okkar liði að skora fleiri mörk þegar við vorum tveim mörkum yfir, en það er ekki hægt að stoppa þessa stráka.
Þetta var síðasti 'tiering' leikurinn og eftir hann talaði Dave við mótstjórann. Hann viðurkenndi að hann hafi ætlað að setja okkur í aðra deild þar sem við unnum tvo af þremur leikjum svona stórt en ákvað svo að halda okkur í þriðju deild. Svo við getum andað léttar. Við eigum þá fyrir höndum skemmtilegt tímabil þar sem leikirnir geta farið á hvaða veg sem er. Í annarri deild hefði mátt búast við því að okkur yrði slátrað í hverri viku og það er ekkert sérlega gott fyrir sjálfstraustið.
Í næstu viku hefst því keppnin fyrir alvöru.
Athugasemdir
Eg heiti thvi hermed ad ef thad kemur islenskur thjalfari i itolsku fyrstudeildina skal eg skella mer a leik!!
Rut (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 12:28
Skemmtileg færsla og skemmtilegar myndir
EN - nú er það stóra stundin í dag í hokkíinu. Eftir leikinn í gær er staðan 2-1 fyrir SA og einn leikur eftir. Veit ekki hvort þú veist af því en sigurinn í fyrsta leiknum var dæmdur af SR vegna ólöglegs leikmanns (á reyndar líklega eftir að fara gegnum áfrýjun). SA gekk illa í gær og tapaði stórt. Spurning hvernig dagsformið verður í dag.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 13:22
Takk Anna. Nú er leikurinn byrjaður og ég finn hvergi hvernig staðan er. Ekki er sent út á RÚV í dag því miður. Vildi að einhver setti inn upplýsingar á heimasíður Íshokkísambands Íslands svo maður gæti alla vega fylgst með hvenær mörk eru skoruð. En ég verð víst að bíða þar til leikur er búinn.
Rut mín, er ekki stutt fyrir þig til Milan? Ættirðu nú ekki að fara á svo sem einn leik hjá AC eða Inter?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 30.3.2008 kl. 19:15
Ég stóð alltaf þegar ég horfði á fótboltaleiki hér áður fyrr en það var nú frekar af því að það voru engin sæti.
Hvernig eru aðstæður öðruvísi þarna í fótboltanum en t.d. hér á Fróni?
Marinó Már Marinósson, 30.3.2008 kl. 23:50
Rosalega ertu dugleg kona, siturðu aldrei kjur????
Róslín A. Valdemarsdóttir, 31.3.2008 kl. 01:17
Marinó, aðallega skilst mér hvað varðar líkamlegt form leikmanna, en að einhverju leyti getu. Þar að auki er verið að byggja klúbbinn upp.
Róslín, nei, sit aldrei kjurr. Reyni alla vega að vera aldrei kjurr.
Bjarni, ekkert smá æðislegt. Þú getur séð laaaaaaaanga færslu um leikinn hér fyrir ofan.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 31.3.2008 kl. 08:32
Nei, það gæti endað illa.... þessvegna fær maður stórann rass!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 31.3.2008 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.