Sumarið 2008 er gott sumar - ég verð að segja það

Það er of heitt þessa dagana. Hitinn fór í 33 stig í dag sem er gott og blessað nema ég hef enga loftkælingu í íbúðinni og sit því og svitna. Ég er með smá viftu í stofunni þannig að þegar ég er þar er nóg að strippa en hér inni í svefnherbergi langar mann helst úr skinninu. Ég er ekki viss um hvernig gengur að sofa í nótt.

Annars ætti ég ekki að kvarta því ég elska hitann. Í dag svaf ég frameftir, skreið svo niður á strönd í eftirmiðdaginn og lá þar og las á milli þess sem ég lokaði augunum og lét hugann reika. Ég þurfti á svona afslöppunardegi að halda.

Líf mitt hefur tekið svo ótrúlegum breytingum í sumar og til hins betra. Á sama tíma í fyrra var lífið ekkert sérlega skemmtilegt. Við Martin höfðum tiltölulega nýlega hætt saman, fótboltinn var kominn í sumarfrí, Marion var sú eina af vinum mínum sem var á svæðinu og ég eyddi dögunum við skriftir og gerði sama og ekkert skemmtilegt.

Nú er öldin önnur. Eftir að ég byrjaði að vinna fyrir Vanoc er ég búin að kynnast fjöldanum öllum af skemmtilegu fólki og það er alltaf eitthvað um að vera. Í gærkvöldi, eftir vinnu, fór ég t.d. út að borða með um fimmtán öðrum úr vinnunni og svo á eftir í partý hjá strák sem ég kynntist í gegnum fótboltann. Ég þekkti næstum engan þar en sat samt á spjalli við áhugavert fólk allan tímann. Á fimmtudagskvöldið spilaði ég hafnarbolta með vinnufélögunum og kom ekki heim fyrr en um hálftólf leytið því flestir fór á pöbbinn á eftir þar sem við tróðum í okkur hamborgurum. Á þriðjudagskvöldið spilaði ég fótbolta með Vanocfólki. Vinnufótboltinn og hafnarboltinn eru annars frábærar leiðir til þess að kynnast fólki. Þar sér maður vinnufélagana í öðru umhverfi en bara á fundum. Það hjálpar líka að vinnan er fjölbreytt og ég þarf að funda með fólki úr hinum ýmsu geirum fyrirtækisins. Þar má nefna tæknimenn, arkitekta, lækna (út af lyfjaprófunum o.s.frv.), öryggisdeildina, íþróttadeildina (uppáhöldin mín), hönnun, o.s.frv. Það þarf ótrúlega margt að koma saman til þess að svona leikar geti gengið upp. Og við þurfum að standa okkur vel til að geta fylgt Kína eftir.

Það má alla vega segja að mér hefur ekki leiðst í sumar. Ég held mér sé óhætt að segja að fullyrðing mín um áramót um að árið 2008 yrði gott ár hefur staðist hingað til. Ég vona að ég haldi áfram að vera sannspá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott ad heyra ad sumarid er svona vellukkad hja ther stelpa, vonandi heldur thetta bara svona afram. Eg sakna audvitad svolitid bloggsins fra ther -en skil vel ad felagslifid og vinnan geri bloggskrif erfid. Kannski tekst okkur lika ad hittast einhvern daginn a skype og spjalla um lifid og tilveruna!

Rut (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband