Þegar Íran fór afturábak

Saga Íran er mjög athyglisvert og þá sérstaklega hvað snertir tengsl þeirra við hinn vestræna heim. Shah Reza Khan var mjög hallur undir vestræna menningu og innleiddi ýmsa evrópska siði í Íran en það sem hann gerði kannski best fyrir landið var það að hann reyndi að frelsa konur og gyðinga undan oki því sem báðir hópar voru undir af höndum mullahnna, eða hinna trúarlegu leiðtoga landsins. Þannig lokaði hann til dæmis gyðinga-ghettóunum og veitti gyðingum sömu stöðu og öðrum íbúum landsins, og hann gaf konum kosningarétt og bannaði notkun blæjunnar. Sonur hans fetaði í sömu fótspor og hélt hinni vestrænu menningu á lofti.

En þetta féll ekki í góðan jarðveg hjá trúarleiðtogum landsins - Ajatollah Khomeini tók við völdum eins og allir vita og  konur voru aftur faldar undir blæjum og komið fram við þær eins og annars flokks þegna landsins. Fjölmargir flúðu landið, m.a. konan hér í fatahreinsuninni í hverfinu mínu. Við höfum stundum spjallað saman um ástandið í landinu hennar.

Ég mæli annars með bókinni Cry of the Peacock eftir Ginu Nahai. Þetta er skáldsaga sem fjallar um síðustu tvöhundruð ár í Íran (megnið af tímabilinu Persíu) og þá sérstaklega sögu gyðinga í landinu. Bókin er nokkuð hrottaleg því þarna er lýst samfélagi sem ver mjög ólíkt því sem við eigum að venjast og oftar en einu sinni sat ég með hnút í maganum. En á sama tíma er þetta ótrúleg frásögn og ég átti erfitt með að leggja bókina niður.

Sjá dóm hér: http://www.bookreporter.com/reviews/0743403371.asp 


mbl.is Barbie ógnar íranskri menningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Þeir eru núna á sama stigi og kaþólska kirkjan í Evrópu á tímum rannsóknarréttarins. 

Púkinn, 28.4.2008 kl. 18:24

2 identicon

ÞEGAR ÍRAK FÓR AFTURÁBAK::Bandaríkin og slektríki þeirra,hafa sprengt og tætt ÍRAK aftur til steinaldar.

jensen (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 00:00

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ekki segja mér að Einor og Jensen séu að verja kerfið í Íran? Það sem Bússi hefur gert í Írak hefur ekkert með þetta mál að gera. Hann er ruglukollur, en það gerir þá ekkert betri.

Ef allir hugsuðu eins og DoctorE, væru engir múllar. Hið besta mál. 

Villi Asgeirsson, 29.4.2008 kl. 08:19

4 Smámynd: Árni Matthíasson

Hér er skautað listilega yfir sagnfræðilegar staðreyndir.

Reza Shah, sem stýrði Íran frá 1925 til 1941 var að sem menn almennt kalla grimmlyndur harðstjóri. Hann komst til valda í stjórnarbyltingu fyrir atbeina Breta og stýrði með harði hendi; þeir sem andmæltu stjórninni voru myrtir og fjölmörg dæmi eru um hrannvíg á óbreyttum borgurum.

Þessi mikli merkismaður, sem þú telur svo, var kaldrifjaður illvirki og varð á skömmum tíma einn auðugasti maður Írans (sagan segir að hann hafi meðal annars sölsað undir sig þúsundir þorpa).

Það er svo gráglettni örlaganna að Bretar og Sovétmenn steyptu honum svo á endanum þegar þeim þótti hann ekki nógu leiðitamur.

Árni Matthíasson , 29.4.2008 kl. 08:29

5 identicon

Það sem Kristín talar um er síðasti Íranskeisari, hann beitti sér fyrir umbótum sem afturhaldsöflin (núverandi valdhafar) þoldu ekki.  Þess vegan varð Íranskeisari að beita þá hörku.

Ríki Reza Pahlevi (síðasta Íranskeisara) var hreinasta paradís miðað við Íran eins og það er í dag í múslímaparadís Ajatollahna.

En það er með endenum hvað sumir eru tilbúnir til að bera blak af núverandi valdhöfum í Íran með skýrskotum í sömu gömlu klisjuna um hvað Bandaríkin eru slæm.  Ótrúlega útjaskað!

Gott hjá þér Kristín, að vekja athygli á þessu.

Örlygur Jóhansson (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 09:04

6 Smámynd: Árni Matthíasson

Ágæti Örlygur.

Nú get ég ekki svarað fyrir Kristínu en hún nefnir Shah Reza Khan í upphafi færslu sinnar og því gerði ég ráð fyrir að hún ætti við hann en ekki son hans Mohammad Reza Pahlavi. Þú veist greinilega betur en ég (og hún).

Mohammad Reza Pahlavi var reyndar lítill föðurbetrungur (þegar verst lét er áætlað að um 100.000 manns hafi setið í fangelsi án dóms og laga og þurft að sæta pyntingum vegna skoðana sinna).

Árni Matthíasson , 29.4.2008 kl. 09:46

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Örlygur, ég nefndi þá reyndar báða því ég sagði að sonur Reza Khan hefði fetað í fótspor föður síns og átti þá að sjálfsögðu við að hann hefði líka haldið vestrænni menningu á lofti og bætt stöðu kvenna. Það ar hins vegar Reza Khan sem hóf umbæturnar sem sonurinn hélt svo áfram með.

Og Árni, við erum ekki að bera blak af þessum Rezum tveim eða að segja að þeir hefðu verið dásamlegir menn. Það er augljóst að þeir voru harðstjórar báðir tveir. Það eina sem ég er að segja (og mér sýnist Örlygur á svipaðri skoðun) er að staða kvenna (og t.d. gyðinga) var miklu betri í þeirra tíð en hún er núna.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 29.4.2008 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband